Í verslun djöfulsins

Mikið ægilega leiðist mér lífið hérna á Íslandi um þessar mundir. Samhyggðin, sem mér fannst ég finna fyrir í síðustu viku er lönd og leið, þess í stað er fólk fast svamlandi í þessum fúla pytt sem enginn stakk sér viljugur til sunds í. Viðmót fólks er þannig að manni dettur helst í hug að allir séu nú þegar lepjandi dauðann úr skel.

En það er sama hvað á dynur, ég er alltaf blístrandi. Sumir hata blístrandi karlmenn nær fertugu, og hef ég orðið fyrir aðkasti og fengið á mig fúkyrði þess vegna. Yfirleitt eru það konur á breytingarskeiðinu sem þola illa flautið í mér. Karlmenn hafa aldrei beðið mig um að hætta að flauta. Sumir þeirra hafa meira að segja tekið undir. En þó svo ég blístri eins og söngfugl, er það ekki nein ávísun á að ég sé glaður innan í mér. Ég get vel verið að hugsa dauðahugsanir, þó svo ég blístri söngleikjalög eins og A spoon full og sugar, eða Happy talking, talking.

Í dag kraumaði innan í mér fyrsta flokks gremja. Ég var búinn að nýta langan göngutúr í að kynda vel undir hana, næra og hlúa að henni. Á leið minni heim, kom ég við í verslun djöfulsins 10/11 til að kaupa mér túmata. Þar inni heyrði ég HAM syngja Voulez Vous í útvarpinu. Ég tók umsvifalaust undir með þeim og blístraði eins og ég ætti lífið að leysa. Þegar ég kom að afgreiðsluborðinu mætti mér ungur afgreiðslumaður, með eitt tonn af eyrnalokkum og pinnum í andlitinu. Mér þótti hann strax fyrirtak. Ég hef tekið eftir að í þessari verslun eru stundum að vinna alveg stórfínar manngerðir. Einn rokkarinn sem afgreiddi mig um helgina var tildæmis niðursokkinn í Njálu og fékk fullt hús stiga í hausnum á mér fyrir vikið.

“Varst það þú sem varst að flauta” spurði hann mig meðan hann vóg túmatana. Ég sagði svo vera. “Helvíti flott hjá þér” sagði hann, og kinkaði kolli í mikilli velþóknun. “Þetta lag er nú betra með HAM, en Abba” sagði hann og brosti. Ég íhugaði með sjálfum mér, hvernig ég ætti að bregðast við. Hvaða karakter ég gæti kallað upp á svið til að dylja gremjuna sem bullsauð í sálu minni. Ég ákvað að vera hressi gaurinn og tók undir þessi orð afgreiðslumannsins, en velti því fyrir mér á sama tíma, hvort ég hefði hljómað eins og ég væri of hress, því það væri ekki nógu sniðugt. Ég þakkaði fyrir afgreiðsluna og slaufaði þessu litla spjalli með að segja, að HAM hefði verið yndisleg hljómsveit. Þrátt fyrir að hugur fylgdi máli, fannst mér eins og ég væri að gera mér upp glaðlyndi, sem er það allra hryllilegasta sem ég geri. Hvað um það. Mér þótti vænt um að hitta þennan afgreiðslumann. Mitt í dauðanum og djöflinum sem gengur í þessu samfélagi, er gaman að hitta á einhvern eins og hann.

9 thoughts on “Í verslun djöfulsins”

  1. Hver ég? Nei; ÞÚ! Þú átt ekkert með að kalla virðulegar frúr S. Þorfinn. Ég kalla nemendaráð til vitnis um að ég er alls ekki S. Þorfinnur.

  2. Veistu hvað, ég er alltaf blístrandi líka, en mér finnst konur á breytingarskeiði yfirleitt brosa við mér þegar ég rúlla framhjá þeim blístrandi, en kannski er það bara ímyndun í mér.

  3. Siggi sæti. Þú ert njúrótískur gyðingur inn við beinið og hefðir gott af því að fara í afró dans. Ert enginn andsk Finni.

  4. Hetja: nei, en ég hef átt tvær finnskar kærustur og svo hefur dóttir mín komið til Finnlands og er meira að segja að klára BA í finnsku.

Comments are closed.