Frá Bláfjöllum til Tíbet

razorÍ nótt var ég staddur með stórum hóp útlendinga í tjaldbúðum upp í Bláfjöllum. Framundan var langt og strangt ferðalag til Tíbet og því eðlilega Bláfjöll fyrsti áningarstaðurinn. Í hópnum kom ég auga á undurfagra kínverska konu, sem ég gaf mig á tal við. Ég sagði henni að mig hefði dreymt um að fara til Tíbet síðan ég las The Razor’s Edge eftir W. Somerset Maugham. Hún sagði ekki eitt einasta orð. Allt í einu kviknaði innra með mér áður óþekkt stærð af ást. Ég fann að þetta var konan sem ég vildi elska þar til ég yrði 21 grammi léttari. Við féllumst í faðma og létum vel að hvoru öðru. Mér leið dásamlega.

Ég ætla nú að leggja mig og athuga hvort ég hitti hana ekki aftur.

Gæfa og gjörfileiki

Ég hef verið með ógeðslega pest undanfarna daga og þankagangur minn því meira morbid en vanalega. Einhver myndi ætla að nú væri ástæða til að fagna, en ég finn meira fyrir sorg en gleði. Því meira sem ég heyri í pólitíkusum, því sannfærðari verð ég um að við eigum okkur ekki viðreisnar von. Ég vona að ég geti kennt pestinni um þessi viðhorf mín og þá tilfinningu að þjóðfélagið mitt sé aðeins rétt á fyrstu metrunum niður í díki örbirgðar og volæðis.

Hverfulleiki lífsins hér á fangaeyjunni hefur sjaldan verið sýnilegri. Það sem er í dag, endist stundum ekki fram á morgundag. Menn sem hafa til þessa álitið sig nokkuð örugga með atvinnu, missa hana fyrirvaralaust.

Afhverju mér er þetta hugleikið, veit ég ekki, en þegar Ólafur Fokkings tók við borgarstjórastöðu, fór ég eins og sönnum ólátabelg sæmir niður í ráðhús til að láta í mér heyra. Þar mætti ég fréttamanni sem horfði með mikilli vanþóknun á þá sem heyrðist hæst í. Ég ýki ekki, fyrirlitningin draup af honum. Þessi maður missti vinnuna ekki alls fyrir löngu. Ég sá hann í síðustu viku að mótmæla. Hann var reiður og hrópaði slagorð.

Hefði einhver sagt mér að ég ætti eftir að standa fyrir framan Alþingi og misþyrma makkintossdollu með skússíkapli, hefði ég ekki trúað því. Þannig er það. Og ég get ekki ímyndað mér hvernig þetta skúespil fer á næstu mánuðum. Eitthvað sem hljómar fráleitt í mínum eyrum í dag, á kannski eftir að verða að þeim veruleika sem ég bý í á morgun.

Núna þegar þetta er skrifað er ég að hlusta á viðtal við forsprakka Frjálslynda flokksins í Kastljósi. Ég var að spila tónlist fyrr í dag, og tölvan því tengd við magnara. Formaður frjálslynda, á milli þess sem hann skyrpir út úr sér gífuryrðum og svartsýnisspám, andar með skerandi andardrætti sem er einkennileg blanda af mæðuveikri rollu og Svarthöfða.

Allt í einu man ég að ég á súkkulaði.

Piparlúði

Þegar ég fylgdist með viðureign lögreglu við trukkabílstjóra á síðasta ári fylltist ég hryllingi. Það var í fyrsta skipti í mótmælum hérlendis sem piparúða var beitt. Hver man ekki eftir: Gas! Gas! Gas! Ég held þó að enginn hafi notað þessa upphrópun í viðvörunarskyni eftir þessi mótmæli, enda aumingjans lögreglumanninum, sem öskraði sem hæst, upplóðað á jútjúb, þar sem þúsundir samlanda hans, ýmist hneyksluðust, eða gerðu grín að honum. Þetta var í fyrsta skipti sem ég heyrði minnst á piparúða. Nú á nýju ári er piparúði orðinn ómissandi hluti af daglegu skemmtanalífi. Það liggur við að maður spreyi honum sjálfur á sig, áður en maður bregður undir sig betri fætinum og skellir sér niður í bæ. Hvað fleira ætli verði samdauna okkar þjóðfélagi á komandi mánuðum?

Tilfinningasemi

Þegar ég vaknaði í morgun var ég orðinn veikasti maðurinn í litla Skerjarfirði, ef ekki öllum heiminum. Framan af degi leið ég svo miklar vítiskvalir, að ég hugsaði með sjálfum mér að betra væri að vera dauður en að líða svona.

Margar súrar og einkennilegar hugsanir urðu til í hausnum mínum, meðan ég engdist sundur og saman í fleti mínu. Mér varð hugsað til þess tíma sem ég vann á Grund. Á deildinni minni var rúmliggjandi kona, sem ég sinnti margsinnis. Við urðum miklir vinir. Líkami hennar hafði hrörnað svo mikið, að hún var lítið annað en skinn og bein. Öldrunin hafði þó farið mjúkum höndum um toppstykkið. Ég sprellaði mikið í henni, og hún sagði mér margsinnis að það væri sama hversu illa henni liði að alltaf gæti ég komið henni til að hlæja. Ég vona að hún hafi skynjað það, en hún gladdi mig mikið með þeim orðum. Ætli henni hafi liðið svona hræðilega illa? hugsaði ég þar sem ég lá sjálfur fyrir í hálfgerðu móki. Verður þetta svona hjá mér í ellinni, að liggja fyrir og geta mig hvergi hreyft, kvalinn á sál og líkama, skýr í kollinum svo ég geti örugglega fylgst með minni eigin niðurlægingu. Sumsé, mjög morbid og súrar pælingar.

Síðdegis tók ég að hressast. Ég fór að hugsa um atburði síðustu daga, og varð öllu tilfinningasamari en ég á að mér að vera. Ég byrjaði að vatna músum þegar ég hugsaði um unga fólkið sem gekk á milli óeirðarsveitarinnar og bauð þeim upp á heimabakaðar smákökur. Það var svo fallegt. Og ekki var síður fallegt að sjá þá lyfta upp plastinu á hjálmunum, til að stinga þeim upp í sig.

Ég hugsaði um Geir Jón, og hvað ég dáist af þeim gullfallega manni. Hann er með svo traustvekjandi og góða nærveru, að fólk fyllist þrá til að gera gott. Ég fékk grátstafinn í kverkarnar af að hugsa um þessar mínútur sem mótmælendum bárust fréttir af að ríkisstjórnin væri fallin. Hamingjan og gleðin ætlaði allt um koll að keyra, og uppábúnu mennirnir í svartgöllunum létu skildi sína síga og það lifnaði yfir þeim af feginleika. Því miður áttu þær fréttir ekki við rök að styðjast.

Ég hef þó ekki grátið Geir, eða aðra pólitíkusa í dag. Ég vona að allt blessist hjá Geir, og held þrátt fyrir allt sé hann vel meinandi maður í afar slæmum félagsskap. Ég er allur að verða betri, og vona að á næstu klukkustundum verði loku skotið fyrir þessa tilfinningasemi mína, og ég komist aftur til míns harðgerða sjálfs.

Fitubrennslan á Austurvelli

Ég hugsa að ég sé búinn að brenna 2-3 kilógrömmum síðan á mánudag. Síðustu þrjá daga hef ég dillað mér, dansað, hoppað, sungið, gargað og barið með misendingargóðum prikum, í sælgætisdós og nú síðast eftirlætispoppkornsskálina mína. Ég er sæll og glaður. Ég ætlaði ekki að taka þátt í dag sökum lasleika, en dreif mig af stað eftir að ég reiddist manneskju, sem eins og fleiri, sat heima hjá sér og dæmdi mótmælin út frá nokkrum villingum sem fyrirfundust í 3000 manna hópi. Samkvæmt hennar rökum hefði mér verið hollast að fara aldrei út úr húsi, þar sem fólk á það til að vera fífl.

Ég kastaði ekki neinu, heldur bjó bara til hávaða og hrópaði slagorð. Ég er ekki að fara að biðjast afsökunar á einhverjum ræflum sem köstuðu steinum, eggjum, bombum og kúk í laganna verði. Það er grunnhyggið að dæma þessi mótmæli út frá fáeinum vanvitum. Þar fyrir utan eru mótmælin að þroskast. Það var nóg af hávaða. Það var dansað og sungið. Flestir voru annaðhvort klæddir í appelsínugult, eða báru appelsínugula slaufu, en appelsínuguli liturinn er yfirlýsing um að viðkomandi vilji mótmæla friðsamlega. Lögreglumennirnir voru með blóm í hnappagatinu. Ungt fólk gekk á milli og buðu þeim óeirðarklæddu upp á bakkelsi, sem þeir þáðu með þökkum. Þegar líða fór á samkomuna, og stemningin orðin æðisleg, þá yfirgáfu þeir varðstöður sínar.

Ég hef ekki í hyggju að fara skrifa hér um pólitík. Pólitík er fullorðinsleikur sem ég hef aldrei verið góður í. Ég hinsvegar þekki vel muninn á réttu og röngu, og finn mig knúinn til að fylgja því sem ég tel vera rétt hverju sinni.

Svo vil ég tengja í uppáhaldsmoggabloggarann minn, Sigurð Þór Guðjónsson, hann skrifaði svo prýðilega færslu um viðhorf manna til mótmælanna síðustu daga: Mótmæli og óeirðir.

Ég er skríll

Án þess að ætla mér það sérstaklega öðlaðist ég í dag heiðursnafnbótina “skríll” og ekki annað hægt að segja en ég sé nokkuð hreykinn. Ég hafði ekki verið lengi við mótmælin við Alþingishúsið, þegar ég sá mér ekki annan leik á borði en að ganga til liðs við skrílinn. Ég hafði þar á undan ekki haft neinar fyrirfram hugmyndir um hvernig mótmælin kæmu til með að vera. Mótmælin sem ég hef hingað til sótt hafa verið hálf slöpp og eftir því sem ég best fæ séð vita gagnslaus.

Stuttu eftir hrun mætti ég einmitt á Austurvöll, tilbúinn til að mótmæla eins og berserkur, en þegar ég var rétt að komast í mótmælastuð byrjaði einhver maður að glamra á gítar. Hann söng: Ég á eeeeeeeenga peeeeeeeeninga! trallalllalla…rælælælæ.. Vissulega er gaman að heyra ljúfa gítartóna og fallegan söng, bara ekki þegar maður er stjarfur af adrenalíni að mótmæla ljóta fólkinu á Alþingi.

Í dag þegar ég vaknaði, sagði ég við sjálfan mig eitthvað á þessa leið: “Sigurður! Nú ferð þú og mótmælir við Alþingishúsið.” og upp úr hádegi keyrðum ég og vinnufélagi minn niður í bæ. Við vorum í ágætis skapi, með kærleik í hjarta. Stemningin við Alþingishúsið var frískandi og hreif okkur samstundis með. Við tókum til við að hrópa taktföst slagorð, og ég fann lund mína léttast í hvert skipti sem ég gargaði: Vanhæf ríkisstjórn! Vanhæf ríkisstjórn!

Undanfarnar vikur hefur mér leiðst lífið hér á Íslandi ægilega. Ég hef ekki mátt heyra á þetta ástand minnst án þess að finna fyrir depurð og vanmáttarkennd. Ég hef reynt að takmarka inntöku mína á fréttum til að sogast ekki inn í svarthol neikvæðni og vonleysis, en hversu mikið sem ég hef reynt hefur verið ómögulegt fyrir mig að leiða þetta ástand hjá mér.

Í hallargarðinum stóðum ég og félagi minn. Búið var að kasta nokkrum handjárnuðum mótmælendum í hrúgu við nýbygginguna. Þar lágu þeir og virtust þjakaðir eftir að hafa fengið framan í sig gusu af piparúða. Sumir þeirra höfðu ekki gert neitt annað en að vera þarna. Mér var gróflega misboðið. Er þetta Ísland? heyrði ég mann hrópa í geðshræringu. Ég veit ekki afhverju ég allt í einu stóð í fremstu víglínu. Líklega hefur mér fundist ég þurfa að leggja mitt af mörkum til að koma í veg fyrir frekari valdníðslu. Ég er mjög friðsamur maður. Ég hef aldrei á minni ævi gengið í skrokk á meðbræðrum mínum. Ég er enginn slagsmálakall. Ég kom þarna til að búa til hávaða og hrópa slagorð, en ekki til að slást við verkamenn í svörtum heilgöllum.

Uppáklæddir lögreglumenn, samkvæmt nýjustu tísku, höfðu fengið fyrirskipun frá einhverjum sem átti að hafa dómgreind til að meta aðstæður og bregðast við þeim. Fyrirskipunin var að tæma hallargarðinn. Tilhvers í ósköpunum? Hvað var unnið með að tæma garðinn? Lögreglumaður gargaði í gjallarhorn hótunum sem virkuðu eins og olía á eldinn. Starfsfélagar hans settu sig í stellingar og bjuggu sig undir atlögu við lýðinn. Þeir sem stóðu fremst, þar á meðal ég, réttu upp hendurnar, til að sýna þeim fram á að við hefðum ekki í hyggju að standa í barsmíðum. Það dugaði skammt, því þeir byrjuðu með offorsi að þrýsta á hópinn.

Þarna leið mér orðið mjög einkennilega. Nokkrir settust niður. Ég sá að það var lítið annað að gera og settist líka. Ég huldi andlitið, viss um að þeir ætluðu að fara að sprauta yfir okkur eitri. Þar sem við sátum og hreyfðum okkur ekki spönn frá rassi, fann ég fyrir mikilli samkennd. Þarna sat ég með fólki sem ég þekkti ekki neitt og beið þess að við yrðum beitt ofbeldi að hálfu lögreglunnar. Ég leit yfir hópinn sem sat þarna með mér. Þetta var fólk á öllum aldri úr öllum þrepum þjóðfélagsstigans. Frá 10 ára pjökkum til eldri borgara á níræðisaldri. Að við skyldum setjast niður dróg úr Operation: Tæma hallargarðinn, og þeir bökkuðu örlítið. Eftir að hafa setið blautur og kaldur í snjónum, að mér virtist eilífð, stóð ég upp. Ég sá náunga labba hjá sem ég þekki. Hann er atvinnuljósmyndari. Eitthvað gerðist og þrír lögreglumenn kasta sér á hann og handjárna. Síðar um kvöldið, þegar honum hafði verið sleppt, spurði ég hann hvað hefði gerst. Hann sagðist hafa tekið mynd af lögreglumanni sem stóð þarna skammt frá mér. Sá tapaði sér og réðist á hann. Þegar hann hafði haft hann undir, þá öskraði hann: “Ég veit hver þú ert og ef þú birtir myndina sem þú tókst af mér þá leita ég þig uppi og drep þig!” Á lögreglustöðinni eyddu þeir öllum myndunum á vélinni hans.

Enn og aftur mynduðu lögreglumenn keðju í þeim tilgangi að ganga á fjöldann og koma honum úr garðinum. Við sem vorum þarna fremst mynduðum þá tvöfalda keðju og stóðum sem fastast. Við snerum baki í lögregluna, til að fá ekki piparúða beint framan í okkur. Spölkorn frá þar sem við stóðum, tók lögreglumaður upp kylfu og barði ungan mann í keðjunni aftan frá í hausinn. Ekki kom til átaka á okkar væng, en allt logaði í óeirðum, þar sem pilturinn var barinn. Piparúðinn gekk í allar áttir og fleiri fengu að finna fyrir kylfunni.

Mér er verulega brugðið eftir atburði dagsins. Ég er svo reiður. Ég hef aldrei á minni ævi séð annað eins harðræði, nema þá í sjónvarpi. Lögregluembættið telur að með þessum hætti hafi þeir gert fólki grein fyrir að þeir séu fullfærir um að halda niðri mótmælendum. En því fer fjarri. Aðgerðir lögreglu hleypa einungis illu blóði í fólk. Mér eins og fleirum finnst þetta komið gott og ég skal persónulega taka þátt í að bera ykkur, sem eruð ábyrg, út úr þeim stofnunum sem þið hafið notað til að eyðileggja landið mitt.

Þeir eru að koma að ná í þig Barbara mín

Manninum er ekki hollt að vera sjálfum sér of eftirlátur.* Ég er alinn upp fyrir sunnan og norðan skítalæk, þar sem hús voru byggð í áföngum og af vanefnum. Sem ungur maður lærði ég að nægjusemi væri dyggð sem eftirsóknarvert væri að tileinka sér. Heraga var haldið upp á heimilinu og ekkert látið eftir okkur systkinunum. Mér til óbærilegra leiðinda var tildæmis ekki keypt inn á heimilið myndbandstæki þegar þau komu á markað og slógu svo eftirminnilega í gegn. Nammidagar voru á laugardögum, og bara drulluháleistar og sóðadónar úr Reykjavík mauluðu nammi á virkum dögum.

Er ég fór að bera ábyrgð á sjálfum mér, gerði ég eins og flestir sem alast upp við harðræði af þessari stærðargráðu: Ég flippaði gersamlega út. Þegar ég hafði flippað út í nógu mörg ár lofaði ég sjálfum mér bót og betrun. Ég snurfusaði mig og gerði mig fínan. Ég setti mér reglur og tók til við að aga mig. Ekki leið á löngu þangað til ég var farinn að lifa eftir svipuðu reglusetti og í æsku. Ekkert nammi á virkum dögum. Hætta að reykja. Hugleiðsla tvisvar á dag. Engan sékur og ekkert majones. Hlaupa 80km á viku. Hætta að baktala fólk. Bjóða öllum sem ég hitti góðan daginn. Eyða aðeins 20 þúsund í mat yfir mánuðinn. Missa 8 kíló á tveimur mánuðum. Og nú það nýjasta: Viku Facebook straff.

Já, það kemur heim og saman. Ég hef hangið á facebook, meira en ég kæri mig um. Ég þoli illa þegar ég er farinn að gera eitthvað sem mig langar ekki að gera, en geri samt. Að undanskilinni þeirri bráðskemmtilegu aðgerð að póka, svo ekki sé minnst á ánægjuna sem fylgir því að þiggja pók, er facebook tilgangslaust rusl. Ég hef því sett upp í tölvunni minn hugbúnað, sem ég hef stillt þannig að þegar ég reyni að fara inn á facebook, birtist síða sem á stendur: “They are coming to get you Barbara!” Hver er svo þessi Barbara kann einhver að spyrja sig.

[media id=196 width=520 height=390]

* Pistill dagsins hófst á alhæfingu um mannskepnuna. Ég hef gert svona áður og virðist þetta virka vel á þá kirtlastarfsemi líkamans sem sér um að dæla vellíðunarefnum inn í heilann minn. Með því að alhæfa á þennan máta, þegar ég er í raun að tala um sjálfan mig, líður mér eins ég sé hluti af heild, en ekki skrítni einsetukallinn í sætabrauðshúsinu.

Ég er orðljótur

Ég hef verið orðljótari í skrifum mínum undanfarið en ég kæri mig um. Það sæmir ekki jafn hjartahreinum manni og mér að rita sorp. Það er draumur sérhvers bloggara að í hann sé vitnað. Það er ekkert launungarmál. Það eru meira að segja haldin þartilgerð námskeið fyrir bloggara, sem vilja öðlast virðingu og verða marktækari í skrifum sínum. Ég þangað!
Líkurnar á að í mig verði vitnað fara minnkandi, enda netpistlar mínir útflingraðir með orðum sem eiga uppruna sinn í skítugum neðri byggðum. Í mig vantar alla ást. Ef ég væri ástfanginn, eða tryði á ástina, væri ritmál mitt ekki eins og salernisaðstaða eftir verslunarmannahelgi.

Annars var ég að ráfa um netið í gær að lesa eitt og annað sem viðkemur þjóðfélagsmálum og til marks um viðkvæmni mína, langaði mig til að flýja hina svokölluðu siðmenningu, ganga í búddaklaustur, eða hverfa inn í svörtustu Afríku og eiga einungis samskipti við apa og gíraffa, þangað til eitthvert ljónið sæi aumur á mér og æti mig. Samfélag manna, þá sérstaklega hérlendis, finnst mér síður en svo hrífandi.

Blogg sem ætlar frá A til B, en hoppar yfir B og endar í F

Þegar ég ferðaðist til Akureyrar í nóvember á síðasta ári, fór ég meðal annars á myndlistarsýningu um Jesú Krist Jósefsson. Þar vakti aðeins eitt verk áhuga minn, en það var verk eftir konu sem ég man ekki hvað heitir. Hún hafði, á þeim tíma í tíðarhringnum sem flestar konur halda sér tilbaka og fara ekki á Nasa, notað rottuna á sér sem stensil og stimplað með henni á striga sem þakti heilan vegg. Það er alveg stolið úr mér hvað í lífi Jesú þessar klessur áttu að tákna, en listamanninum tókst ætlunarverk sitt, sem er að skapa umræðu. Umræðu um hvað, er ég ekki viss en leitast við að komast til botns í.

Piss, æla, kúkur og tíðarblóð hafa listamenn löngum notað til að löðrunga listunnandann og vekja hann til vitundar um að hann er bara skepna sem þarf á einhverjum tímapunkti að skila af sér úrgangi. Þetta er ekki eina skiptið sem ég hef séð kúk eða aðra líkamsvessa notaða í listsköpun. Hver man tildæmis ekki eftir frábærum listgjörningi á Kjarvalsstöðum, þar sem listamaðurinn spilaði myndband þar sem hann fór vel að sjálfum sér. En hér endar þetta blogg, sem ég man ekki hvers vegna ég fór að skrifa. Kannski svolítið svipað því að tala, í þeim tilgangi einum að geta hlustað á sjálfan sig.

Böggull fylgir skammrifi

Fyrir stuttu las ég í bók(hvaða bók, man ég ekki) að fólk sem segir frá draumum sínum er óspennandi og leiðinlegt. Ég, í mínum huga, er jafn spennandi og skemmtilegur og bloggari sem bloggar um bloggara sem endursegir fréttir á ömurlegum fréttamiðli. Þannig að ég móðgaðist ekki mikið við þessa lesningu. Ég gat ekki ákvarðað að höfundur væri fáviti, þar sem mér þótti flest annað í bókinni bæði töff og skæs, en sjaldnast ná menningarverðmæti því að vera hvoru tveggja.

Ef ég bara myndi hvaða bók þetta var?

Hvað um það. Nú hef ég hugleitt eins og móðurríðari í viku og hálfa og ekki tek ég of djúpt í árina, þegar ég segi að líf mitt hefur náð nýjum hæðum. Ég bókstaflega sprett fram úr rúminu á morgnana raulandi lagstúf og valhoppa fullur af ákafa inn í daginn, tilbúinn að takast á við öll þau spennandi verkefni sem kosmósið úthlutar mér. Sem dæmi um spennandi verkefni, þá reyndi ég í dag að ráða fram úr prentaravandræðum öllum hlutaðeigandi til stórbrotinnar gremju og leiðinda. Þó ég hefði undirbúið mig andlega undir þennan dag og hugleitt í 6 klukkustundir samfleytt, hefði ég ekki getað komið í veg fyrir örlítinn brest í skapgerð minni, þar sem ég froðufelldi eins og óður hundur.

Hvað ætlaði ég upphaflega að skrifa um?

Já, draumar og hugleiðsla. Síðan ég tók til við að hugleiða, hefur mér liðið afar vel. Kærleiksský hefur umlukið sætabrauðshúsið í litla Skerjarfirði(sem er by the way: til sölu) og smáfuglar sem löngu voru flognir til heitu landanna, snéru aftur til að syngja söngva um sameiningu Evrópu í stóra trénu við hlið hússins. Efnahagsáhyggjur íbúa litla Skerjafjörðs leystust upp og hvarvetna mátti sjá fólk að kyssast, knúsast og fista. Allt þetta, aðeins vegna þess að einn íbúi býr til nógu mikið af kærleiksorku til að smita nágrennið.

En oft fylgir böggull skammrifi – seisei já. Síðan ég byrjaði að hugleiða hef ég átt hryllilegar draumfarir. Í einum draumnum rifnaði Avraham köttur í tvennt þegar hann reyndi að smeygja sér í gegnum gaddavírsgirðingu. Hann var sprellilifandi og mjálmaði angurvært þrátt fyrir að vera í tveimur hlutum. Hann bað mig um að ég sauma sig saman svo hann gæti haldið áfram að éta og sofa.

Í dag þegar ég fékk mér lúr, dreymdi mig að hræðilegur morðingi gengi laus. Hann murkaði lífið úr móður minni(sem var leikin af einhverri amerískri leikkonu sem ég man ekki nafnið á), og hóf svo að týna úr henni innyflin. Til að bjarga eigin skinni þóttist ég vera áhugasamur um mannát og hjálpaði honum að bera líkið, sem var ekki dautt þrátt fyrir að vera með stóra holu í miðjum brjóstkassanum. Jesús minn.

Svona hefur mig dreymt síðan ég byrjaði að hugleiða. En einkennilegt.

Nostalgíuflipp

Nú segir frá er ég varð ástfanginn í fyrsta skipti á ævinni. Ég var 16 ára gamall og sökum óhefðbundinna aðstæðna var ég sendur burt úr foreldrahúsum til betrunar í sveit. Þar kynntist ég öðrum villuráfandi sauðum, þar á meðal ungri og lögulegri Reykjarvíkurkind, með 5 ára forskot í lífsins skúespili. Fyrir mér var hún fullnuma kona og ég aumur glórulítill unglingur. Ég hefði því aldrei, þrátt fyrir mjög fjörugt ímyndunarafl, getað giskað á að hún hefði á mér rómantískan áhuga. Það einfaldlega hvarflaði ekki að mér.

Þegar þetta var hafði ég ekki enn kynnst læriföður mínum í lífsins kúnst, og hann því ekki búinn að uppfræða saklausan mig um vergjarnar konur sem höfðu það sem tómstundargaman að fleka unga hrekkleysinga.

Dag einn, stakk þessi fullorðna kona upp á því við mig að við færum saman í lautarferð. Hún tók til rúmteppi, súkkulaði og gos með sykri í. Ég varð upp með mér. Í þessum skaðræðishóp, var hún óumræðanlega sá einstaklingur sem mest var í spunnið. Grönn, hávaxin, með sítt liðað hár og örlitla bauga undir augum sem undirstrikuðu hversu lífsreynd hún var. Manneskjuleg, full af vísdómi, sem hún fór ekki sjálf eftir. Forskrift allra kvenmanna sem ég átti eftir að hafa kynni af á næstu árum.

Meðan við gengum, man ég hvað ég hugsaði. Ég var nokkuð viss um að ástæðan fyrir að ég var á leiðinni í lautarferð með henni var sú að henni þætti vænt um mig, eins og manni þykir vænt um yngra systkin. Það þótti mér ekkert skrítið. Hvað annað kom til greina en að láta sér þykja vænt um þennan umkomulausa ungling sem ég var. Góður og velmeinandi strákur, sem vann engum tjón nema sjálfum sér.

Veðrið var dásamlegt og sólin skein. Fleira fólk var í göngutúr á sama svæði. Í rjóðri fundum við okkur fallegan stað þar sem við breiddum úr rúmteppinu og lögðumst á það. Mér leið ofurvel þar sem við lágum saman og nutum sólskinsins. Hún spurði hvort hún mætti halda utan um mig og ég jánkaði því. Það var eins og ég væri örlítið ölvaður þar sem hún hjúfraði sér upp að mér. Mér þótti hún falleg og sá okkur fyrir, mjög ljóðrænt, tvö ein saman í vondum heimi, þar sem ekkert fengi okkur grandað. Svo á augabragði breyttist staða mín og varð ívið vandasamari. Hún byrjaði að kyssa mig. Ég hélt það myndi líða yfir mig. Ég var ekki alveg klár á hvað var að gerast, en mér leið dásamlega. Lautarferðirnar urðu fleiri og án þess að ég hefði nokkuð um það að segja hrapaði ég í pytt ástsýki og brjálæðis.

Einn daginn gufaði hún upp. Enginn vissi hvert hún fór og enginn gat sagt mér nokkuð um afdrif hennar. Í vikur og mánuði engdist ég sundur og saman af sálarkvölum, og þó ég væri viss um að ég liti aldrei glaðan dag á ný, gréru mín sár og ég jafnaði mig. Löngu seinna sá ég hana í bíl sem keyrði eftir götunni þar sem ég átti heima. Hún sá mig líka. Bíllinn staðnæmdist ekki. Hún sat í farþegasætinu, en bílstjóramegin sat maður miklu eldri en ég.

Ég hef stundum velt því fyrir mér hvernig henni vegnar og hvernig árin hafa leikið hana. Hún er í dag 43 ára gömul. Síðan það komst í tísku að gúggla, hef ég nokkrum sinnum slegið inn nafn hennar, en ekki fengið neinar krassandi niðurstöður. Ekki nema að hún býr út á landi og á mann.

Í fyrradag í nostalgíuflippi leitaði ég að henni á timarit.is og fann út eitt og annað. Ég fann mynd af henni 9 ára gamalli ásamt vinkonum sínum sem héldu hlutaveltu til styrktar Rauða Kross Íslands. Einnig fann ég grein í Alþýðublaðinu frá 1982 um verkalýðsbaráttu fiskiverkanda, þar sem hún var spurð álits. 1982 var hún 17 ára gömul.

1991 giftist hún og á brúðkaupsmyndinni brosir hún fallega með nýtilkomnum eiginmanni sínum. Maðurinn hennar kemur mér fyrir sjónir sem vænsti maður. Þegar hún giftist voru einungis 5 ár liðin frá því að leiðir okkar skildu. Þá var ég orðinn jafn gamall og hún var þegar við bjuggum til rómantík undir sólinni.

Að lokum fann ég tvær yngri myndir af henni, í hópi kvenfélagskvenna út í sveit. Hún er á þessum myndum, á svipuðum aldri og ég er núna, og mjög auðþekkjanleg. “Ég var að gera eitthvað sem ég hefði ekki átt að gera, en gerði samt!” les ég úr svip hennar og get ekki varist brosi.

Skrítið þetta líf.

Kvenkyns áhrifavaldar

Ég sveiflast upp og niður með Oprah og Ellý Ármanns. Samkvæmt frétt á DV hefur sú síðarnefnda sagt skilið við Facebook. Hvað er í gangi? spyr ég skjálfmæltur. Hafa nú einhverjar ótuktirnar flæmt hana Ellý mína út úr fésbókarsamfélaginu. Það er ljótt, ef satt er.

Svo margar tímamótaspurningar vakna við þessa frétt. Fóru heilu og hálfu dagarnir í að póka og að þiggja pók? Eða sem verra er: var hún kannski aldrei pókuð? Hún átti 1000 vini, segir í fréttinni. Það má nú ætla að þar á meðal hafi verið nokkrir pókarar.

Ég verð alveg ómögulegur á því að hugsa um þetta. Mér er umhugað um velferð Ellý. Ég hef ekki enn gleymt frábærum ríðingarpistlum hennar frá árdögum moggabloggsins. Það er henni að þakka að ég lærði að nota kúk í kynlífi. Hverjum hefði dottið í hug að það væri hægt? – ekki mér. Mér hugkvæmist ekkert spennandi þegar kynlíf er annars vegar. En til allrar guðs blessunar halaði ég niður allar sögurnar, lesnar af henni sjálfri, áður en hún yfirgaf ömurlegt Morgunblaðið til að ráða sig inn sem flaggskip á einhvern annan miðil.

Fátt gleður mig jafnmikið og að klæða mig upp sem töframaður, maka á mig rækjusalati og hlusta á Ellý lesa með æsandi röddu sinni sögur um alvöru ríðingar, þar sem ríðarinn ríður eins og móðurríðari.