Fitubrennslan á Austurvelli

Ég hugsa að ég sé búinn að brenna 2-3 kilógrömmum síðan á mánudag. Síðustu þrjá daga hef ég dillað mér, dansað, hoppað, sungið, gargað og barið með misendingargóðum prikum, í sælgætisdós og nú síðast eftirlætispoppkornsskálina mína. Ég er sæll og glaður. Ég ætlaði ekki að taka þátt í dag sökum lasleika, en dreif mig af stað eftir að ég reiddist manneskju, sem eins og fleiri, sat heima hjá sér og dæmdi mótmælin út frá nokkrum villingum sem fyrirfundust í 3000 manna hópi. Samkvæmt hennar rökum hefði mér verið hollast að fara aldrei út úr húsi, þar sem fólk á það til að vera fífl.

Ég kastaði ekki neinu, heldur bjó bara til hávaða og hrópaði slagorð. Ég er ekki að fara að biðjast afsökunar á einhverjum ræflum sem köstuðu steinum, eggjum, bombum og kúk í laganna verði. Það er grunnhyggið að dæma þessi mótmæli út frá fáeinum vanvitum. Þar fyrir utan eru mótmælin að þroskast. Það var nóg af hávaða. Það var dansað og sungið. Flestir voru annaðhvort klæddir í appelsínugult, eða báru appelsínugula slaufu, en appelsínuguli liturinn er yfirlýsing um að viðkomandi vilji mótmæla friðsamlega. Lögreglumennirnir voru með blóm í hnappagatinu. Ungt fólk gekk á milli og buðu þeim óeirðarklæddu upp á bakkelsi, sem þeir þáðu með þökkum. Þegar líða fór á samkomuna, og stemningin orðin æðisleg, þá yfirgáfu þeir varðstöður sínar.

Ég hef ekki í hyggju að fara skrifa hér um pólitík. Pólitík er fullorðinsleikur sem ég hef aldrei verið góður í. Ég hinsvegar þekki vel muninn á réttu og röngu, og finn mig knúinn til að fylgja því sem ég tel vera rétt hverju sinni.

Svo vil ég tengja í uppáhaldsmoggabloggarann minn, Sigurð Þór Guðjónsson, hann skrifaði svo prýðilega færslu um viðhorf manna til mótmælanna síðustu daga: Mótmæli og óeirðir.

5 thoughts on “Fitubrennslan á Austurvelli”

  1. Hvaðan kemur þessi pæling með appelsínugula litinn? appelsínugulu byltingu úkraínumanna, eða er þetta eldri speki?

  2. Vona að ég hafi ekki hratt þér út í forkelingu!

  3. Fyrirgefðu mér fyrir leiðindin í dag, þú átt það svo sannarlega skið að taka því rólega í dag, þú sem ert búinn að standa vaktina fyrir okkur aumingjana sem ekki þorðu.
    Lifðu heill.

Comments are closed.