Ég var einu sinni ömurlegur, en er núna frábær!

Stundum getur lífið verið bölvaður óþverri og þá er ekki gaman. En þegar það er gaman: Þá er gaman! Ég hef komist að því með vísindalegum aðferðum að þarna eru bein tengsl á milli.

Mannskepnan er stundum svolítið einkennileg. Ef hún viðurkennir rangindi upp á sig, þá passar hún sig á að það komi skýrt fram að mistökin hafi átt sér stað í fortíðinni og eru ekki lengur í gildi. Það heyrir til algerra undantekinga ef mistakarinn staðnæmist meðan á yfirsjóninni stendur og segir eitthvað á þessa leið: Hey, ég er að gera mistök! Ég er nú meira fokking fíflið! Eða: Guð, í himinhæðum, Jesú, María og Jósef, hvað ég er ömurlegur! Nei, þannig einfaldlega gengur það ekki fyrir sig í lífinu. Mistök, eða misbrestir í skapgerð, fyrirfinnast einungis í fortíð sérhverrar manneskju. Sömuleiðis kjánaleg atvik, eða uppákomur þar sem einhver verður sjálfum sér til minnkunar. Það er mun þægilegra að horfast í augu við að maður gerði sjálfan sig að fífli fyrir nokkrum misserum síðan, en tildæmis fyrr sama dag, eða í gær. Hugmyndafræðin: “Ég var einu sinni ömurlegur, en er núna frábær!” er kennd í poppuðum sjálfshjálparhópum. Þar er hægt að læra að sættast á að einu sinni var maður kannski frekar mislukkaður, en í núinu er maður orðinn ótrúlega efnileg manneskja með gullfallegt hjartalag. Allt er þetta gott og blessað, nema að í dag kom babb í bátinn, ég komst að því að ég er ennþá fokking fáviti.

Yggdrasill um Yggdrasil frá Yggdrasil til Yggdrasils

Vinsamlegast komdu við í Yggdrasil, sagði ég við fröken Sigríði þar sem ég sat í bifreið hennar af fólksvagengerð. Er ekki þágufallið af Yggdrasill, Yggdrasli? spyr fröken Sigríður. Ég held nú ekki, þágufallið af Yggdrasill er Yggdrasil, og þarf ekki neinn vísindamann til að finna það út, hreytti ég þóttafullur í frökenina. Úr varð deilumál sem ekki hefði verið hægt að útkljá á þeim tíma sem tekur að keyra frá Skipholti yfir á Skólavörðustíg, þannig að fröken Sigríður hringdi í hið Íslenska Málfræðifélag, til að skera úr um hvor okkar hafði rétt fyrir sér.

Þegar hér er komið við sögu er rétt að hafa orð á að mikilvægi þess að hafa rétt fyrir sér er ofar öllu öðru mikilvægi í dýraríkinu. Hafi maður rétt fyrir sér, þá óhjákvæmilega hefur einhver annar rangt fyrir sér og það gefur þeim sem hefur rétt fyrir sér gúddí gúddí tilfinningu í Jíhadinu sínu.

Kári hjá Íslenska Málfræðifélaginu, tjáði frúnni að ekki væri alveg vitað hvernig ætti að fallbeygja Yggdrasill, hann taldi þó að þágufallið væri mjög líklega Yggdrasil. Ég, þágufallssjúklingurinn, varð ánægður með málalok, gleðin hefði án efa enst mér fram á kvöld hefði ég fengið óyggjandi staðfestingu á hvor okkar hafði rétt fyrir sér. Svona er þetta oft í lífinu.

Góssentíð fúllynda

Fyrir okkur sem erum í eðli okkar fúllynd, eru kreppur og aðrar óhamingjur, mikil góssentíð. Nú, þurfum við ekki að gera okkur upp viðurstyggilega kátínu. Brosið sem við reyndum að framkalla, en umbreyttist í fáranlega grettu, heyrir nú sögunni til. Nú getum við gefið reiðinni og pirringnum lausan tauminn, og þurfum ekki að halda aftur af okkur. Óhindrað getum við ausið skólpi úr skálum reiði okkar, þannig að ófögnuðurinn slettist á alla sem voga sér að vera nærri.
Reyndir þú að halda aftur af þér og brosa eins og fífl, þegar góðærið var og hét? Nú gerist þess ekki þörf. Nú er alveg kjörið að missa stjórn á sér, tildæmis á vinnustað, eða heima í faðmi fjölskyldunnar. Það kemur enginn til með að áfellast þig. Þetta er þannig tími. Það eru allir reiðir. Nú getum við verið við sjálf og þurfum ekki að vera feimin við að sýna okkar rétta eðli. Guði sé lof fyrir kreppuna!

Leiðindi

Stundum bærist í brjósti mér ákaflega einkennileg tilfinning: Mér finnst eins og ég hafi ríka ástæðu til að vera leiður yfir einhverju, en ég man bara ekki hver hún var. Í annasömum eril dagsins, þar sem stórar fjárhæðir eru fluttar á milli herbergja, hefur eitthvað komið upp á, einhver hugsun orðið til, eitthvað áformað, sem mér finnst svo leiðinlegt að ég hef ákveðið að eyða ómældum tíma í að vera niðurdreginn yfir því. Í kingumstæðum sem þessum, verða mögulega til önnur leiðindi. Ef maður einbeitir sér. Það dugar þó skammt, því fátt er eins dapurlegt og verða af leiðindum sem mögulega geta stuðlað að réttlátri reiði sem kannski endist í margar vikur, jafnvel mánuði. Það er hreint út sagt, syndsamlegt. Líkt og þegar maður hefur ákveðið að vera ógeðslega fúll út í einhvern og steingleymir því og heilsar viðkomandi glaðlega. Það er ægilega hallærislegt. Þá er mun betra að vera bara alltaf fúllyndur í öllum sínum samskiptum við fólk.

Veitt í matinn

Það er lítil hætta á að síðuhaldari deyi úr hungri. Ísraelskur skógarköttur sem gengur undir nafninu Avraham, hefur tekið að sér að afla íbúum dúkkuhússins í litla Skerjarfirði matar.
Þegar ég kom heim eftir annasaman dag á skrifstofunni, lá fyrir utan bjálkakofann fugl sem flýgur aldrei aftur. Þó ég sé allur af vilja gerður, fæ ég ekki séð að ég geti tjaslað fuglinum saman og blásið í hann lífi.
Avraham hefur notað frægar Mossad drápsaðferðir og snúið bí bí úr hálsliðnum. Því næst hefur hann rifið úr honum hjartað og kreist úr því síðustu blóðdropana meðan hann hló illkvittnislegum hlátri. Svo hefur hann slitið restina af innyflunum úr fuglinum og dreift þeim skipulega í kringum fiður og stél.
Ég sem hef ekki gert mikið annað en að þjónusta þennan kött, er ánægður með að hann leggi loks eitthvað að mörkum til heimilisins. Ég kann honum bestu þakkir fyrir. Ég vona að hann taki því ekki illa þó ég steiki ekki bráðina í gúmmilaðisósu og leggi mér til munns. Til þess þarf að kreppa örlítið meira að.

Í verslun djöfulsins

Mikið ægilega leiðist mér lífið hérna á Íslandi um þessar mundir. Samhyggðin, sem mér fannst ég finna fyrir í síðustu viku er lönd og leið, þess í stað er fólk fast svamlandi í þessum fúla pytt sem enginn stakk sér viljugur til sunds í. Viðmót fólks er þannig að manni dettur helst í hug að allir séu nú þegar lepjandi dauðann úr skel.

En það er sama hvað á dynur, ég er alltaf blístrandi. Sumir hata blístrandi karlmenn nær fertugu, og hef ég orðið fyrir aðkasti og fengið á mig fúkyrði þess vegna. Yfirleitt eru það konur á breytingarskeiðinu sem þola illa flautið í mér. Karlmenn hafa aldrei beðið mig um að hætta að flauta. Sumir þeirra hafa meira að segja tekið undir. En þó svo ég blístri eins og söngfugl, er það ekki nein ávísun á að ég sé glaður innan í mér. Ég get vel verið að hugsa dauðahugsanir, þó svo ég blístri söngleikjalög eins og A spoon full og sugar, eða Happy talking, talking.

Í dag kraumaði innan í mér fyrsta flokks gremja. Ég var búinn að nýta langan göngutúr í að kynda vel undir hana, næra og hlúa að henni. Á leið minni heim, kom ég við í verslun djöfulsins 10/11 til að kaupa mér túmata. Þar inni heyrði ég HAM syngja Voulez Vous í útvarpinu. Ég tók umsvifalaust undir með þeim og blístraði eins og ég ætti lífið að leysa. Þegar ég kom að afgreiðsluborðinu mætti mér ungur afgreiðslumaður, með eitt tonn af eyrnalokkum og pinnum í andlitinu. Mér þótti hann strax fyrirtak. Ég hef tekið eftir að í þessari verslun eru stundum að vinna alveg stórfínar manngerðir. Einn rokkarinn sem afgreiddi mig um helgina var tildæmis niðursokkinn í Njálu og fékk fullt hús stiga í hausnum á mér fyrir vikið.

“Varst það þú sem varst að flauta” spurði hann mig meðan hann vóg túmatana. Ég sagði svo vera. “Helvíti flott hjá þér” sagði hann, og kinkaði kolli í mikilli velþóknun. “Þetta lag er nú betra með HAM, en Abba” sagði hann og brosti. Ég íhugaði með sjálfum mér, hvernig ég ætti að bregðast við. Hvaða karakter ég gæti kallað upp á svið til að dylja gremjuna sem bullsauð í sálu minni. Ég ákvað að vera hressi gaurinn og tók undir þessi orð afgreiðslumannsins, en velti því fyrir mér á sama tíma, hvort ég hefði hljómað eins og ég væri of hress, því það væri ekki nógu sniðugt. Ég þakkaði fyrir afgreiðsluna og slaufaði þessu litla spjalli með að segja, að HAM hefði verið yndisleg hljómsveit. Þrátt fyrir að hugur fylgdi máli, fannst mér eins og ég væri að gera mér upp glaðlyndi, sem er það allra hryllilegasta sem ég geri. Hvað um það. Mér þótti vænt um að hitta þennan afgreiðslumann. Mitt í dauðanum og djöflinum sem gengur í þessu samfélagi, er gaman að hitta á einhvern eins og hann.

American Airlines

Ekki er nóg að andlegur maður beri sig vel og sé snyrtilega klæddur. Hann þarf líka að hljóma eins og hann gangi erinda guðs. Einu sinni átti ég hlut í American Airlines og sótti stjórnarfundi hjá því ágæta fyrirtæki. Þeir sem til þekkja vita að American Airlines, er ekki bara risastórt flugfélag, heldur líka samfélag manna sem náð hafa framúrskarandi árangri á andlega sviðinu.

Mér þótti alltaf svolítið skrítið að heyra hvernig hljómurinn í nýjum hluthöfum breyttist þegar þeim fannst þeir komast í aðeins meira návígi við almættið, en við hin. Ég heyri þennan sama hljóm, ef ég slysast til að opna fyrir útvarpið upp úr 11 á sunnudagsmorgni , nema rödd þess er þar talar nýtur oftast hljómburðar kirkjubygginga, meðan rödd hluthafans andlega í American Airlines virðist vera með þennan bergmálandi hljóm innbyggðan. Gunnar á Krossinum, er gott dæmi um mann sem hljómar guðlega. Það er engu líkara en að röddin bergmáli í iðrum hans. Hljómfögur með eindæmum. Ætli Jesú hafi hljómað svona guðlega?

Ég hef reynt eitt og annað í andlegum málum, og tel mig vera andlega þenkjandi milli þess sem ég ráfa um götur borgarinnar tautandi fyrir munni mér: Drepa, drepa, drepa – en aldrei hef ég tekið eftir að rödd mín næði þessum hæðum. Ég man eftir að það var flokkur manna innan American Airlines, og allir honum tilheyrandi virtust vera með þennan guðlega tón. Einn þeirra varð svo guðlegur að hann fór í Háskólann til að læra að vera prestur. Ætli menn sem trúa nógu heitt á Gvuð, fái þennan tón í kaupbæti frá almættinu?

Leggðu því vel við hlustir næst þegar þú fyrirhittir einhvern sem hljómar guðlega, því þar fer líklega helgur maður og helgir menn kúka ekki.

Moggaknús

Mannskepnunni þykir gott að knúsa aðrar mannskepnur og að láta aðrar mannskepnur knúsa sig. Við þessa athöfn verða til gúddí gúddí efnasamskipti í líkamsstarfsemi þeirra sem að knúsinu standa. Núna á ögurtímum í íslensku þjóðfélagi, þegar líkaminn framleiðir lítið sem ekkert af gúddí gúddí efnum, er mikilvægt að knúsast eins og móðurríðarar. Hvert sem augað eygir, má sjá fólk leggja stund á knús. Í stórmörkuðum, úti á götu, á kaffistofunni, eða bara heima í hlaði – allir eru að knúsast.

En nú þurfa moggabloggarar, til allrar guðs blessunar, ekki að fara út fyrir hússins dyr til að knúsa hvorn annan, því netdeild morgunblaðsins – sömu frumkvöðlar og færðu okkur hið vinsæla moggablogg – hafa bætt við þartilgerðum knúsmöguleika, sem gerir moggabloggurum kleift að knúsa aðra skráða moggabloggara. Þessi nýjung var kunngerð fyrst í dag, og alveg er ég viss um að moggabloggarar hafi sameinast í stórfelldu hópknúsi sem ekki er séð fyrir endann á.

Dagurinn sem hægt verður að ríða bloggvinum sínum með því að smella á takka, er dagurinn sem ég hætti að þusa einn út í horni og skrái mig á moggabloggið.

Guð blessi Ísland

Stemningin er öll að verða betri hér á Íslandi. Fyrr en varir getum við snúið aftir til fyrri lífshátta. Sem er gott, því ég hef ekki þorað í Kringluna síðan ósköpin byrjuðu.

Þetta var svolítið strembið þarna á tímabili, en til allrar guðs lukku erum við í höfn. Við Íslendingar stöndum saman, erum harðir í horn að taka, pissum þar sem við stöndum og skítum þar sem við sitjum. Þegar syrti í álinn, slógum við upp skjaldborgum með hreðjunum á okkur. Sigldum síðan míglekandi dallinum á fullu stími inn í ólgandi brimið. Snekkjur bankamannanna urðu eftir rígbundnar við bryggju. Við viljum ekki að gulldrengirnir okkar fari sér að voða. Við snérum bökum saman og börðumst við sjóskrímsli sem ekki voru bara ljót heldur líka bresk. “Það vantar fleiri skjaldborgir hér!” hrópaði einhver bakborða. Orð hans köfnuðu þegar alda reið yfir. Hart í bak. Sigla meira. Brimið. Einhverjir gubbuðu. En svo lygndi.

Nú er þoka. Þegar þokunni linnir, getum við haldið áfram uppteknum hætti. Við þurfum við ekki að staldra við og endurskoða hvernig við höfum lifað síðustu árin. Við þurfum ekki að láta af persónutöfrum velgengninnar. Við getum haldið áfram að vera dónaleg, tillitslaus, hrokafull, sjálfsánægð, rasísk, gráðug og eigingjörn.

Við lærðum ekki neitt, því við vissum allt fyrir.

Feiti gráðugi kisinn

Ég ætlaði að skrifa gífuryrtan reiðipistil, sem innihélt upphrópanir eins og: “Ég heimta kosningu strax” og “Hann er hálfviti” en þá mundi ég eftir ástinni og hvað hún er yndisleg. Meiri ást takk!

Ég hef ekki skrifað staf um íturvaxna köttinn Avraham síðan ég flutti í litla Skerjó, líklega vegna þess að á tímabili þoldi ég hann ekki. Mér fannst hann ekki koma fram við mig af þeirri virðingu sem ég þóttist eiga inni hjá honum. Hann bara tók og tók(græðgi), en gaf ekkert af sjálfum sér(eigingirni). Síkvartandi, heimtandi tyllidagamat meðan ég sætti mig við hversdagsmat. Greinilega ekki af sömu kynslóð og ég, alinn upp í kópavogískri nægjusemi. Jæja, hvað um gömul og góð gildi. Síðastliðinn mánuð hefur þessi gráa hlussa náð að bræða hjarta mitt og ást mín á honum hefur vaxið í hlutfalli við vömbina á honum.

Í dúkkuhúsinu í litla Skerjó, er 8 fermetra svefnloft. Þar sef ég og dreymi tímamótadrauma. Það tók gráu hlussuna rétt rúman hálfan mánuð að finna út úr hvernig hann gæti komist upp til mín. Fyrst stökk hann af kistlinum upp á fataskápinn. Ég sá hann aðeins gera það einu sinni og þótti mjög tilkomumikið. Svo lærði hann nýja og örlítið hættuminni aðferð. Ég hef þó aldrei séð nákvæmlega hvernig hann kemst upp með þeirri aðferð – þannig að ég nýtti mér nýjustu tækni í hreyfimyndagerð til að kanna hvernig hann bæri sig að.

[MEDIA=181]

 

Ég má til með að nefna, en í dag keypti ég diskinn Sleepdrunk Seasons með Hjaltalín og er hann guðdómlegur.

Bylting

Ég taldi víst í upphafi þessa árs að nú færi í hönd ár ástar og kærleika. Ég var þrátt fyrir það í molum eftir að hafa eytt ómældum tíma í eitthvað fyrirbæri sem ég hélt að væri ást, en reyndist vera óþverri. Í mínum huga var ást, ást, ást lykillinn að sannri hamingju og það eina sem ég óttaðist var að hún dygði ekki til að vinna á slæmsku þessa heims.

Með þessar rómantísku hugsanir valhoppaði ég, flautandi eins og rauðbrystingur, í gegnum fyrstu mánuði ársins. Allavega fram að þeirri stundu að ég fór að efast um allt og alla. Einhverja kvöldstundina ræddi ég í góðra vina hópi hvort von væri á ámóta umbyltingu í hugsunarhætti og á sjöunda áratugnum. Þessir vinir mínir héldu nú ekki og fussuðu og sveiuðu yfir þessum hugdettum mínum, sem þeim fannst heimskulegar og vera enn ein sönnun þess að ég er ömurlegur hálfviti, með barnalegar hugmyndir um lífið.

Ég var á þeirri stundu orðinn ákaflega þreyttur á íslensku samfélagi og því veraldlega drasli sem fólk taldi sér til tekna. Ég var eins og svo oft áður – utanveltu. Ég átti ekki fasteign, keyrði ekki um á glæsibifreið, fannst meira varið í að vera minn eigin herra, en að starfa fyrir stórt skrímsli með veglegar tekjur. En mikið hafði ég reynt. Ég réði mig meira segja til vinnu hjá stóru skrímsli, en entist ekki lengi, enda held ég að mér hafi aldrei liðið jafn herfilega á nokkrum vinnustað. Það er ekki hægt að láta sér þykja vænt um ljótt og ópersónulegt skrímsli.

En eftir að hafa reynt eitt og annað til að fóta mig í þessu samfélagi fór ég að efast. Fyrst efaðist ég um sjálfan mig. Svo efaðist ég um gildi samfélagsins. Og áður en ég vissi af, var ég farinn að efast um allan ásetning mannskepnunnar. Þá óskaði ég þess að önnur eins bylting og varð í þankagangi á sjöunda áratugnum, endurtæki sig og velti því fyrir mér hvort það ætti nokkurn tímann eftir að gerast aftur. Bara án vímugjafa. Frelsi fyrir atgöngu vímuefna er háð framboði á enn einum markaðnum. Spurning mín hinsvegar er sú hin sama.

Óvissuástandið sem ríkir núna er næstum jafn spennandi og að nota almenningssamgöngur í Ísrael.