Tilhugalíf fugla

Ég sá litla fallega umfjöllun í fréttatíma ríkissjónvarpsins um tilhugalíf fugla. Miklir snillingar eru þetta hjá RUV. Karlkyns krían færir kvenkyns kríunni orm í gogginn og fær án allra málalenginga að bregða sér á bak. Þessi háttur er hafður á í mannheimum líka. Uppáklætt stælt karldýr í krumpuskyrtu, snjóþvegnum gallabuxum íklæddur svörtum jakka með temmilegt magn af vellyktandi kaupir í glas fyrir kvendýr. Gubbar karldýrið síðan yfir kvendýrið og hún án þess að hugsa sig tvisvar gerir sig aðgengilega honum. Ekki svo fjarri því sem gerist í dýraríkinu. Það vill oft gleymast að við mennirnir erum ekkert nema dýr. Það fer þó ekki fram hjá mér því hið svokallaða tilhugalíf manna blasir við mér hverja einustu helgi. Í þægilegheitum míns eigin heimilis get ég fengið að fylgjast með hvernig bera sig á að, ef maður vill koma manndýri af gagnstæðu kyni til. Það er fátt eitt meira aðlaðandi og jafnvel kynæsandi en fulltíða karlmaður sem gargar, öskrar og hrópar jafnvel stríðsöskur. Þeir ná án tafar athygli kvenpeningsins sem fellur kylliflatur fyrir viðkomandi. Að mölva bjórflösku eða rúðu er líka mjög kynæsandi, það ber merki um þarna er á ferð mjög sterkur og áhugaverður persónuleik sem þarf kannski aðeins að temja. Konur eru mjög hrifnar af karlmönnum sem þarf að fínslípa og líður ekki á löngu áður en maður sér á eftir karl og kvendýrinu á leið heim í leigubíl. Léttlyndir karlmenn sem tjá oftar en ekki gleði sína með söng, syngja konur á sitt band. Ólei, ólei, ólei heyri ég þá syngja. Konur að mér virðist vita ekki sitt rjúkandi ráð og færast umsvifalaust allar í aukanna. Áður en þær sjálfar gera sér grein fyrir eru allir sem að málinu koma komnir í höfn. Deginum eftir, vakna dýrin frísk og endurnærð eftir ævintýri helgarinnar. Þau týna á sig spjarirnar sem þau fækkuðu yfir nóttina, brosa í spegilinn og valhoppa út í morgunsólina sem skín svo glatt á okkur íslendinga.

Sól sól skín á mig

Þess ber að geta að síðast sást til sólar fyrir u.þ.b 10 dögum. Ég hef í hyggju að forrita teljara sem telur daganna á milli þess sem sjaldséðna gula uppátækið þarna á himnum lætur á sér kræla.
Það kann að vera að þetta sé óþolandi raus af minni hendi, en mér er svo innilega skítsama. Ég hef ekki gefið mig út fyrir að vera andlegur risi og það er ekkert leyndarmál að ég einfaldlega þoli ekki veðráttuna hér heima í hlaði. Núna þegar ég skrifa þessar línur er svo kalt að ég þarf að láta rafmagnsdrifinn hitablásara anda á mig heitu lofti, og dugar fjandakornið ekki til. Ég er barn guðs og ég á einfaldlega heimtingu á að fá að syngja og spóka mig í sólskininu meðan ég valhoppa um í áður óþekktri gleðivímu. En því verður víst ekki að heilsa. Ekki þetta sumarið.

Ísrael og söngur

Ég má ekki hugsa um blóðbaðið á Gaza strönd í dag, án þess að bólgna út af reiði í garð Ísraela. Það er auðvelt að falla í þá gryfju að dæma heila þjóð ábyrga fyrir verknaði sem þessum. Rétt eins og þegar blökkumaður fremur voðaverk í Ameríku, þá blæðir oft heill kynþáttur fyrir vikið. Maðurinn er ótrúlega mikið helvítis fífl. Já, ég geri mér grein fyrir því. Ég er maður og ef ég er settur í réttar aðstæður, þá er hægt að framkalla öll þau viðbrögð sem ég fordæmi í öðrum mannverum. Ég held að það sé mikilvægt að gera sér grein fyrir þessu. Maður frá góðu heimili með góða menntun, vel innréttaður, andlega þenkjandi, mömmustrákur eða hvað það eina sem hægt er að týna til sem flokkast undir dyggðir og góðan ásetning. Í réttum aðstæðum, brýtur viðkomandi gegn samfélagi sínu, siðgæðisvitund sinni og gerir hluti sem hann vissi ekki einu sinni að hann ætti til í skúmaskotum persónuleika síns.

Varðandi Ísrael, þá get ég skilið að þeir reyni eftir bestu getu að uppræta alræmda hryðjuverkamenn inn á gráu svæðunum, en þetta sem gerðist í dag þjónaði engum tilgangi. Tilgangslaust blóðbað í höndum fólks sem hefur sjálft verið hundelt og myrt í gegnum mannkynssöguna.

———————————-
Ég hef komist að því með vísindalegum aðferðum að söngur gagnast mér í að viðhalda gleði og ánægju sem óneitanlega fylgir léttu lundarfari mínu. Mér þótti þetta merkilegur fundur. Upp úr kvöldmat varð ég var við slen í mér. Mér kom þá til hugar hvort það gæti gagnast mér að syngja slenið úr mér. Mér til mikillar furðu, virkaði það og slen mitt hvarf eins og dögg fyrir sólu. Ég söng, Paper Doll, sem er mikið prýðislag sungið svo eftirminnilega af Mill’s Brothers. Í framhaldi af því söng á Ashtanga Jóga kver eitt, sem ég heyrði á jóga spólu sem mér áskotnaðist fyrr á þessu ári. Árangurinn var slíkur að ég hóf leit á internet-inu prýðilega og komst að því að söngur er notaður í meðferð á alzheimersjúklingum. Nú, rétt bráðum ætla ég að syngja sjálfan mig í svefn. Það vill nefnilega svo skemmtilega til að athöfnin að sofa er í sérstöku uppáhaldi hjá mér.

Miskunnarlaus heimur viðskipta.

Ég er nýgræðingur í örum og miskunnarlausum heimi viðskipta og þrátt fyrir að hafa lagt á minnið öll heilræði Donalds ljóta Trump, er eitt og annað sem mér er að lærast þessa daganna.

Ég hef áður nefnt hversu hryllilega mér gengur að leggja stund á samskipti við annað fólk og er óhætt að fullyrða að samskipti eru nánast óhjákvæmileg í hörðum heimi fyrirtækjareksturs.

Ég hef komist að því að ég er allur að vilja gerður til að gleypa nánast hvaða vitleysu sem er hráa, eða illa matreidda. Ég geri bara einfaldlega ráð fyrir því að fólk sé frekar vel innréttað og byggi á heilindum frekar en eigingirni og viðurstyggð. Ef einhver kemur að máli við mig og heldur úti langa útlistun á því hvers vegna ákveðin element virka á þennan veginn en ekki hinn, þá er ég tilbúinn til að trúa því heilshugar og er jafnvel tilbúinn að fara í sleik við viðkomandi, eða gefa honum munngælur til að innsigla ánægjuleg viðskipti.

En hlutirnir virka ekki alveg svona niður í Austurstræti og er ég að komast að því að þessi heimur hans Donalds Trumps er síður en svo fallegur. Ég hef því tekið nýjan pól í hæðina, þar sem allir héðan í frá verða í mínum augum drulluháleistar og viðbjóðar, þangað til þeir hafa sannað það fyrir mér á afdrifaríkan máta. Ég frá þessari stundu verð íslenski túrhesturinn sem allir eru alltaf að svindla á. Var ekki búið að lofa okkur vínsmökkunarferð, þar sem maður getur hellt í sig ótakmarkað? Spyr ég. En nei. Þessi ferðaskrifstofa hefur traðkað á mér í síðasta skiptið. Þessa daganna er að fæðast ný manneskja í Austurstræti og hún kallar ekki allt ömmu sína.

Appelsínugul tilvera

Ég er að verða búinn að fá upp í kok af appelsínugulri tilveru minni. Mér verður flökurt í aumingjans mallanum mínum í hvert sinn sem ég kem inn á þennan vef.Ég á hinn bóginn hef ekki orðið tíma til að njugga sjálfshyggju mína. Hvernig stendur á því og hvernig kem ég til með að lifa það af? Eins og allt það fólk sem vegur eitthvað í hita og þunga íslensks samfélags er ég orðinn kaupsýslumaður og þarf því að haga mér sem slíkur. Mér er engan veginn tildæmis fært um að tala við alla sem á vegi mínum verða. Það þarf ekki að fara fyrir brjóstið á neinum og alls engin ástæða til að taka því persónulega þó ég sé ekki að kasta á fólk kveðjur hægri vinstri. Ég einfaldlega kem ekki til með að hafa tíma til þess. Eins og segir í The Apprentice, “It’s not personal, it’s only business” og hef ég ákveðið að gera þau orð, ásamt svo ótal mörgum gullkornum Donalds ljóta Trump að mínum.
Já, ég þarf að klæða mig upp í sjakket, á degi hverjum og punta mig. Rífa úr mér nefhárin, raka eyrun, setja á mig vellyktandi svo eitthvað sé nefnt. Það halda það margir að það sé einfalt að vera kaupsýslumaður, en ég get fullvissað ykkur um að svo er ekki. Það útheimtir blóð svita og tár. Möguleikinn á að missa vini sína og fjölskyldu, vex svo um munar. En hverju skiptir það, þegar maður eignast seðla í staðinn. Sá sem á mest af seðlum þegar hann deyr vinnur.