Siciliana a Milan

Þá er förinni heitið til Mílanó. Þann 1. ágúst kem ég svo til með að angra samlanda mína aftur með andstyggilegri nærveru minni. Nú hef ég verið hér á Sikiley í mánuð og með sanni hefði ég til að byrja með talið það víst að ég gæti búið hér. Sannleikurinn er hinsvegar sá að ég mig langar alveg jafn mikið til að deyja hér og heima í rassgati. Mér eru minnistæð orð Vaffarans, (sem er afar vel lukkað eintak af manneskju) þar sem hún sagði að það væri sama hvert á land mann bæri, alltaf tæki maður sjálfan sig með. Vaffarinn víðfrægi notaði hinsvegar ekki eins oft “maður” í setningunni eins og sveitalúðinn ég.
Fyrstu vikurnar þótti mér lífið í hverfinu afskaplega litskrúðugt, og sérstaklega aðlaðandi. Öðru hverju gleður stúlka ein nágranna sína með ómótstæðilegum kareoke söng og verða oftast fyrir valinu ítölsk popp lög vel til þess fallin að berja sig í hausinn yfir. Í öðru húsi eru stöðug rifrildi, stundum hinsvegar verð ég að viðurkenna að ég geri ég ekki mikinn greinarmun á hvort sé verið að rífast eða halda uppi eðlilegum tjáskiptum. Tungumálið inniheldur sérstakan óm af óánægju og ótímabærri reiði. Ég held að ég átti mig á að þegar fólk fer að kasta búsáhöldum í hvort annað þá sé það sennilegast rifrildi sem á sér stað. Ég er hinsvegar farinn að skilja meira í ítölskunni og þykist þess viss að það tæki mig ekki svo langan tíma að verða fluent. Sem ég segi að í fyrstu þótti mér þetta rómantískt, en í gærdag sat ég á svölunum og var að reyna að einbeita mér að lestri, þegar einn nágranninn tók sig til og öskraði og gargaði á barnabörnin sín, ég í þeirri andrá áttaði mig á því að mér þótti þetta ekkert lekkert, allur þessi hamagangur. Og ég lét hugann reika heim á friðsælan laugaveginn, þar sem fullir íslendingar búnir að pissa í buxurnar öskra og garga fyrir utan gluggann hjá mér langt fram á morgun um helgar. Ég hlakka til að fara til Mílanó. Ég hef ætíð verið hrifinn af stórborgum, og mér skilst að Mílanó sé ein af fjölmennri mengunarpyttum í henni Evrópu.

Skandinavía

Til andskotans með Skandinavíu. – Long live the new flesh.

Ég hef aðeins verið að hlusta á band sem heitir Mew, mér til alveg sérstakrar ánægju. Ég hef til þessa ekki aflað mér frekari upplýsinga um þessa sveit. Ég hinsvegar án þess að fara þess á leit, varð þess uppvís að sveitin er frá Danmörku. Mig rak í rogastans og ég fylltist viðbjóði. Ekki ólíkt því að gæða sér á rækjusalati sem bragðast afburða vel, en komast síðan að því fyrir slysni að sá sem bjó til salatið hefði í friðhelgi heimilisins hækkað í miðstöðinni og smurt salatinu á líkama sinn. Þetta er reyndar ekki eina tónlistin sem ég hef fellt mig við sem ég læri að er frá viðbjóðslegu landi. Stina Nordenstam er tildæmis frá Svíþjóð. Svíþjóð er viðbjóður. Sé Danmörk ömurleg, þá er Svíþjóð svo óaðlaðandi að mér ógleði ein í huga þegar ég hugsa um þetta. Fyrir tveimur kvöldum sat ég í matverðarboði með einmitt Svía, hann kom færandi hendi með skál fulla af sænskum kjötbollum. Hann talaði um landið sitt eins og það væri æðissslegt. Ég sem mætti til kvöldverðarborðsins með opnasta huga sem um getur í Evrópu. Mér féllust hendur þegar leið á kvöldið og mig langaði með sanni bara til að deyja. Það er EKKERT spennandi við Svíþjóð, EKKI NEITT. Volvo er ekki spennandi. Saab er ekki spennandi. Stockholm er ekki spennandi. Viðbjóðslegt tungumál og ömurlegt fólk. Samt sem áður verð ég að viðurkenna að ég hef látið af því að alhæfa á þennan máta og kann bæði Mew og Stínu minni Nordenstam afar vel.

comment kerfi uppfært

Ég þakka viðkomandi fyrir að setja inn myndina maria.jpg inn í berskjaldað comment kerfið sem fylgir þessum fallega vef. Myndina maria.jpg hefur umræddur (en að öllu ónefndur) hugsanlega dregið upp úr litskrúðugu einkasafni sínu ef getgátur mínar reynast réttar. Ég sá samt sem áður ástæðu til að fjarlæga athugasemdina, sem innihélt þessa fögru mynd.

Fyrir þá sem ekki skortir hugrekki á veraldarvefnum gef ég upp eftirfarandi vefslóðir:

maria.jpg ásamt öðru – Ég á ekki von á að þessi tengill verði langlífur.
Heimasíða dagsins.

Grillað með George Hamilton

Þegar ég var smástrákur þá velti ég oft vöngum yfir því hvernig það væri að vera fullorðinn. Eins og ég sá heiminn þá höfðu fullorðnir allt á hreinu. Þeir brugðust alltaf rétt við og vissu nákvæmlega hvernig ætti að haga sér í hverskyns aðstæðum. Mér þótti heimur hinna fullorðnu afar hrífandi og gat ekki hugsað mér neitt tilkomumeira. Ég sá það í hendi mér að ég kæmi til með að vita í öllum tilfellum hvað væri við hæfi og að ég yrði jafn úrræðagóður og elskulegur faðir minn. Í gær á 35 ára afmæli mínu hringdi ég í föður minn og sagði honum frá þessum hugrenningum mínum. Ég sagði honum að ég fengi ekki séð að þankagangur minn núna væri svo frábrugðinn því þegar ég var polli. Að ég finndi ekkert sérstaklega fyrir því að vera fullorðinn. Að ég væri svo til alveg jafn grunlaus um tilgang þessa lífs og ég var þegar ég var stráklingur. Faðir minn, hinn mikli meistari sagði að honum liði nákvæmlega eins, einungis skrokkurinn tæki breytingum en hann hugsaði að mestu eins og hann hugsaði þegar hann var smástrákur að alast upp í kjósinni. Mér finnst þetta andskoti merkilegt.

Ég var staddur í grillveislu með nokkrum ítölskum George Hamilton fígúrum. Menn sem báru sig alveg sérstaklega vel, brúnir vel til hafðir með sjálfstraustið í andskoti fínu lagi. Þrátt fyrir að ég skildi ekki hvað þeir voru að segja, komu þeir mér fyrir sjónir sem menn sem vita allt. Þeir töluðu endalaust og bönduðu höndum sínum máli sínu til stuðnings. Börnin þeirra horfðu aðdáunaraugum á hverja hreyfingu foreldra sinna. Mér leið hinsvegar ennþá eins og ég væri barn í hópi fullorðna. Svei mér hvað þetta er einkennilegt þetta líf.