Tilfinningasemi

Þegar ég vaknaði í morgun var ég orðinn veikasti maðurinn í litla Skerjarfirði, ef ekki öllum heiminum. Framan af degi leið ég svo miklar vítiskvalir, að ég hugsaði með sjálfum mér að betra væri að vera dauður en að líða svona.

Margar súrar og einkennilegar hugsanir urðu til í hausnum mínum, meðan ég engdist sundur og saman í fleti mínu. Mér varð hugsað til þess tíma sem ég vann á Grund. Á deildinni minni var rúmliggjandi kona, sem ég sinnti margsinnis. Við urðum miklir vinir. Líkami hennar hafði hrörnað svo mikið, að hún var lítið annað en skinn og bein. Öldrunin hafði þó farið mjúkum höndum um toppstykkið. Ég sprellaði mikið í henni, og hún sagði mér margsinnis að það væri sama hversu illa henni liði að alltaf gæti ég komið henni til að hlæja. Ég vona að hún hafi skynjað það, en hún gladdi mig mikið með þeim orðum. Ætli henni hafi liðið svona hræðilega illa? hugsaði ég þar sem ég lá sjálfur fyrir í hálfgerðu móki. Verður þetta svona hjá mér í ellinni, að liggja fyrir og geta mig hvergi hreyft, kvalinn á sál og líkama, skýr í kollinum svo ég geti örugglega fylgst með minni eigin niðurlægingu. Sumsé, mjög morbid og súrar pælingar.

Síðdegis tók ég að hressast. Ég fór að hugsa um atburði síðustu daga, og varð öllu tilfinningasamari en ég á að mér að vera. Ég byrjaði að vatna músum þegar ég hugsaði um unga fólkið sem gekk á milli óeirðarsveitarinnar og bauð þeim upp á heimabakaðar smákökur. Það var svo fallegt. Og ekki var síður fallegt að sjá þá lyfta upp plastinu á hjálmunum, til að stinga þeim upp í sig.

Ég hugsaði um Geir Jón, og hvað ég dáist af þeim gullfallega manni. Hann er með svo traustvekjandi og góða nærveru, að fólk fyllist þrá til að gera gott. Ég fékk grátstafinn í kverkarnar af að hugsa um þessar mínútur sem mótmælendum bárust fréttir af að ríkisstjórnin væri fallin. Hamingjan og gleðin ætlaði allt um koll að keyra, og uppábúnu mennirnir í svartgöllunum létu skildi sína síga og það lifnaði yfir þeim af feginleika. Því miður áttu þær fréttir ekki við rök að styðjast.

Ég hef þó ekki grátið Geir, eða aðra pólitíkusa í dag. Ég vona að allt blessist hjá Geir, og held þrátt fyrir allt sé hann vel meinandi maður í afar slæmum félagsskap. Ég er allur að verða betri, og vona að á næstu klukkustundum verði loku skotið fyrir þessa tilfinningasemi mína, og ég komist aftur til míns harðgerða sjálfs.

4 thoughts on “Tilfinningasemi”

  1. Ef að tilfinninganæmni og hæfileikinn til að sjá fegurðina í ólíklegustu aðstæðum gerir mig að kellingu, þá held ég að ég verði að sætta mig við þá nafngift.

Comments are closed.