Um veltu og eignir

Dóttir mín til níu ára, hefur ákveðnar skoðanir á því hvernig pabbi hennar hagar sínu lífi. Hún spurði mig orðrétt fyrr í dag, hvort ég væri að gera hosur mínar grænar. Ég bað hana um nánari útskýringu. “Ertu skotinn í einhverri konu?”, spurði hún óþolinmóð yfir því hversu illa áttaður ég var.
Ég spurði hana á móti, hvort henni finndist það nú alveg nauðsynlegt? Og ef svo væri, hvort sú kona þyrfti nú ekki að vera helvíti spes ef ég ætti að nenna að vera skotinn í henni.
Jú jú, hún féllst á það.

En henni finnst pabbi hennar vera kominn á þann aldur að hann ætti að eiga bíl. Ég sagði henni að ég ætti hjól og spurði hana hvort það væri ekki ásættanlegt. “Geturðu hjólað í Hafnarfjörðinn á hjólinu þínu?”, spurði hún. Ég sagðist ekki eiga í neinum erfiðleikum með það, að það væri nú minnsta málið. “Geturðu hjólað til Færeyja á hjólinu þínu?”, varð svo næsta spurning “…… eða Vestmannaeyja?” Nei, ég viðurkenndi að það gæti ég ekki, en uppfræddi hana föðurlega um að það væri nú ekki beint hægt að keyra til þessara staða.

“Afhverju ertu ekki búinn að kaupa þér íbúð?” Ég sagði henni að ég væri bara ekkert búinn að ákveða hvort mig langaði til að eiga íbúð á Íslandinu prýðilega. Ég fékk fleiri spurningar um mína hagi og að lokum lofaði ég að senda henni yfirlit yfir veltu og eignir í emil.

4 thoughts on “Um veltu og eignir”

  1. Nú ætla ég að deila með þér mjög góðu uppeldisráði sem aldrei bregst þegar börn koma með óþægilegar spurningar og skoðanir sem stangast á við þínar: Segðu barninu að fara inn í herbergi og koma ekki fram fyrr en það hefur lært sína lexíu. Vertu strangur á svipinn.

  2. Kæra B. Þetta heilráð þitt verður næsta útspil mitt. Með því mótinu ætti ég að geta gert barnið mitt hæfilega taugaveiklað og paranojað til að ég hafi stjórn á því. Hún kannski talar ekki öll unglingsárin við mig fyrir vikið, en hey, það er ekki á allt kosið.

Comments are closed.