Dauðataflið

[media id=32 width=520 height=436]

Árið 1991 var Twin Peaks vinsælasta þáttaröðin í sjónvarpi, Jón og Gulli voru með útvarpsþátt sem ég hataði, Kópavogshælið var ennþá til, sígarettur þóttu töff, Kaupþing hét Búnaðarbankinn og var banki niðursetninga, sjávarútvegur var stærsta tekjulindin og Hemmi Gunn þótti ótrúlega fyndinn.

Á þessu prýðilega ári tókum við okkur saman nokkrir framúrskarandi Kópavogsbúar og hófum tökur á stuttmynd, sem bar vinnuheitið: Dauðataflið. Söguþráð myndarinnar læt ég alveg vera að tíunda.

Eitt og annað varð til að myndin var aldrei kláruð, þó aðallega blómlegt félagslíf eins aðalleikarans. Stuttmyndin endaði svo að lokum í pappakassa í geymslu og hverfulleiki lífsins skipaði okkur félögunum hverjum í sína áttina.

Ekki alls fyrir löngu gerði ég mér sérstaka ferð í Kópavoginn til að hafa upp á þessum gúmmilaðikræsingum. Hef ég svo dundað mér við að splæsa þessu saman á eins kryptískan máta og mér mögulega var unnt.

Það þarf engan háskólamenntaðan til að sjá undir hvaða áhrifum myndin er. Einu atriðinu var þó stolið í kærleiksríku hjarta Kópavogsbæjar um hábjartan dag. Hvaða atriði er það?

Myndina prýða eftirfarandi listamenn:
Steinn Skaptason
Stefán Grímsson
Þorsteinn Óttar Bjarnason
Kalli( man ekki hvers son)
Sigurður Þorfinnur Einarsson

Bæjarmelir

[MEDIA=31]

Fyrir hartnær tuttugu árum síðan mætti ég með VHS upptökuvél í Bæjarvinnuna í Kópavogi. Þetta var á þeim árum sem Kópavogur var sveitarfélag afmarkað tveimur skítalækjum; einum fyrir norðan bæinn og öðrum sunnan meginn. Nú er Kópavogur á stærð við Nýju Jórvík og í stað skítalækjanna, rennur í gegnum bæinn lækur með eitt það tærasta ferskvatn sem finnst á Íslandi. Lækur sem álfadrottningar lauga sig í.

Á þeim árum sem ég vann sem handverksamaður hjá Kópavogsbæ, kynntist ég dýrðlegum manni af gamla skólanum sem átti eftir að reynast mér afskaplega vel. Hann hét Sveinn Sverrir Sveinsson. Hann bjó yfir miklum orðaforða og hafði ríka og skemmtilega kímnigáfu.

Sveinn hafði gaman af að vinna með höndunum. Oft var hann að dytta að einhverju sem hann hugðist svo gefa barnabörnunum sínum. Eitthvað sem einhver hafði hent, fann Sveinn not fyrir. Þannig að barnabörn Sveins fengu stundum að gjöf, stereo græjur, með ósamstæða hátalara, og fleira í þeim dúr. En umfram allt, elskaði Sveinn að segja sögur. Sögurnar gerðust oftar en ekki í neðribyggðum, eins og hann kallaði þær. Sögurnar voru kallaðar í bæjarvinnunni kúkasögur, og þó svo að þær væru stundum andskoti grófar var ekki til sú manneskja sem ekki hafði yndi af að heyra Svein segja frá.

Sveinn var mjög kjaftfor og ef honum fannst á sér, eða sínum brotið, mátti sá hinn sami vara sig. Hann notaði hvert það tækifæri sem honum gafst til að hnýta í fólk, sem taldi sig æðra verkamanninum. Hann hafði af því mikið gaman. Stjórnendur og aðrir fyrirmenn, lögðu lykkju á leið sína til að reita ekki Svein til reiði.

Stuttu eftir að ég tók upp VHS myndirnar hætti ég að vinna fyrir Kópavogsbæ og hóf spítalastörf. Líf mitt tók óvænta stefnu og ég fór erlendis. Í einni viðkomu hérna heima árið 1996 hitti ég Svein. Hann var hinn hressasti og sagði mér eitt eða tvö ævintýri sem hann hafði komið sjálfum sér í. Þetta varð í síðasta skiptið sem ég hitti þennan vin minn. Síðan þá fékk ég einstaka sinnum fréttir af honum. Það var svo á síðasta ári, þegar ég hitti sameiginlegan kunningja okkar að ég fékk að vita að Sveinn hefði dáið 2004.

Hugmynd mín í upphafi var að birta einungis fáein myndbrot með Sveini, en svo teygðist úr þeim á klippiborðinu, og fyrir utan Svein má sjá: Hörð Júlíusson, Ragnar Lárusson, Árna Björgvinsson, Svein Wiium, Sölva Jónasson, Hreim og Sigurð Jakobsson.

Flestir þeirra sem ég vann með á þessum tíma, hef ég ekki hitt síðan þá. Sumir eru horfnir yfir móðuna miklu, aðrir eru eftir því sem ég best veit ennþá að vinna hjá Bænum. Í mínum huga þá líta þessir kallar ennþá bara nákvæmlega svona út. Þeir hafa ekkert elst, og fyrir mér þá eldast þeir ekki neitt, ekki fyrr en ég hitti þá.

Lífið er einkennilegt.

Eldri blog um Svein:
Hann er einn tittlingur! April 8, 2007 01:04
Svenni October 21, 2006 20:10

Gordon Cole

Ég var staddur í gleðskap um daginn, þegar góðvinur minn fór að sleikja smettið á sinni heittelskuðu. Við sem sleikjum aldrei smettið á einum né neinum, né erum sleikt, varð um og ó yfir þessum kynferðislegu tilburðum. Hneykslanin og viðbjóðurinn gerði það að verkum að við gleymdum öllu því góða og fallega sem við höfum numið af andlegum risum Samtaka Iðnaðarins; umburðarlyndið og kærileikurinn hurfu sem dögg fyrir sólu. “Viljið þið ekki bara halda hér kynlífssjóv,” hreytti einhver út úr sér. Góðvinur minn, sem ekki er hrifinn af því að láta í minni pokann fyrir almenningsáliti svaraði rogginn eitthvað á þessa leið: “Takið vel eftir því nú endurtökum við atlotin,” sem þau og gerðu.

Tilsvar og háttalag vinar míns fékk mig til að hugsa um atriði úr biblíunni minni Twin Peaks. Í atriðinu sitja Gordon Cole, yfirmaður FBI, Dale Cooper, Shelly Johnsons og Annie Blackburn sbr. “Who’s Annie.” Gordon Cole er leikinn af átrúnaðargoðinu David Lynch. David Lynch elska ég og dái það mikið að ég væri til í að kveikja í mér á Texas búgarði ef hann væri talsmaður þess athæfis.

Gordon Cole er nánast alveg heyrnarlaus. Hann heyrir illa í sjálfum sér og öskrar þess vegna allt sem hann segir. Þegar hann kemur fyrst til Twin Peaks, fær hann sér kaffi og pæ á Double R diner með vini sínum og undirmanni Dale Cooper. Hann hittir þar fyrir Shelly Johnson og kemst að því sér til mikillar undrunar að þó hann heyri svo til ekki neitt í neinum, þá heyrir hann fullkomlega í henni. Hann verður samstundis hugfangin af henni. Í atriðinu ákveður Gordon Cole formlega að tími sé kominn til að fara í sleik við Shelley, hann er truflaður í miðjum klíðum af ungæðislegum kærasta hennar, sem fettir fingur út í athæfið. Gordon Cole, lætur sér fátt um finnast og útskýrir af mikilli yfirvegun fyrir kærastanum hvað sé um að vera.

[MEDIA=30]

Að vera sí og æ í sleik, er viðbjóður. Fólk sem fer í sleik í public, eru ekkert nema firrtar skepnur sem á að lóga án tafar.

Mónólókar

peacock.jpgMónólókur er afskaplega áhugaverð tegund af manneskju. Mónólókurinn er aldrei fyllilega sáttur í samskiptum sínum við aðra, nema hann nái að yfirgnæfa viðmælendur sína með misskemmtilegu orðagjálfri.

Orðaforði Mónólóksins inniheldur oft framandi orð sem sótsvartur almúginn getur ekki einu sinni stafað í gúgúlleit. Orð eins og quintessential og debat; “áhugavert debat það” eða “þetta er ekkert annað en quintessential” gæti mónólókurinn tekið upp á að segja hátt og snjallt með djúpri karlmannlegri röddu. Viðstaddir hrökkva í kút og skilja það strax að ekki borgar sig að véfengja, né storka Mónólóknum. Hann gæti þá tekið upp á að nota enn flóknari orð í þeim tilgangi að þagga niður í nærstöddum.

Þegar Mónólókurinn hefur rutt öllum þeim úr vegi, sem mögulega geta ógnað tilveru hans, tekur Mónólókurinn til óspilltra málanna. Ef vel er að gáð er greinilegt á öllum hans tilburðum að hann hefir æft orðræðuna fyrir framan spegil, eða reynt hana á maka og börnum.

Þegar svo fer að líða á sjálfshyggjurunkið og sýnihyglina, er gott að finna sér svokallaðan hamingjureit. Að láta hugann reika og grafa upp einhverja fallega minningu, sem yljar manni um hjartaræturnar, rétt á meðan Mónólókurinn lýkur sér af. En hafa skal gát á, því Mónólóknum er umhugað að á hann sé hlustað. Hann fylgist með mikilli ákefð, hvort athygli áheyrenda sé óskert. Ef hann er svo fullviss, heldur hann ótrauður áfram. Ef honum finnst athyglinni ábótavant, hækkar hann róminn og sækir í sig veðrið.

Hann skal líka eiga síðasta orðið í hverskyns samræðum, þ.e.a.s ef svo ólíklega vilji til að til verði samræður þar sem fleiri heldur en bara Mónólókurinn talar. Ef einhver leggur orð í belg, ég tala nú ekki um ef einhver á frumkvæðið af því að stofna til umræða, þá snýr Mónólókurinn upp á sig, dregur athyglina að sér með að þykjast hafa staðfasta skoðun eða kunnáttu á hverju svo sem um er rætt. Þannig tekur hann umræðuefnið, gerir að sínu. Hann fjallar um umræðuefnið frá hinum og þessum hliðum alveg burtséð frá því hvort hann hafi kynnt sér það, hann skeytir síðan við kjaftablaðrið niðurlag, þannig að öllum finnst að umræðuefninu hafi verið gerð frekar góð skil, því að það sem Mónólókurinn hefur að segja er að hans mati algerlega tæmandi og engin ástæða til að ræða það eitthvað frekar. En Mónólókurinn áttar sig ekki á því að við munum öll deyja á endanum og þá verður öllum skítsama hvað hann sagði og hvað hann lagði á sig til að geta hlustað á sjálfan sig tala.