Guð blessi Ísland

Stemningin er öll að verða betri hér á Íslandi. Fyrr en varir getum við snúið aftir til fyrri lífshátta. Sem er gott, því ég hef ekki þorað í Kringluna síðan ósköpin byrjuðu.

Þetta var svolítið strembið þarna á tímabili, en til allrar guðs lukku erum við í höfn. Við Íslendingar stöndum saman, erum harðir í horn að taka, pissum þar sem við stöndum og skítum þar sem við sitjum. Þegar syrti í álinn, slógum við upp skjaldborgum með hreðjunum á okkur. Sigldum síðan míglekandi dallinum á fullu stími inn í ólgandi brimið. Snekkjur bankamannanna urðu eftir rígbundnar við bryggju. Við viljum ekki að gulldrengirnir okkar fari sér að voða. Við snérum bökum saman og börðumst við sjóskrímsli sem ekki voru bara ljót heldur líka bresk. “Það vantar fleiri skjaldborgir hér!” hrópaði einhver bakborða. Orð hans köfnuðu þegar alda reið yfir. Hart í bak. Sigla meira. Brimið. Einhverjir gubbuðu. En svo lygndi.

Nú er þoka. Þegar þokunni linnir, getum við haldið áfram uppteknum hætti. Við þurfum við ekki að staldra við og endurskoða hvernig við höfum lifað síðustu árin. Við þurfum ekki að láta af persónutöfrum velgengninnar. Við getum haldið áfram að vera dónaleg, tillitslaus, hrokafull, sjálfsánægð, rasísk, gráðug og eigingjörn.

Við lærðum ekki neitt, því við vissum allt fyrir.

2 thoughts on “Guð blessi Ísland”

Comments are closed.