Fyrir 12 árum síðan stoppaði ég inntöku á hugbreytandi efnum sökum smávægilegra vandræða þeim tengdum. Þrátt fyrir það hef ég síður en svo hætt að gera mig að fífli í public. Það er ómetanlegt að fá að upplifa með fullri meðvitund hversu mikill fábjáni maður getur verið.
Fyrr í þessum mánuði fékk ég í heimsókn til mín mjög kæra vinkonu og til að hafa ofan af fyrir henni tók ég hana með mér ásamt annarri vinkonu minni til að sjá Flamenco dans á litlum stað sem heitir Cafe Del Duende. Ég hafði áður farið á þennan stað og var þá að sjá Flamenco í fyrsta skipti á ævinni. Ég var þá í för með heimamönnum sem sögðu mér að þessi staður væri ekki þekktur fyrir einhvern túristaflamenco heldur væri þarna fluttur hinn eini og sanni Flamenco, eða Flamenco auténtico. Sá flutningur hafði gríðarleg áhrif á mitt kórazón. Þrátt fyrir að skilja ekki alveg textann, skynjaði ég í gegnum sönginn og dansinn, ástina og sorgina. Hið mannlega ástand.
Við settumst við borð til hliðar við sviðið. Á borðinu var blóm sem ég gaf engan sérstakan gaum. Fyrir miðjum staðnum voru þéttvaxnar konur með afar vel nærðum börnum sínum. Þau voru búin að setja saman 2-3 smáborð og búin að dekka þau með allskonar skyndibitamat sem þau tróðu í andlitið á sér meðan Flamenco-inn var fluttur. Ég heyrði ekki betur en þau töluðu þýsku. Í fyrirlitningu, fullur af einhverju ímynduðu menningarsnobbi, leit ég á þau og hugsaði þeim þegjandi þörfina. En hvað þau eru ófín! Sitjandi hérna á einum fínasta Flamenco stað í allri Valencíuborg gúffandi í sig ruslfæði. Aumingja Flamenco listafólkið sem neyðist til að kasta perlum sínum fyrir þessi SVÍN.
Flamenco flutningurinn var magnþrungnari en í fyrra skiptið. Söngvarinn sagði söguna af þrautagöngu mannsins, erfiðleikum hans í samskiptum við sína heittelskuðu og á meðan dönsuðu karl og kona með miklum tilþrifum. Þvílík upplifun. Þvílíkur taktur. Ég gaut augunum í átt að græðgisfullu þjóðverjunum sem voru rétt í þann mund að klára frönsku kartöflurnar. Þau horfðu tómum augum á Flamenco dansarana og skildu ekki neitt í neinu. Menningarlausa pakk! Ég hnussaði innan í mér af vandlætingu.
Dansinum lauk og salurinn klappaði og klappaði. Ég klappaði og hreifst, ölvaður af gleði og sorg. Blómin flugu á sviðið frá nærliggjandi borðum. Ég áttaði mig þá á hvers vegna það lá blóm á borðinu, greip það og kastaði því. Eitthvað hef ég verið fucktarded í hendinni minni því í staðinn fyrir að lenda fyrir fótum listamannanna, lenti blómið beint í hausnum á karlkyns dansaranum sem leit umsvifalaust í áttina að mér með hatur í augunum. “Voy a matarte!” – öskraði hann á mig með allri sinni tilveru. Ég ætla að drepa þig! Ó mig auman hvað ég er mikið fífl. Ég vildi að jörðin gleypti mig. “Svona gleyptu mig jörð!” grenjaði ég í gólfið. Flamenco dansarinn sópaði upp blómunum og gerði sig líklegan til að kasta þeim í mig á leið sinni af sviðinu. “Ó hann ætlar að troða þessum blómum í öndunarfærin á mér!” gargaði ég. En hann strunsaði fram hjá mér.
Svona náði ég að eyðileggja einn þann flottasta Flamenco flutning sem fluttur hefur verið í allri Valencíuborg. Ekki skyndibitaétandi þjóðverjarnir eða taktlausu bretarnir, heldur ég, hinn fágaði listunnandi. Síðar um kvöldið, lamaður af sorg, náði ég tali af Flamenco dansaranum og bað hann afsökunar: “Perdóname, yo soy torpe!” Hann sagðist ekkert reiður, en ég trúi honum ekki.
Einhversstaðar hérna í Valencíuborg er Flamenco dansari sem hatar mig.