Aðlaðandi Íslendingur

Í gær hitti ég, á afar fínum veitingastað hér í borg, sérlega aðlaðandi mann frá Bosníu, fyrrum Júgóslavíu. Glaður og reifur rétti hann fram hendina og kynnti sig. Elvir heiti ég, hvað heitir þú? Fyrsta hugsun mín var: Þessi maður hlýtur að vera að gera gys að mér, svona glaðlegur og brosandi. Hvað vill hann? Ég krosslagði hendur og setti mig í stellingar ef ske kynni að hann færi að dæma mig. Ég reiknaði út í huganum hvernig ég með fantabrögðum gæti komið í veg fyrir að hann lítillækkaði mig, tildæmis með því að girða niður um mig buxurnar.

Menn, svona glaðbeittir og almennilegir, eru stórvarasamir samkvæmt mínum bókum. Þaðan sem ég er – frá Íslandinu góða, er enginn kurteis og almennilegur nema hann vilji troða viðbjóðnum á sér inn í þig, eða hafa þig að féþúfu. Því þykir mér lang öruggast að hafna fólki, áður en það hafnar mér. Einmitt þess vegna er ég nánast alveg vinalaus í dag. Sem er fínt, svo lengi sem ég fæ ekki það á tilfinninguna að mér sé hafnað, sem er hræðilegasta tilfinning af öllum tilfinningum sem tilfinningakirtillinn framleiðir.

En Elvir girti ekki niður um mig. Hann rétti mér flösku af fínasta trönuberjasafa, sem ég slokraði í mig af töluverðri nautn. Kannski er hann bara ágætur, hann Elvir, hann gaf mér jú trönuberjasafa, hugsaði ég. Hann getur bara ekki viljað mér illt. Þannig að þrátt fyrir að vera varkár, ákvað ég að gefa Elvir smá séns, og hóf samræður við hann. Hann spurði mig hvað ég væri að gera í Danmörku, og sagði honum það.

Ég sagði: Ljótu vondu kallarnir í jakkafötunum stálu öllum peningunum af fólkinu í landinu, og svo verðum við bara að borga brúsann, og það er sama hversu margar athugasemdir eru skrifaðar á Eyjunni, eða hversu mörg blogg er skrifuð í pilsfaldi Morgunblaðsins, ekkert gerist og skjaldborgin sem átti að slá um fjölskyldurnar, og verðtryggingin maður, og rass og kúkur – og því ákvað ég að flýja föðurland mitt, heimkynni mín, landið þar sem ég ólst upp, en þú Elvir minn hvað ert þú að gera hérna í Danmörku. Mikið er danska annars ljótt tungumál.

Elvir brosir fallegu nærgætnu brosi, og segir: Ég fluttist hérna fyrir 17 árum síðan þegar stríðið í fyrrum Júgóslavíu braust út…… En Elvir minn, greip ég fram í fyrir honum, – var ég búinn að segja þér frá mótmælunum miklu fyrir framan Alþingishúsið í janúar, það voru sko mótmæli maður minn. Löggan beitti táragasi og allt. Hvað varstu annars að segja um Júgóslavíu og stríðið? Dó einhver? Elvir horfir undrandi á mig, og er hljóður um stund. Það er sorg í honum: Það dóu 225 þúsund manns, segir hann og kveikir sér í sígarettu.

Þegar ég kom heim á gistiheimilið, hitti ég vinalegu íslendingana sem geta ekki skammarlaust boðið gott kvöld, eða góðan daginn og ég hugsaði með mér: Ég ætla að eyða næstu árum í að skoða heiminn, og kannski, já kannski, á síðustu metrum lífs míns fer ég heim til að deyja.

Marteinn – dauði hellisbúans og íslenskrar fyndni

Eftirfarandi er þus.

Til að halda tengingu minni við ættjörðina, fylgist ég grannt með íslenskri dagskrárgerð. Hið ylhýra íslenska tungumál, ef fallega talað, gleður mig meira en litrík blóm, eða 75% súkkulaði. Í gær að loknum annasömum degi í heimi viðskipta, hér í útjaðri helvítis, mitt í hjarta Kaupmannahafnar, samt með annan fótinn í Svíþjóð, – kveikti ég á flataranum sem er boltaður við vegg þessarar dýflissu(mánuðurinn off season kostar bara 120.000.-), reif fram fitubollupakkningar af Doritos flögum, diet kók og horfði ásamt heitmey minni á nýjasta útspil snillingsins Bjarna Hauks: Martein(nei, ég sá ekki Hellisbúann). Nokkrar mínútur inn í þáttinn, leið mér orðið það illa að ég óskaði þess að einhver mér velviljaður linaði þjáningar mínar og tæki mig af lífi. Framleiðendur þáttarins, sem lögðu meira upp úr grafíkvinnslu, en handritinu, þurfa ekki að hafa áhyggjur af að þetta ófyndnasta sjónvarpsefni Íslandssögunnar, finnist á einhverjum torrent tracker. Það eitt og sér segir allt um hversu mikið sorp þetta er.

Að fallega talaðri íslensku.

Ég sá Styrmi Gunnarsson í Kastljósi og þar er maður sem kann að tala íslensku. Málfar hans og það sem hann hafði að segja, virkaði seiðandi á mig, eins og ég væri að borða dýrindismáltíð sem einhver hafði mikið fyrir að framreiða. Í samanburði kallaði Marteinn fram í mér löngun til að drepa, ef ekki einhvern, þá bara sjálfan mig.

Sjónvarpsfréttir og föðurlandsást

Þó ég sé fluttur yfir lækinn, fylgist ég gaumgæfilega með málum heima í rófuholu, svo ég leiki mér lítillega með eitt ljótasta tungumál heimsbyggðarinnar: dönsku. Til auðga anda minn, stilla hjartslátt minn í takt við þjóð mína og halda í tengingu mína við föðurlandið – les ég athugasemdir á Eyjunni, felli nokkur tár og hugsa heim í haga. Þegar svartholið í sálu minni stækkar og minningin um hver ég er og hvaðan ég kem – dofnar, þarf ekki meira en nokkrar málsgreinar í gífuryrtu moggabloggi til að fylla mig heimþrá, þjóðerniskennd og stolti yfir uppruna mínum.

Á gistiheimilinu sem ég og heitmey mín erum fangar á, er hægt að horfa á alla dagskrá Ríkissjónvarpsins. Þegar kveikt er á sjónvarpinu er stemningin eins ég hafi aldrei hoppað um borð í flugleiðavél og flogið á brott. Íslendingarnir í næsta herbergi eru einnig hjálplegir við að skapa skemmtilegt séríslenskt andrúmsloft. Það gera þeir með því að fá sér ríflega neðan í því um helgar, staulast svo inn á klósett til að gubba.

Gubbbbrrbbbbrbbbbrbb – heyri ég í gegnum svefninn.

Í gær leið mér illa. Ég var pirraður(ég er reyndar ennþá pirraður) og vildi deyja. Alveg þar til ég kveikti á sjónvarpsfréttum og sá frétt af ungri konu sem er búin að vera atvinnulaus upp í sófa í nokkra mánuði hámandi í sig sælgæti. Með fréttinni fylgdi að hún hefði bætt á sig 20 kílóum. Þetta er hræðilegt, sagði unga konan feita, og kvartaði undan því að þurfa að lesa sér til um úrræði fyrir fólk í hennar stöðu – á vefnum. Henni fannst að einhver ætti að koma heim til hennar, sparka henni á lappir, henda öllu snakkinu í ruslið, og redda þessum málum. Strax á eftir þessari frétt var frétt um mannréttindabrot í Kína. Menn sem setja sig upp á móti stjórninni í Kína, hverfa, stundum um miðjan dag, eru settir í útrýmingabúðir, sem allir vita af, en enginn þorir að nefna.

Um nóttina svaf ég eins og ungabarn með bros á vör.

Hamingja

Mánuð og tólf dögum betur, hef ég og heitmey mín til margra mánaða búið við nokkuð óþægilegar aðstæður, sem tekið hafa meira á sálartetrið en að sitja pakkaður inn í bómul í litlu timburhúsi í 101 Reykjavík. Hugtökin hamingja og andstæða þess, óhamingja hafa ítrekað komið í hugann.

Í einu herbergi af fimm í kjallara á gistiheimili, sem er 70% niðurgrafinn, með íslenskt par í næsta herbergi sem telja samanlagt mörg hundruð kíló, sit ég nakinn í myrkrinu búinn að maka á mig majonesi og flodeskúmmi og spyr sjálfan mig tilvistarspurninga. Yfirvigtarparið, vaknar til lífsins upp úr miðnætti. Þá fara þau að mala innantóma vitleysu. Skella hurðum og borða ostabrauð sem þau hita í brauðgrilli.

Heitmey mín er lasin, hún er með slæmskuna miklu. Þetta er í annað skiptið sem hún verður veik síðan við komum til landsins. Um daginn beit hana óféti í andlitið og hún blés út og líktist meira Joseph Merrick, en sjálfri sér. Hún var sett á margsorta fúkkalyf framleiddum á hinum og þessum stöðum í Evrópu sem við eigum aldrei eftir að heimsækja. Hún, ólíkt mér, tekur erfiðleikum með sérstöku jafnaðargeði. Þannig virðist hún vera, allavega á yfirborðinu. Mig grunar þó að hún reyni að slá mig af þegar ég sef. Hún hellir kannski yfir mig vatni, þar sem ég hrýt á rafmagnsteppinu og dreymi drauma um hluti sem aldrei geta orðið. BzzzZzzzzZzzzzZz… Ekkert ráðrúm til að hugsa um farinn veg.

Herbergið lyktar af bragðmiklum ost, sem heitir Agnes. Ég átta mig á að ég er að sturlast, myrkrið, lyktin af ostinum, sem ég setti ofan á brauð í morgun – hverfur ekki úr herberginu. Lyktin er farin að smjúga inn í heilann minn. Agnes segir mér að drepa. Annaðhvort verð ég að drepa heitmey mína eða sjálfan mig. Nú eða bæði, eins og hefð er fyrir í Ameríku.

Hefur þér einhvern tímann þótt vænt um einhvern sem þú þekkir ekki neitt?

Á sama gistiheimili, býr annað íslenskt par. Þau eru svo fúl að það kostar þau sérstök átök að bjóða góðan daginn. Góóóóóð aaaaa aaaa n daaaaaag iiiiiiiiii nn. Áreynslan er svo mikil að þau svitna. Hún, örlítið meira fráhrindandi en hann, brosir brosi sem stendur yfir í þúsund millisekúndur, svo verður hún brúnaþung og köld eins og grænn frostpinni. Nema að grænir frostpinnar eru úr öðrum heimi, en hún er frá Íslandi. Íslandinu góða.

Hin orðrómaða íslenska hlýja og mannkærleikur.

Í gær sá ég bút úr Annie Hall. Woody gekk manna á milli og spurði pör, hver lykillinn væri að arðbæru ástarsambandi. -Mér hugkvæmdist því, þegar ég hitti óaðlaðandi parið inn í eldhúsi í dag, að ganga á þau og spyrja þau hvað hamingja væri og hvað það væri í þeirra lífi sem gerði þau svona andskoti hamingjusöm. En þess í stað þá hreytti ég út úr mér: FOKKIÐ YKKUR!

Nei, ég gerði það reyndar ekki, en mig langaði til þess.