Mónólókar

peacock.jpgMónólókur er afskaplega áhugaverð tegund af manneskju. Mónólókurinn er aldrei fyllilega sáttur í samskiptum sínum við aðra, nema hann nái að yfirgnæfa viðmælendur sína með misskemmtilegu orðagjálfri.

Orðaforði Mónólóksins inniheldur oft framandi orð sem sótsvartur almúginn getur ekki einu sinni stafað í gúgúlleit. Orð eins og quintessential og debat; “áhugavert debat það” eða “þetta er ekkert annað en quintessential” gæti mónólókurinn tekið upp á að segja hátt og snjallt með djúpri karlmannlegri röddu. Viðstaddir hrökkva í kút og skilja það strax að ekki borgar sig að véfengja, né storka Mónólóknum. Hann gæti þá tekið upp á að nota enn flóknari orð í þeim tilgangi að þagga niður í nærstöddum.

Þegar Mónólókurinn hefur rutt öllum þeim úr vegi, sem mögulega geta ógnað tilveru hans, tekur Mónólókurinn til óspilltra málanna. Ef vel er að gáð er greinilegt á öllum hans tilburðum að hann hefir æft orðræðuna fyrir framan spegil, eða reynt hana á maka og börnum.

Þegar svo fer að líða á sjálfshyggjurunkið og sýnihyglina, er gott að finna sér svokallaðan hamingjureit. Að láta hugann reika og grafa upp einhverja fallega minningu, sem yljar manni um hjartaræturnar, rétt á meðan Mónólókurinn lýkur sér af. En hafa skal gát á, því Mónólóknum er umhugað að á hann sé hlustað. Hann fylgist með mikilli ákefð, hvort athygli áheyrenda sé óskert. Ef hann er svo fullviss, heldur hann ótrauður áfram. Ef honum finnst athyglinni ábótavant, hækkar hann róminn og sækir í sig veðrið.

Hann skal líka eiga síðasta orðið í hverskyns samræðum, þ.e.a.s ef svo ólíklega vilji til að til verði samræður þar sem fleiri heldur en bara Mónólókurinn talar. Ef einhver leggur orð í belg, ég tala nú ekki um ef einhver á frumkvæðið af því að stofna til umræða, þá snýr Mónólókurinn upp á sig, dregur athyglina að sér með að þykjast hafa staðfasta skoðun eða kunnáttu á hverju svo sem um er rætt. Þannig tekur hann umræðuefnið, gerir að sínu. Hann fjallar um umræðuefnið frá hinum og þessum hliðum alveg burtséð frá því hvort hann hafi kynnt sér það, hann skeytir síðan við kjaftablaðrið niðurlag, þannig að öllum finnst að umræðuefninu hafi verið gerð frekar góð skil, því að það sem Mónólókurinn hefur að segja er að hans mati algerlega tæmandi og engin ástæða til að ræða það eitthvað frekar. En Mónólókurinn áttar sig ekki á því að við munum öll deyja á endanum og þá verður öllum skítsama hvað hann sagði og hvað hann lagði á sig til að geta hlustað á sjálfan sig tala.

17 thoughts on “Mónólókar”

 1. Og þessi veflókur var eitt bezta dæmi um hegðun mónólóks sem undirrituð hefur þurft að þola.

 2. Bíddu nú við … hvað fólk er það sem þú ert eiginlega að umgangast Siggi?
  Haltu bara áfram að blogga það er langbezt – við hlustum (lesum) á þig …

 3. Við þjáningarsystkinin höfum flest haft kynni af þessum gleypilók og ég get sagt þér, Frú Sigríður, að það er sannarlega ekki hann Siggjokkar.

 4. Nei, hann er fallega innréttaður hann Sigurður Sigurður Bang Bang. Hann gengur fram af tillitssemi og auðmýkt en viðhefur kjarnyrta gamansemi þegar það á við. Hann er hreint út sagt prýðin legur.

 5. Mónólókur – er það einkvænismaður?

  …sem leiðir hugann að öðru:

  Ég hef loks haft spurnir af því meðal heimildamanna minna hvers vegna maggabest var að fetta fingur út í þá vænlegu vinkla sem ég sá í hyllingum í frú Sigríði…magga mónópóll þó!!!

 6. Það er reyndar Vaffarinn sem er með einkarétt á frú Sigríði og hennar vinklum. Það kæmi mér ekki á óvart í kjölfar ofangreinds innleggs Lindu Maríu að hún og Maggasætaogbesta myndu í náinni framtíð lenda í „vandræðum“ við ákveðna „grúppu“ sem á rætur sínar að rekja til Breiðholts. Vaffarinn er enn með ítök á því svæði og hikar ekki við að nýta sér þau.

  Ég hins vegar mun ekki sjást á þessari síðu fram að jólum því nú hef ég lokið við ritgerð mína og ætla að hanga á Nasa daginn út og daginn inn. Þið munið heldur ekki hitta mig á gúglinu.

 7. Gvöð! Ert´ að meina að maður sé búinn að próvókera eikkvað gettólið?

  Siggi minn, ég hélt að þú kæmir frá góðu heimili…

 8. Begga þó! Hvaða hótanir eru þetta? Ég veit ekkert hver Linda María er og það myndi ekki hvarfla að mér að reyna að kokkála Vaffarann. Hver hefur áhuga á hverjum og hver girnist hvern sem girnist ekki hinn og miklu heldur þann er heldur ekki mitt mál. Hvað kemur manni við hver vill sleikja hvern, svo lengi sem þær sleikþarfir tengjast ekki manns eigin hagsmunum?
  Fussumsvei!

 9. Ég myndi borga mikið fyrir að vita hvað er í gangi í kommentunum hérna!!!

 10. Þetta átti reyndar ekki að vera hótun heldur var ég að reyna að vera fyndin. He he kannski svona, guess you had to be there.

  Hafið samt engar áhyggjur, ég hef lent í því áður að vera misskilin, þó ekki af svona prýðilegum konum sem ykkur. Það er mikill heiður.

  Nasa er lokað í kvöld, annars væri ég þar.

 11. Lögmaður minn hefur, fyrir mína hönd, lagt fram beiðni um nálgunarbann allra sem hafa:
  a) Búið á svæðum merktum 111-112 í póstnúmeraskrá.
  b) Átt einhver mök (í víðum skilningi orðsins)við fólk sem uppfyllir ofangreint.

 12. Hugsast getur að ég hafi misskilið heimildarmenn mína – sem að ég taldi héldu því fram að maggabest og frú Sigríður væru í sama saumaklúbbi og saumuðu jafnvel út í sömu sængurverasettin.

 13. Ég sem hélt að ég væri ruglaður …

  Siggi: ég skal borga þér 163,5 Ísl.kr (Sagt: Eitthundraðsextíuogþrjárkrónurogfimmtíuaura)fyrir upplýsingarnar.

  Þá þarft þá bara að safna pínulitlu til viðbótar og þá kemmstu í eina strætóferð fyrir peninginn.

 14. Að gefnu tilefni skal varað við því að fólk meti ástand sitt til höfuðsins útfrá því sem hér er skrifað. Ofansagðar athugasemdir eru hvorki ætlaðar sjúkum né sorgmæddum til huggunar eða gleði.

Comments are closed.