Bylting

Ég taldi víst í upphafi þessa árs að nú færi í hönd ár ástar og kærleika. Ég var þrátt fyrir það í molum eftir að hafa eytt ómældum tíma í eitthvað fyrirbæri sem ég hélt að væri ást, en reyndist vera óþverri. Í mínum huga var ást, ást, ást lykillinn að sannri hamingju og það eina sem ég óttaðist var að hún dygði ekki til að vinna á slæmsku þessa heims.

Með þessar rómantísku hugsanir valhoppaði ég, flautandi eins og rauðbrystingur, í gegnum fyrstu mánuði ársins. Allavega fram að þeirri stundu að ég fór að efast um allt og alla. Einhverja kvöldstundina ræddi ég í góðra vina hópi hvort von væri á ámóta umbyltingu í hugsunarhætti og á sjöunda áratugnum. Þessir vinir mínir héldu nú ekki og fussuðu og sveiuðu yfir þessum hugdettum mínum, sem þeim fannst heimskulegar og vera enn ein sönnun þess að ég er ömurlegur hálfviti, með barnalegar hugmyndir um lífið.

Ég var á þeirri stundu orðinn ákaflega þreyttur á íslensku samfélagi og því veraldlega drasli sem fólk taldi sér til tekna. Ég var eins og svo oft áður – utanveltu. Ég átti ekki fasteign, keyrði ekki um á glæsibifreið, fannst meira varið í að vera minn eigin herra, en að starfa fyrir stórt skrímsli með veglegar tekjur. En mikið hafði ég reynt. Ég réði mig meira segja til vinnu hjá stóru skrímsli, en entist ekki lengi, enda held ég að mér hafi aldrei liðið jafn herfilega á nokkrum vinnustað. Það er ekki hægt að láta sér þykja vænt um ljótt og ópersónulegt skrímsli.

En eftir að hafa reynt eitt og annað til að fóta mig í þessu samfélagi fór ég að efast. Fyrst efaðist ég um sjálfan mig. Svo efaðist ég um gildi samfélagsins. Og áður en ég vissi af, var ég farinn að efast um allan ásetning mannskepnunnar. Þá óskaði ég þess að önnur eins bylting og varð í þankagangi á sjöunda áratugnum, endurtæki sig og velti því fyrir mér hvort það ætti nokkurn tímann eftir að gerast aftur. Bara án vímugjafa. Frelsi fyrir atgöngu vímuefna er háð framboði á enn einum markaðnum. Spurning mín hinsvegar er sú hin sama.

Óvissuástandið sem ríkir núna er næstum jafn spennandi og að nota almenningssamgöngur í Ísrael.

9 thoughts on “Bylting”

  1. Almenningssamgöngur í Ísrael eru samt töluvert betri en almenningssamgöngur í Reykjavík. Og líklegra að þú komist frá A til B þar en hér.

  2. Þú átt eftir að finna ástina Siggi og þú átt líka pottþétt eftir að fá verðlaun (gullmedalíu um hálsinn) fyrir að vera samkvæmur sjálfum þér en eltast ekki við whatever sem er vinsælt þann daginn.

  3. Ég get ekki lesið annað úr þessum pistli en að hún sé þér týnd.

Comments are closed.