Veitt í matinn

Það er lítil hætta á að síðuhaldari deyi úr hungri. Ísraelskur skógarköttur sem gengur undir nafninu Avraham, hefur tekið að sér að afla íbúum dúkkuhússins í litla Skerjarfirði matar.
Þegar ég kom heim eftir annasaman dag á skrifstofunni, lá fyrir utan bjálkakofann fugl sem flýgur aldrei aftur. Þó ég sé allur af vilja gerður, fæ ég ekki séð að ég geti tjaslað fuglinum saman og blásið í hann lífi.
Avraham hefur notað frægar Mossad drápsaðferðir og snúið bí bí úr hálsliðnum. Því næst hefur hann rifið úr honum hjartað og kreist úr því síðustu blóðdropana meðan hann hló illkvittnislegum hlátri. Svo hefur hann slitið restina af innyflunum úr fuglinum og dreift þeim skipulega í kringum fiður og stél.
Ég sem hef ekki gert mikið annað en að þjónusta þennan kött, er ánægður með að hann leggi loks eitthvað að mörkum til heimilisins. Ég kann honum bestu þakkir fyrir. Ég vona að hann taki því ekki illa þó ég steiki ekki bráðina í gúmmilaðisósu og leggi mér til munns. Til þess þarf að kreppa örlítið meira að.

5 thoughts on “Veitt í matinn”

  1. Vorum við ekki sammála um að kalla hann Georg 🙂

    En mjög gott að kisi hafi enn sitt náttúrulega eðli, þarf að endurvekja þetta eðli með þjóð vorri.

  2. Rosalega er ég ánægður með hann Avraham!

    Kveiki þó á kerti, flugvallarsamfélagi smáfugla til samhugar við fráfall fiðurfélaga.

Comments are closed.