Þroskasaga Þórbergs

Ég hélt út fréttastraffið í fimm daga, réð svo ekki við mig og tók til við að fletta Fréttablaðinu. Þar var pistill um ritverk Péturs Gunnarssonar, sem unnið er upp úr dagbókum Þórbergs Þórðarsonar, sem hann hélt í tæp sextíu og fimm ár. Bókin endurspeglar samtíma Þórbergs, sem var líflegur, skreyttur menningu og ríku félagslífi. Ólíkt í dag, þar sem megnið af samskiptum fólks fara fram í gegnum skjótvirka skilaboðasendinn og feisbúkk. Að bregða sér í sunnudagsheimsókn sem ekki er fyrirfram ákveðin með temmilegum fyrirvara, er á okkar dögum áilitin árás á heimili og einkalíf.

Ég er þó ekkert endilega á því að heimur versnandi fer, en ég held þó að samskipti fólks séu ekki eins auðsótt og þau virðast hafa verið hér í árdaga.

Hvað sem því líður, þá hlakka ég til að lesa þessa bók. Þórbergur var svalur kall.

Ingibjörg Þorbergs

Mikil hamingja er útvarpsþátturinn Óskastund. Hin fallega og yndislega Gerður G. Bjarklind leikur óskalög hlustenda. Óskalögin eru að megninu til gömul íslensk dægurlög með hetjum á borð við Hauk Morthens, Ása í bæ og Ingibjörgu Þorbergs. Rétt í þessu spilaði Gerður upptöku frá 1955 með hinni dásamlegu Ingibjörgu. Í kynningu sinni á laginu, minntist hún þeirra tíma sem að Ingibjörg starfaði hjá Ríkisútvarpinu. Fallegri lofræðu hef ég ekki heyrt í útvarpi.

Þegar ég var strákur bar ég út blöð í hverfinu mínu. Að vera blaðberastrákur er í minningu minni ein sú mesta óþverravinna sem ég hef unnið. Enn þann daginn í dag fæ ég martraðir um að ég sé búinn að gleyma húsnúmerum eða ég hafi sofið yfir mig og áskrifendur eru farnir að hringja inn kvartanir. Einu góðu minningarnar sem tengjast útburði blaða eru blaðberabíó Þjóðviljans og Ingibjörg Þorbergs.

Hún var þá búsett í götunni minni en var ekki áskrifandi. Hún kom að máli við mig og gerði við mig samning um að bera út til sín aukablað á Laugardögum. Ég vissi að hún hafði starfað í útvarpi, og fannst þar af leiðandi mikið til þess koma að vera orðinn málkunnugur svona frægri konu. Hún sagði mér að hún vildi frekar borga mér beint, heldur en að vera í áskrift hjá Morgunblaðinu. Ég skil það vel, enda Morgunblaðið leiðinleg og ljót maskína.

Í hvert skipti sem ég bar út blaðið til hennar, passaði ég mig á að staldra aðeins við. Ég hreyfði þá stundum blaðið til í lúgunni í þeim tilgangi að hún yrði mín vör. Stundum þurfti ég ekki einu sinni að leika hundakúnstir, því oft tók hún bara á móti mér þar sem ég kom þrammandi upp stigann, alltaf með eitthvað góðgæti eða aukapening. Ingibjörg Þorbergs var hápunktur ferils míns sem blaðberi. Af öllum þeim sem ég bar út blöð til, þá man ég bara eftir henni.

Guð blessi þessa dásamlegu konu.

Guð blessi Gerði G. Bjarklind.

Tvífarar vikunnar

Tvífarar vikunnar eru að þessu sinni Georg Bjarnfreðarson og Séra Geir Waage.

Hvað kemur þessum svokallaða erindreka guðs við í hvaða op typpaling er stungið, eða hvort typpalingur sé í aðalhlutverki þegar fólk lyftir sér á kreik. Þjóðkirkjan ríður þegnum sínum í rass, enda töluvert síðan að ég sagði mig úr þessari hápólitísku stofnun, hlaðin forpokruðum köllum sem hafa það gott á kostnað grunlausra skattgreiðanda. Hver er tildæmis munurinn á skoðunum Þjóðkirkjunnar á samkynhneigðum og skoðunum Gunnars í Krossinum? Eru miklar líkur á að Geir Waage fái sérstaka heiðursorðu, þegar hann mætir skapara sínum, fyrir hetjulega baráttu sína gegn hommum og lesbíum. Er það kannski tilgangurinn með þessu lífi, að leggja sig í líma við að vera eins samansaumaður og forpokraður og maður mögulega getur.

Hvernig á að lifa af skammdegið #1

Ég ætla að gera vísindalega tilraun á sjálfum mér sem felst í því að hætta að fylgjast með fréttum í heila viku. Megnið af því sem birt er í fréttum er verðlaust niðurdrepandi rusl, sem kemur engum til góða, nema þeim sem hafa atvinnu sína af að búa til uppfyllingarefni fyrir fréttaveitur. Ég tek sem dæmi, nokkrar fréttir af formföstum og drepleiðinlegum morgunblaðsvefnum.

“Bush ætlar að skoða skógareldasvæðið í Kalíforníu”
Ég kemst vel í gegnum daginn án þess að vita hvað þetta djöfuls fífl gerir og segir.

“Bæjarráð vill kaupa 5% hlut í stofnfé Sparisjóðs Vestmannaeyja”
Mér er andskotans sama um Vestmannaeyjar og Sparisjóðinn þeirra.

“Naumt tap gegn Dönum”
Ég hata fótbolta og Dani, svo þessi frétt gerir ekkert nema pirra mig.

“82 ára gömul brúður er látin”
82 ára gömul kona giftist 24 ára gömlum manni og geyspar golunni. Drepleiðinlegt og ógeðslega depressing.

“Kidman bætir á sig”

Jú, þetta gæti skipt sköpum fyrir mig og andlega heilsu mína. Ég má ekki til þess hugsa að Nicole Kidman verði að einhverju fituhlassi sem engum þykir vænt um.

“Leita móður fimm ára breskrar stúlku sem féll af hótelsvölum á Mallorca”
Ömurlegt, gagnslaust og niðurdrepandi.

“Hverjir stela mjólkurbrúsa?”
Nú garga ég!

“Zellweger segist vera sátt við að vera ógift”

Arggghhhhhhhhhh

Ég veit ekki um neinar fréttir sem kveikja í mér jafnmikið vonleysi og ömurð eins og linnulausar fréttir af Madeleine og foreldrum hennar. Hvað er búið að flytja okkur fréttir af þessu máli í langan tíma? Einni frétt of mikið. Ein frétt af þessu til viðbótar og ég kveiki í Óðinsgötunni.

Að láta af fréttum í viku er áskorun fyrir mig, því það heyrir til undantekningar að ég missi af fréttatíma. Ég er þó viss um að lífssýn mín verði mun fallegri fyrir vikið.

Fjallabræður – Gangnamannavísa

Vill nú svo skemmtilega til að undirritaður er kórfélagi í hinum karlmannlega karlakór Fjallabræður. Föstudaginn sem leið, þann þriðja í Airwaves, fluttum við bræður og “sveitungar” 40 mínútna dagskrá sem hófst á meðfylgjandi lagi sem heitir Gangnamannavísa. Tónleikana festi ég á DV band með spánýrri HD DV upptökuvél, sem ég keypti fyrir alla vasapeningana mína.

Fyrir þá sem ekki til þekkja, þá er ég auðfinnanlegur í þessum hóp karlmannlegra karlmanna, ekki vegna offitusjúkdómsins sem ég hef barist hatrammlega við í áratugi, heldur vegna þess að á höfuð mér er ekki stingandi strá að finna.

[MEDIA=36]

Dexter

David Licht heitir hann og hefur samið tónlist fyrir vörubílshlass af síðustu sortar Hollívúddrusli. Myndir eins og Thinner og Hellraiser IV prýða verk hans, en stefin úr þeim myndum festust mér ekki í minni, enda alveg sérstaklega slakar. En stefin sem Licht hefur samið fyrir sjónvarpsþættina Dexter eru eftirminnileg.

End Credit þemað er án efa uppáhaldið mitt. Mér finnst það fanga svo prýðilega þessa sykursætu angist sem er undirtónn í lífi Dexter.

[MEDIA=34]

Wink fylgir þar fast á eftir með englagóli, sem gefur manni þá tilfinningu að Dexter sé hér í erindagjörðum skapara himins og jarðar að vinna þjóðþrifaverk í þágu almannaheill.

[MEDIA=33]