Karlmenn

Til eru hin margvíslegustu netsamfélög. Hver og einn ætti að finna sér eitthvað við hæfi, hvað svo sem viðkomandi hefur áhuga á. Kynbræður mínir í svona netsamfélögum gera mig óneitanlega stoltan yfir því að vera karlmaður. Ég skil ekki afhverju, en það virðist eiginlega vera alveg sama hvaða netsamfélag er stundað, hvort sem það er áhugasamfélag um speltbakstur eða eitthvað netverk í ætt við myspace, alltaf skal einhver auminginn setja mynd af typpinu á sér í prófíl.

Hann skrifar stutta lýsingu um sjálfan sig, hverjar eru uppáhaldsbækurnar hans, eftirlætis kvikmyndir, tónlistarsmekkur, trúarbrögð og svo skilar hann inn mynd af typpinu sínu, helst þá eins hressu og það mögulega verður.

Prófíllinn gæti þá litið einhvern meginn svona út:

“Ég hef áhuga á músik með Dúmbó og Steina, hef alltaf haft gaman af Bob Moran bókunum. Fannst Forest Gump æðisleg, sérstaklega atriðið þarna í gosbrunninum. Er Kaþólikki. Hress og umhyggjusamur, elska dýr og Húsdýragarðinn. Hér gefur svo að líta mynd af typpinu mínu, sem ég tók eitt kvöldið þegar mamma var sofandi!”

Það segir sig sjálft að viðkomandi færi umsvifalaust í flokkinn bloggvinir.

Hátíð í bæ

Þessa vikuna held ég hátíðlega svokallaða ólundardaga. Ólundardagar er kærkomin tilbreyting frá öðrum dögum ársins, þegar ég er án undantekninga hamingjusamur, glaður og frjáls. Það kann að hljóma einkennilega, en það að vera í “sound of music” skapi daginn út og daginn inn, getur verið þreytandi til lengdar. Þetta óeðlilega og jafnframt afbrigðilega ástand útheimtir það af manni að maður sé alltaf síbrosandi eins og fjandans fáviti öllum stundum.

Það að brosa frá morgni til kvölds er lýjandi, bæði fyrir sál og líkama. Ólundardagarnir eru mér þar af leiðandi ákaflega kærkomnir þessa önnina. Ég get nú, án þess að hafa af því frekari áhyggjur – spýtt framan í fólkið sem ég að öllu jöfnu brosi til.

Það er búið að skríkja í mér í næstum ár og nú er þetta komið gott. Nú brosi ég ekki meira, nema að rökstyðja það áður; þá helst í bundnu máli. Ólundardagar fyrir mér er eins og kaupa mér dekurdag í baðhúsi, þar sem ég fæ skrúbb, skrap, naglalakk og ristilskolun. Ég er í kjölfarið endurnærður, og get haldið ótrauður áfram að ljúga að fólki að allt sé í gúddí.

Lítill fugl hvíslaði því að mér að……..

Það situr lítill fugl á öxl mér og hvíslar að mér mikilvægum upplýsingum. Ef ég gæti með einhverju móti þaggað niður í þessu kvikindi, tildæmis með því að sprengja helvítið í loft upp með C4 eða byrla því eitri, þá myndi ég gera það umhugsunarlaust.

Ég man ekki til þess að þessi fugl hafi haft neitt til málanna að leggja sem hægt er að nýta í að gera þennan heim betri. Í þessum skrifuðu línum fæ ég varla frið fyrir illfyglinu. “Hvað ertu að skrifa um mig? “, gargar helvítið í eyrað á mér og lætur öllum illum látum. “Þegiðu helvítið þitt,” öskra ég tilbaka, enda gengur mér ári illa að einbeita mér fyrir óþolandi athugasemdum.

“Ég var að komast á snoðir um mjög mikilvæg málefni sem hafa með þig að gera,” heldur litli fuglinn áfram “……ef þú hættir ekki að skrifa um mig, þá skil ég þig eftir í myrkrinu og þú færð þessar upplýsingar aldrei. Aldrei, segi ég!”

Sú var tíð að ég tók því sem þessi fugl hafði til málanna að leggja sem heilögum sannleik. Það verður ekki af honum tekið, að hann hefur sannfæringamátt á við einræðisherra. Ef þetta væri ósköp venjulegur dagfarsprúður fugl, drægi hann sig í hlé, vitandi að á hann er ekki hlustað. En nei, ekki þessi fugl. Honum vex ásmeginn. Hann gargar bara hærra og beitir nýstárlegri vélabrögðum til að fá áheyrn og viðurkenningu skjólstæðinga sinna. Öll hans afkoma veltur á því að á hann sé hlustað. Það skiptir hann öllu máli að halda lífi. Og hann lifir, því hvernig sem þessu fyrirbæri er snúið, þá er kvikindið yfirleitt mun snjallara og útsmognara en sá sem neyðist til að hlusta á hann.

Þó ber ekki að skilja það sem svo, að það sem hann hefur að segja – sé svo ægilega snjallt. Því fer víðsfjarri. Það er því oft æði fyndið að leggja vel við hlustir þegar hann byrjar. Það er reyndar jafn grátlegt og það er fyndið. En ef fuglshræið fær óskipta athygli og orð þess eru jafnvel sett niður á blað þannig að þau mynda setningar og jafnvel málsgreinar, þá er útkoman oftar en ekki spaugileg. Spaugileg en oftast óttalega aumkunarverð.
Svo aumkunarverð, að ég persónulega fer hjá mér.

Fer annars ekki að koma sumar?

Bíddu pabbi, bíddu mín

delicatessen1.jpgÞað leiðinlegasta sem ég veit er að hlusta á nágranna mína skrönglast. Nágrannar mínir hér á Óðinsgötu leggja svo sem ekki oft kapp á þessa iðju, en þá sjaldan sem þeir lyfta sér upp þarf ég að hlusta á það. Verð ég þó að segja að ég hef haft nágranna sem hafa staðið sig mun betur en þeir sem búa hér á hæðinni fyrir ofan mig.

Ungt og bólugrafið, virðast ekki finna hjá sér þörf til að gera nokkurn skapaðan hlut nema undir áhrifum áfengis. Þannig að hér er ekki riðið, nema fólk sé froðufellandi af áfengisneyslu. Án undantekninga á kynlífsathöfnin sér stað undir morgun eftir að skemmtistöðum hefur verið lokað og má segja að hún standi yfir allt alltof lengi. Það er nú einu sinni staðreynd, að þegar áfengi er með í spilinu getur unglingurinn nánast haldið áfram endalaust að því gefnu að áfengið hamli ekki blóðflæði til neðri byggða.
Í tilfelli unglinganna hér á efri hæðinni, er hægt að merkja meiri tilþrif og tilfinningar þegar fótbolti er í sjónvarpinu, en þegar ástarleikir eru leiknir. Hljómar athöfnin eins og verið sé að færa húsgögn úr stað, meðan róninn dinglandi með prjóninn kreistir ósynda gúmmíönd. Er síðan verið að bögglast við þetta þangað til annað hvort eða bæði sofna vegna óbærilegra leiðinda.

Ég hinsvegar sofna ekki svo glatt aftur, og neyðist til að fara á fætur sem er án efa eitt af því versta sem ég geri yfir allan daginn. Já, blessuðu ungmennin. Frammistaða þeirra er ekki svipur hjá sjón við hliðina á óbilandi orku nágranna minna á laugaveginum. Já, þau kunnu sko til verka.

Ég þarf að þola allskonar ófögnuð í boði nágranna minna. Ég þarf sem betur fer ekki að hlusta á konuna hér við hliðina á mér eðla sig. Ég reyndar verð hennar aldrei var, nema þegar hún fær sér í litlu tánna, þá tekur hún við sér og til að tjá gleði sína spilar hún hinn svellkalda klassíska slagara Gvendur á Eyrinni.
Nú, eins og allir sem til þekkja, þá er Gvendur á Eyrinni eitt það almesta stuðlag sem samið hefur verið, og má ég hafa mig allan við til að fara ekki bara sjálfur á fyllerí þegar ég heyri þessa óbilandi gleði smjúga í gegnum 50 cm þykkan steinsteypuvegginn.
Þar með er tónlistarsmekkur hennar ekki rakinn, því hún á fleiri diska; eins og diskinn með Bjartmari Guðlaugs, svo ekki sé á minnst The Best of Vilhjámur Vilhjálmsson. Ekki misskilja mig. Tónlistin sem Vilhjálmur Vilhjálmsson spilaði og söng, er órjúfanlegur hluti af því að vera íslendingur, en eftir að ég sá börn á Austurvelli hlaupa undan róna með ghettoblaster sér við öxl spilandi lagið “Bíddu pabbi, bíddu mín” hef ég haft mjög blendnar tilfinningar gagnvart því lagi.

Hjörtu okkar hér í hverfinu slá síður en svo í takt.

Ég hlakka til að fá saxafóninn til landsins, því minn kall er kominn í hefndarhug, og ég þarf ekki að vera fullur til að spila músik, svo mikið er víst.

Meistaraverk

[MEDIA=133]

Roger Waters í Berlin 1990.

Blámi

alto-sax.jpg Lífið er búið að vera alveg sérstaklega leiðinlegt frá því að ég gerði þau hræðilegu mistök að vakna í morgun.

Ég veit ekki afhverju ég er svona skapvondur í dag. Mig grunar þó að ólund mín gæti mögulega haft eitthvað með það að gera að það er haglél úti þegar samkvæmt öllum kúnstarinnar reglum ætti að vera sól og sumar; eða í versta falli bara rigning.

Ég meina…… Hvaða viðbjóður er þetta? Það er guðsvolað vor. Það á ekki að vera éljagangur eða snjókoma!

Hvað gerir maður af mínu tagi, í aðstæðum sem þessum? Drepur hann sig? Tekur hann lúkufylli af hamingjupillum? Étur hann tíu kílóa súkkulaðitertu með flauðskúmmi og jarðaberjum? Fær hann sér sígarettu? Leitar hann á náðir siðspilltra kvenna?

Nei, hann fer rakleiðis á ebay, þar sem jólasveinninn býr.

Og nú vill svo skemmtilega til að rétt í þessu var ég festa fé í 2007 SKY Alto Saxophone w case high F# SAX Saxaphone og ef það er ekki ávísun á gleði og hamingju, þá er mér ekki kunnugt um merkingu orðanna: gleði og hamingja.

Já, þegar lífið er leiðinlegt, þá er leiðinlegt, en þegar lífið er skemmtilegt, þá er skemmtilegt.
Þannig er það nú bara.

Um veltu og eignir

Dóttir mín til níu ára, hefur ákveðnar skoðanir á því hvernig pabbi hennar hagar sínu lífi. Hún spurði mig orðrétt fyrr í dag, hvort ég væri að gera hosur mínar grænar. Ég bað hana um nánari útskýringu. “Ertu skotinn í einhverri konu?”, spurði hún óþolinmóð yfir því hversu illa áttaður ég var.
Ég spurði hana á móti, hvort henni finndist það nú alveg nauðsynlegt? Og ef svo væri, hvort sú kona þyrfti nú ekki að vera helvíti spes ef ég ætti að nenna að vera skotinn í henni.
Jú jú, hún féllst á það.

En henni finnst pabbi hennar vera kominn á þann aldur að hann ætti að eiga bíl. Ég sagði henni að ég ætti hjól og spurði hana hvort það væri ekki ásættanlegt. “Geturðu hjólað í Hafnarfjörðinn á hjólinu þínu?”, spurði hún. Ég sagðist ekki eiga í neinum erfiðleikum með það, að það væri nú minnsta málið. “Geturðu hjólað til Færeyja á hjólinu þínu?”, varð svo næsta spurning “…… eða Vestmannaeyja?” Nei, ég viðurkenndi að það gæti ég ekki, en uppfræddi hana föðurlega um að það væri nú ekki beint hægt að keyra til þessara staða.

“Afhverju ertu ekki búinn að kaupa þér íbúð?” Ég sagði henni að ég væri bara ekkert búinn að ákveða hvort mig langaði til að eiga íbúð á Íslandinu prýðilega. Ég fékk fleiri spurningar um mína hagi og að lokum lofaði ég að senda henni yfirlit yfir veltu og eignir í emil.

Dr. Lawrence Jacoby

twinpeaks16.jpgDr. Lawrence Jacoby er ein af dásamlegum uppfinningum snillingsins David Lynch. Hann kemur fram í eftirlæti mínu til margra ára, Twin Peaks.
Dr. Jacoby er kolgeðveikur sálfræðingur, sem er viss um að öll vandamál mannkyns séu á einn eða annan máta tengd kynlífi. Í öll þau skipti sem hann birtist er hann með þrívíddargleraugu á nefinu, nema einu sinni þegar hann er gripinn berskjaldaður við leiði Láru litlu Palmers. Hann er sú manngerð sem étur ekki neitt sem inniheldur glúten og fer reglulega á ristilþvottahús vegna þess að hann er svo skítugur að innan. Hann er mikill áhugamaður um brimbretti og gengur um í Hawaii skyrtum. Hann safnar kokteilaregnhlífum, sem hann skrifar inn á mikilvægar dagssetningar.

Þvílík fegurð í persónusköpun.

Gildi þess að vera hress

Þegar ég var um og yfir tvítugt, þá þótti fínt að vera hress. Allir, sem ekki höfðu með einhverjum ráðum komið sér á skjön við samfélagið, með því tildæmis að láta leggja sig inn á geðdeild eða loka sig inn í fangelsi, kostuðu öllu því sem þeir áttu til, í það að vera hress.
Ég hef aldrei verið hress. Ég var ekki hress þá og ég er ekki hress núna. Þrátt fyrir að ég beri í brjósti mér kærleika á borð við Jesú nokkurn Krist, umber ég engan veginn hresst fólk. Frá mínum bæjardyrum séð, er hresst fólk sú tegund fólks sem ég tel mestu ástæðu til að varast. Það er enginn alltaf hress, það er ómennskt.

Á þessum tíma voru ekki margar útvarpsstöðvar í boði, það var held ég Gufan, Rás 2 og Bylgjan. Ég vann í bæjarvinnu Kópavogskaupstaðar og það var svo langur vegur frá því að ég væri hress. Á vinnustað mínum glumdi í Bylgjunni, frá morgni til kvölds. Sú útvarpsstöð var álitin fersk og mun hressari en uppvakningarnir á Gufunni og Rás 2. Vinsælasti útvarpsþáttinn var í höndum tveggja manna sem skapað höfðu sér það orðspor að vera þeir flippuðustu og hressustu í bransanum. Þeir hétu Jón og Gulli. Þeir voru svo frægir og svo vinsælir að þeir voru með svokallað ‘sidekick’, sem ég veit ekki hvað útleggst á íslensku, kannski aukanúmer, eða persóna af því tagi, að ef sú staða kemur upp í útvarpsþætti að það verður allt í einu leiðinlegt, eða að dampurinn dettur niður í lengur en 6 sek, þá er leitað á náðir aukanúmersins til að rífa upp stemmninguna, áður en hún dettur dauð niður. Þetta ‘sidekick’ hét Jóhannes á fóðurbílnum.

Eins og ég segi, það er ómanneskjulegt að vera alltaf hress.

Gæti þessi staða hafa komið upp í útvarpsþætti Jón og Gulla.

“Ég get ekki meir Jón”, andvarpaði Gulli meðan hann gróf andlitið í höndum sér. “Ekki fara með þetta í loftið, spilaðu aftur lagið með Madonnu!”, gargaði Jón á aðstoðarmanninn, sem brást skjótt við. Það var rautt ljós á hljóðnemanum, sem stóð upp úr miðju borðinu sem Gulli var farinn að grúfa sig niður í.
Jón, ekki alveg viss um hvernig hann átti að haga sér í þessum aðstæðum, klappaði höndinni klaufalega á öxl Gulla; svona eins og hann hafði séð í bíómyndunum.
Hann hafði aldrei séð félaga sinn hann Gulla svona niðurdreginn. Af tvíeykinu, hafði Gulli alltaf verið sá hinn hressari. Saman höfðu þeir verið ósigrandi. Ósigrandi og vellauðugar stjörnur í útvarpi á Íslandi.
“Ég þoli þetta ekki lengur! Ég hreinlega þoli þetta ekki!”, kjökraði Gulli. “Ég vildi að ég væri dauður!”
“Hvað kom fyrir maður? Afhverju ertu ekki hress? Ertu svona út af því að Blikar töpuðu fyrir KR?” Jón tók eftir því að hann var farinn að klappa Gulla óþarflega fast á öxlina. Ég má ekki missa móðinn, hugsaði Jón, er hann fann fyrir áður ókunnugum ótta.
“Ég er ömurlegur!” grenjaði Gulli. “Hvað er ég að gera hér? Ég er ömurlegur!”
“Hvað er þetta maður! Vertu hress maður! Þú ert bara að ganga í gegnum eitthvað tímabil! Þetta líður hjá! Þú þarft bara að fá þér að ríða! Eða detta í það! Vittu til, allt verður gott!” Jón var ekki um það viss, hvort hann væri að hughreysta Gulla eða sjálfan sig.
“Jóhannes á fóðurbílnum er tilbúinn á línu eitt”, kallaði aðstoðarmaðurinn. “Hahahahhahahahahhahhaha, ég er að keyra yfir heiðina, hahahhahhahahaha”, glumdi í Jóhannes á fóðurbílnum.
Gulli leit upp og þerraði tárvott andlit sitt, með rjómagulum vasaklút. “Er þetta hann Jóhannes okkar?” Rödd Gulla titraði eilítið, en ekki það mikið að hægt væri að merkja það á honum að hann hefði verið að gráta.
Jón andaði léttar. Hann taldi að óhætt væri að banka höndinni hressilega á bakið á Gulla, sem hann og gerði. “Gott að þú ert búinn að ná þér Gulli minn!” Honum hafði síður en svo verið skemmt yfir þessari uppákomu félaga síns.
Það var engu líkara en Gulli hefði fengið í sig vítamínssprautu. Sorg og sút var á bak og burt. Tímabundið hliðarspor, sem tilheyrði fortíðinni. Gulli var maðurinn í núinu.
“Settu okkur í útsendingu”, gólaði Gulli á aðstoðarmanninn. Aðstoðarmaðurinn taldi niður úr þremur.
“Kæru hlustendur, við erum komnir með Jóhannes á fóðurbílnum á línuna! Jóhannes! Er bara verið að keyra heiðina, hahhahhahhaahhahaa, hhahhhahhahahhahhahahhahaha”
Gulli hafði aldrei verið hressari.

cdbaby

Þennan prýðilega staðfestingarpóst fékk ég frá cdbaby eftir að ég festi fé í nýja langspilunargeisladisknum hennar Dawn minnar Landes.

dawnweb.jpg Your CD has been gently taken from our CD Baby shelves with sterilized contamination-free gloves and placed onto a satin pillow.

A team of 50 employees inspected your CD and polished it to make sure it was in the best possible condition before mailing.

Our packing specialist from Japan lit a candle and a hush fell over the crowd as he put your CD into the finest gold-lined box that money can buy.

We all had a wonderful celebration afterwards and the whole party marched down the street to the post office where the entire town of Portland waved “Bon Voyage!” to your package, on its way to you, in our private CD Baby jet on this day, Sunday, May 13th.

I hope you had a wonderful time shopping at CD Baby. We sure did. Your picture is on our wall as “Customer of the Year.” We’re all exhausted but can’t wait for you to come back to CDBABY.COM!!

Thank you, thank you, thank you!

Sigh…


Derek Sivers, president, CD Baby

Með ástvinum

Kosningavökunni eyddi ég með ástvinum. Þar voru samankomnir ég og allir persónuleikarnir mínir. Nokkuð merkileg samkoma það, þá kannski sér í lagi vegna þess að ekki eru persónuleikar mínir á eitt sáttir hvar þeir eru staddir í pólitík.

Guðlaugur tildæmis, sem er flokksbundinn framsóknarmaður; ekki sá hann mikla ástæðu til að gleðjast. Ég veit hann verður brjálaður þegar hann sér að ég hef skrifað framsókn með litlum staf; nóg var hann brjálaður fyrir. Að þurfa að drattast með þetta á bakinu. En sú mæða.

Nú, hún Valdís hefur engan áhuga á stjórnmálum, en hún er æst í franskar súkkulaðitertur með rjóma. Eyddi hún megninu af kosningavökunni í að nauða og heimta það af mér að ég bakaði eina slíka köku. Ég missti mig við hana, enda er hún alveg dæmalaust eigingjörn. Ég sagði henni svo rækilega til syndanna, að hún rauk út hágrátandi.
Mjög erfitt, því að þessi sjaldgæfi offitusjúkdómur hefur nánast lagt hana að velli, ekki bara í tvígang, ekki í þrígang, heldur í fjórgang. Ég verð þó að segja að mér létti þegar Valdís fór. Ég var búinn að reyna að seðja ofætuhungur hennar með þremur eplum, tveimur brauðsneiðum, hummus, túmat og appelsínusafa; allt kom fyrir ekki, hún gat ekki hamið sig. Hún hefur aldrei verið húsum hæf. Djöfuls leiðindi.

En Jón, hann var eyðilagður fyrir hönd Ómars Ragnarssonar. Hann Jón er alveg hryllilega meðvirkur. Hann má ekkert aumt sjá, þá tekur hann því svo ægilega persónulega. Og hvað hann vældi yfir Íslandshreyfingunni. Hann var að murka úr mér þann litla lífsneista sem ég vaknaði með.
“Hann Ómar er svo góður maður, hann á ekki þetta skilið”, volaði hann og vældi. “Þetta 5% mark er svo ömurlegt”, rödd hans titraði af harmi. Ég bað hann ítekað um að halda sér á mottunni, en allt kom fyrir ekki. Grátur gnístan tanna. Þvílík samkunda af vesöld og volæði.

En mikið finnst mér hann Steingrímur minn J. fallegur maður. Ég og Rebekka, erum harðsvíraðir fylgjendur Vinstri Grænna. Í hvert það skipti sem Steingrímur birtist á skjánum, kiknaði Rebekka í hnjánum. “Hann er svo yfirvegaður og svalur”, skríkti í henni. Ég tók undir það. Hann bar af, og ber af öllum höfuðpaurum stjórnmálaflokkanna.

Nú, má ég ekki vera að þessu. Ég sé að Lúðvík, er byrjaður að berja á Guðlaug. Ég þarf að stöðva þessi slagsmál, áður en þetta gillerí fer til fjandans.