Gildi þess að vera hress

Þegar ég var um og yfir tvítugt, þá þótti fínt að vera hress. Allir, sem ekki höfðu með einhverjum ráðum komið sér á skjön við samfélagið, með því tildæmis að láta leggja sig inn á geðdeild eða loka sig inn í fangelsi, kostuðu öllu því sem þeir áttu til, í það að vera hress.
Ég hef aldrei verið hress. Ég var ekki hress þá og ég er ekki hress núna. Þrátt fyrir að ég beri í brjósti mér kærleika á borð við Jesú nokkurn Krist, umber ég engan veginn hresst fólk. Frá mínum bæjardyrum séð, er hresst fólk sú tegund fólks sem ég tel mestu ástæðu til að varast. Það er enginn alltaf hress, það er ómennskt.

Á þessum tíma voru ekki margar útvarpsstöðvar í boði, það var held ég Gufan, Rás 2 og Bylgjan. Ég vann í bæjarvinnu Kópavogskaupstaðar og það var svo langur vegur frá því að ég væri hress. Á vinnustað mínum glumdi í Bylgjunni, frá morgni til kvölds. Sú útvarpsstöð var álitin fersk og mun hressari en uppvakningarnir á Gufunni og Rás 2. Vinsælasti útvarpsþáttinn var í höndum tveggja manna sem skapað höfðu sér það orðspor að vera þeir flippuðustu og hressustu í bransanum. Þeir hétu Jón og Gulli. Þeir voru svo frægir og svo vinsælir að þeir voru með svokallað ‘sidekick’, sem ég veit ekki hvað útleggst á íslensku, kannski aukanúmer, eða persóna af því tagi, að ef sú staða kemur upp í útvarpsþætti að það verður allt í einu leiðinlegt, eða að dampurinn dettur niður í lengur en 6 sek, þá er leitað á náðir aukanúmersins til að rífa upp stemmninguna, áður en hún dettur dauð niður. Þetta ‘sidekick’ hét Jóhannes á fóðurbílnum.

Eins og ég segi, það er ómanneskjulegt að vera alltaf hress.

Gæti þessi staða hafa komið upp í útvarpsþætti Jón og Gulla.

“Ég get ekki meir Jón”, andvarpaði Gulli meðan hann gróf andlitið í höndum sér. “Ekki fara með þetta í loftið, spilaðu aftur lagið með Madonnu!”, gargaði Jón á aðstoðarmanninn, sem brást skjótt við. Það var rautt ljós á hljóðnemanum, sem stóð upp úr miðju borðinu sem Gulli var farinn að grúfa sig niður í.
Jón, ekki alveg viss um hvernig hann átti að haga sér í þessum aðstæðum, klappaði höndinni klaufalega á öxl Gulla; svona eins og hann hafði séð í bíómyndunum.
Hann hafði aldrei séð félaga sinn hann Gulla svona niðurdreginn. Af tvíeykinu, hafði Gulli alltaf verið sá hinn hressari. Saman höfðu þeir verið ósigrandi. Ósigrandi og vellauðugar stjörnur í útvarpi á Íslandi.
“Ég þoli þetta ekki lengur! Ég hreinlega þoli þetta ekki!”, kjökraði Gulli. “Ég vildi að ég væri dauður!”
“Hvað kom fyrir maður? Afhverju ertu ekki hress? Ertu svona út af því að Blikar töpuðu fyrir KR?” Jón tók eftir því að hann var farinn að klappa Gulla óþarflega fast á öxlina. Ég má ekki missa móðinn, hugsaði Jón, er hann fann fyrir áður ókunnugum ótta.
“Ég er ömurlegur!” grenjaði Gulli. “Hvað er ég að gera hér? Ég er ömurlegur!”
“Hvað er þetta maður! Vertu hress maður! Þú ert bara að ganga í gegnum eitthvað tímabil! Þetta líður hjá! Þú þarft bara að fá þér að ríða! Eða detta í það! Vittu til, allt verður gott!” Jón var ekki um það viss, hvort hann væri að hughreysta Gulla eða sjálfan sig.
“Jóhannes á fóðurbílnum er tilbúinn á línu eitt”, kallaði aðstoðarmaðurinn. “Hahahahhahahahahhahhaha, ég er að keyra yfir heiðina, hahahhahhahahaha”, glumdi í Jóhannes á fóðurbílnum.
Gulli leit upp og þerraði tárvott andlit sitt, með rjómagulum vasaklút. “Er þetta hann Jóhannes okkar?” Rödd Gulla titraði eilítið, en ekki það mikið að hægt væri að merkja það á honum að hann hefði verið að gráta.
Jón andaði léttar. Hann taldi að óhætt væri að banka höndinni hressilega á bakið á Gulla, sem hann og gerði. “Gott að þú ert búinn að ná þér Gulli minn!” Honum hafði síður en svo verið skemmt yfir þessari uppákomu félaga síns.
Það var engu líkara en Gulli hefði fengið í sig vítamínssprautu. Sorg og sút var á bak og burt. Tímabundið hliðarspor, sem tilheyrði fortíðinni. Gulli var maðurinn í núinu.
“Settu okkur í útsendingu”, gólaði Gulli á aðstoðarmanninn. Aðstoðarmaðurinn taldi niður úr þremur.
“Kæru hlustendur, við erum komnir með Jóhannes á fóðurbílnum á línuna! Jóhannes! Er bara verið að keyra heiðina, hahhahhahhaahhahaa, hhahhhahhahahhahhahahhahaha”
Gulli hafði aldrei verið hressari.

6 thoughts on “Gildi þess að vera hress”

  1. Haahaaha…Ég man eftir þessum gæjum, man að maður fékk á tilfinninguna að maður væri bara ekki alveg nógu mikið cool eða sportistalegur (Sem ég mun svo sannarlega aldrei láta þekkja mig fyrir að vera get ég sagt þér Sigurður) eða fjölskylduvænn…Svona ekta “Bylgjufólk”…

    Sem betur fer er mun meira úrval núna á útvarpsstövum..
    Bara svona fyrir framtíðargeðheilsuna…

    En endilega skilaðu því til portkonunnar að ég er búin í prófum og að mig hlakki til að seigja henni hvað mér hefði gengið vel:)

    Þú ert algjör gullmoli Sigurður, You always make my day*

  2. Sjáðu bara hvar þessir gaurar eru í dag!

    Og hversu fokking kúl og hresst allt liðið á Bylgjunni er í dag!!!

    Helvitis fokking afvankað og heiladautt pakk sem er búið að gengisfella lífið niður í æðislsegt snilldar lag með Madonnu; FM957 eftir 10 ár.

    Drottinn blessi þau…

  3. Þú hefur líka gert minn dag.
    Afbragðs tónlist á síðunni þinni; Billie yndisleg eins og alltaf, Herra Allen flinkur á nettuna. Já, afbragð alveg hreint.

  4. Já, Garðbæingar. Jockeys. Íþróttafávitar. Stepford hyski. Megi þeir þorna upp með sín hressu bros á steinrunnu andlitunum einhversstaðar niðurgrafnir undir kjallaranum á Rex. Svei. Nei. Fussumsvei. Ég forðast ennþá fólk sem stillir á Bylgjuna. Það er bara eitthvað að svoleiðis fólki.

Comments are closed.