Ung í anda/Young at heart

Meira um öldrun og dauða; eitt af mínum helstu hugðarefnum. Í gær sá ég frískandi og skemmtilega heimildarmynd um gamlingja í U and S of the A. Myndin er um öldrunarkór, flestir meðlimir yfir 75 ára og einstaka á hundraðasta aldursári. Í stað þess að halda sig við hefðbundna ellismelli, flytur kórinn lög eftir Sonic Youth, David Bowie, Coldplay, Jimi Hendrix.
Gamla fólkið er misvel á sig komið, og þegar líður á myndina hverfa tveir kórmeðlimir á vit feðra sinna. Stemningin í kórnum er þó sú að ef einhver dettur dauður niður, þá er honum ruslað út af meðan kórinn heldur ótrauður áfram.

Í myndbandinu hér að neðan(eitt af mörgum í myndinni) er leitast við að svara tilvistarspurningum í laginu: “Road to no where”, eftir snillingina í Talking Heads.

[media id=213 width=512 height=390]

Young at heart á imdb.

Tortryggni

Almennt viðmót Íslendinga er hægt að draga saman í eitt orð: tortryggni. Þannig hefur það verið síðan ég man eftir mér. Íslenskt samfélag er því mjög þungt og erfitt fyrir menn eins og mig, sem passa hvergi inn. Ef ég keypti mér stóran jeppa og safnaði ægilega miklu spiki yrði lífið hér á Íslandi mun léttara.

Hér er skemmtilegt lag um tortryggni með Dawn Landes. Myndbandið er tekið upp í New York, en þó þar sé þröngt um manninn er þar meira rými fyrir frávik en hér í Reykjarvíkurborg.

[media id=212 width=520 height=390]

Svíþjóð er hot hot hot

Yfir í aðra sálma.

Svíþjóð hefur í mínum huga verið ein af ömurlegri staðsetningum á heimskortinu. En nú spyr ég sjálfan mig eitthvað á þessa leið: Eru Svíar fucking snillingar í músik og menningu? Ha? Um daginn sá ég sænska mynd sem fer á persónulegan lista yfir bestu myndir sem ég hef séð á árinu, hún heitir Låt den rätte komma in. Ekki nóg með það , heldur hef ég síðustu tvo mánuði ekki hlustað á mikið annað en sænsku gúmmilaðihljómsveitina The Knife. Og nú, mér til mikillar undrunar, koma Indie drengirnir Pétur, Björn og Jón með nýjan smell: Nothing To Worry About. Ég sem var sannfærður um að blísturlag þeirra Young Folks, sem má finna hér í skemmtilegri Blue Grass útgáfu, yrði þeirra eini hittari.

Sumarsmellur fyrir þunglynda Íslendinga sem misst hafa alla lífslöngun og vilja helst ekki fram úr á morgnana.

[media id=209 width=520 height=390]

Ef einhver getur bent mér á meira gúmmilaði frá Svíþjóð, yrði ég afskaplega þakklátur.

Barnaleg hljómblíða í þríriti

Kreppan er skrímsli sem hið sjálfiska gen bjó til. Nú lifir hún sjálfstæðu lífi, líkt og SkyNet í Tortímandanum. Það skiptir engu máli hver situr í Seðlabankanum, eða hver brúkar munn á Alþingi. Kreppan fitnar bara og fitnar eins Oprah á tyllidegi.

Í morgun, á leið minni til vinnu, flautaði karldurgur fyrir aftan mig, vegna þess að ég var ekki nógu snöggur inn á Hringbrautina. Þá gerði ég eitthvað sem ég hef aldrei gert áður. Ég reiddi upp hnefann, líkt og ég væri að stjaksetja manninn. Undrandi á viðbrögðum mínum, lét ég hnefa reiðinnar síga. Bros varð til á andliti mínu, og áður en ég vissi, var ég farinn að skellihlæja og hló langleiðina upp(niður) í Skipholt.

Hér er This must be the place – naive melody í þríriti.

[media id=198 width=520 height=390]
MGMT

[media id=199 width=520 height=390]
The Arcade Fire

[media id=200 width=520 height=390]
Talking Heads – Stop Making Sense

Það er ekki ég, barnið mitt

[MEDIA=126]

Joan Baez er í þessu myndbandi jafn yfirlýsingaglöð og þóttafullur moggabloggari. En mikið ægilega er hún sjarmerandi. Hér má sjá hana syngja lag Bob Dylans: It aint me. Í kynningu á laginu, lýsir hún því yfir að hún sé mótfallin hjónabandi. Ekki líða þó nema þrjú ár frá þessum tónleikum þartil hún kynnist David Harris, sem er afskaplega aðlaðandi ungur maður. Hún fer í sleik við hann og stuttu síðar kastar hún viðhorfum sínum gagnvart hjónabandi á hauganna og giftir sig. Nokkrum árum síðar skilur hún við Harris og ákvarðar að hún verði að eilífu ein. Hún hefur til dagsins í dag, ekki gift sig aftur.

Sumar og hamingja

Ég hef legið í Summertime útgáfum síðan í gær, og út af því að Fóstradamus vinur minn nefndi Devendra Banhart í athugasemdainfrastrúktúrindexdatabasakerfinu, – þykir mér við hæfi að kunngjöra bloggheimum þessa fínu og flottu útgáfu með þessum æðisgengilega söngvara. Hann er ekki þarna einn á báti, því þetta vidjó prýðir alveg sérstaklega hæfileikaríkur nærbuxnadansari. Hann dansar satt best að segja ekkert ósvipað undirrituðum.

Andskotans snillingar.

[MEDIA=116]

Vorhret í lofti

6661i.jpgÍ þessari bloggþurrkuntutíð, ætla ég að tefla fram tveimur útgáfum af tvö þúsund og sex hundruð mismunandi útgáfum, sem til eru af laginu Summertime eftir George Gershwin. Einnig er þetta fyrsta lag sem ég skammarlaust lærði að spila á klarinettið mitt sáluga, og því óumflýjanlega eftirlætis lag nágranna minna, sem mér er frekar hlýtt til, eins og lesendum er fullkunnugt um.

Ég hef einnig spilað Summertime á nýja rauða klarinettið mitt, sem ég hef komist að með vísindalegum aðferðum að er ekkert annað en sorphljóðfæri. Ég hef því pantað þriðja klarinettið, á ebay, og þetta skipti ákvað ég að eyða aðeins meiri pening í þetta áhugamál mitt. Ég spurði sérfróða menn um þessa tegund klarinetta, af gerðinni Selmer, en ég spyr yfirleitt ekki sérfróða menn um eitt né neitt, því ég þykist alltaf vita allt betur, þangað til ég kemst að því að ég er búinn að pissa í buxurnar. Þetta klarinett er úr viði, en hin tvö sem ég á fyrir, eru úr ömurlegu plasti. Ég hlakka gríðarlega til að fá það upp í hendurnar, því ég hef aldrei prufað að spila á almennilegt klarinett. Já, þá verður gaman.

Með vor í hjartanu kynni ég Summertime, úr byrjunaratriði myndarinnar Porgy and Bess:

[MEDIA=114]

 

Svo í flutningi hinnar gullfallegu og jafnframt steindauðu Janis Joplin:

[MEDIA=115]

 

Þetta er ekki eina skiptið sem ég hef skrifað um Porgy and Bess. Hér er færsla um P&B, og ferð mína til Ameríku, en nú vill svo skemmtilega til að ég er að hugsa um að skreppa til Ameríku um páskana, til að skoða Tvídrangana.

Juno og Kimya Dawson

Ég og Magga frænka Best sáum þessa dásamlegu mynd, sem er drekkhlaðin tónlist Kimya Dawson, sem ég hef áður líst aðdáun á. Loose Lips er spilað undir kreditlistanum, og er lýrikin í þessu lagi, sem og flestum hennar lögum, alveg sérstaklega hnyttin og skemmtileg.

Hér er lagið, af plötunni Remember That I Love You:

[MEDIA=112]

 

Og svo fann ég þessa live útgáfu á þúskjá. Skemmtilegt er hversu hressilega fólk tekur undir í kaflanum þar sem hún syngur: Fuck Bush, and fuck this war. Gjörið svo vel:

[MEDIA=113]

Hér er textabrot úr viðlagi:
so if you wanna burn yourself remember that I LOVE YOU
and if you wanna cut yourself remember that I LOVE YOU
and if you wanna kill yourself remember that I LOVE YOU
call me up before your dead, we can make some plans instead
send me an IM, i’ll be your friend

Kimya Dawson hélt úti síðu, fyrir einhverju síðan, þar sem hún gaf upp símanúmerið sitt og heimilisfang – ef ske kynni að einhver hefði áhuga á að hringja, fara í heimsókn, eða senda henni línu. Hér er allavega bloggið hennar.

Draumar – Fyrir lengra komna

[MEDIA=111]

 

Ég hef setið síðustu tvær vikur við eftirvinnslu á þessu glæsilega tónlistarmyndbandi, sem er við lagið Draumar af frumraun Sævars/Poetrix: Fyrir lengra komna.

Á einhverjum punkti eftirvinnslunnar tóku á mér hús, tónlistarmaðurinn, myndatökumaðurinn og framleiðandinn. Ég bauð upp á sékursnúða, espressó, tei og gamanmál. Klukkan hefur verið rétt rúmlega níu að kveldi til, þegar við sátum fyrir framan tölvutæknina sem skartar rómantískt heimili mitt. Allt í einu upphefjast ægileg læti á efri hæðinni. Góðborgarnir sem að tónlistarmyndbandinu stóðu, hver öðrum hrekklausari, horfðu spyrjandi augum á hvorn annan.

Ég andvarpaði, yfirbugaður af harmi. Hvað í ósköpunum er þetta, spurði framleiðandinn, sem er kristilega þenkjandi biblíumyndasafnari. Ég kom ekki upp einu orði, fátækur af bæði þolinmæði og náungakærleik. Er ekki verið að fífla okkur, spyr tónlistarmaðurinn.

Eins og reglulegir lesendur þessarar síðu fara nærri um, tilheyrðu óhljóðin spikfeitum nágranna mínum sem hafði ekkert þarfara að gera, þegar ég var með mikilvæga gesti úr bransanum, en að upphefja sóðaskak ásamt vinkonu sinni í veðruðu IKEA rúminu sínu.

Ekki fannst þó gestum mínum skakið tilkomumikið. Afhverju heyrist ekkert í henni, spurði myndatökumaðurinn. Þetta er engin frammistaða, sagði tónlistarmaðurinn. Liðlega þrjár mínútur liðu þangað til óhljóðin gengu niður. Þegar við höfðum náð mesta hrollinum úr okkur, héldum við áfram að spá í tónlistarmyndbandinu.

Ég hef ekki lengi verið að fikta í videogerð, svo ég er mjög hamingjusamur með að hafa fengið tækifæri til að vinna með fagfólki á því sviði. Ég held að nokkuð vel hafi tekist til. Hráefnið er allt skotið á hálfónýta 8mm vél, sem hélt hvorki stöðugum ramma, né sama hraða. Það var því talsverð vinna að láta mynd passa saman við hljóð. Það eitt og sér held ég að hafi tekið mestan tíma. Athugið að sorgarendur í ramma, eru þar af ásettu ráði.

Ég hef til þessa ekki verið neitt sérstaklega hrifinn af rappi, en ég kunni að meta þetta lag strax við fyrstu áhlustun, sem jók töluvert á ánægjuna. Sævar er mikill snillingur og alveg sérstakt prúðmenni, og söngkonan, sem syngur með honum, er frá mínum bæjardyrum séð, alger gersemi.

Ég þarf að flytja!

Yndisleg tónlist

Mér var send þessi gersemi í flugpósti. Ég veit eftirfarandi um þessa hljómsveit: Þau kalla sig WE HAVE NO TV: NOT QUITE PUNK, eða er það nafnið á disknum? Ég er ekki viss. Kannski heitir hljómsveitin WE HAVE NO TV og diskurinn NOT QUITE PUNK, ég er tel það reyndar líklegt. Þau sjálf heita , eða kalla sig, Pete, Mole og A-K, búa í kommúnu í London, borða grænmeti, eiga ekki sjónvarp, eru friðelskandi, trúa á ástina og tedrykkju. Fallegt, ekki satt. Ætli verði einhvern tímann aftur jafn mikil vitundarvakning og á sjöunda áratugnum, og þá án vímuefna?

Lagið heitir Think, Keep Thinking.

[MEDIA=105]