Nostalgíuflipp

Nú segir frá er ég varð ástfanginn í fyrsta skipti á ævinni. Ég var 16 ára gamall og sökum óhefðbundinna aðstæðna var ég sendur burt úr foreldrahúsum til betrunar í sveit. Þar kynntist ég öðrum villuráfandi sauðum, þar á meðal ungri og lögulegri Reykjarvíkurkind, með 5 ára forskot í lífsins skúespili. Fyrir mér var hún fullnuma kona og ég aumur glórulítill unglingur. Ég hefði því aldrei, þrátt fyrir mjög fjörugt ímyndunarafl, getað giskað á að hún hefði á mér rómantískan áhuga. Það einfaldlega hvarflaði ekki að mér.

Þegar þetta var hafði ég ekki enn kynnst læriföður mínum í lífsins kúnst, og hann því ekki búinn að uppfræða saklausan mig um vergjarnar konur sem höfðu það sem tómstundargaman að fleka unga hrekkleysinga.

Dag einn, stakk þessi fullorðna kona upp á því við mig að við færum saman í lautarferð. Hún tók til rúmteppi, súkkulaði og gos með sykri í. Ég varð upp með mér. Í þessum skaðræðishóp, var hún óumræðanlega sá einstaklingur sem mest var í spunnið. Grönn, hávaxin, með sítt liðað hár og örlitla bauga undir augum sem undirstrikuðu hversu lífsreynd hún var. Manneskjuleg, full af vísdómi, sem hún fór ekki sjálf eftir. Forskrift allra kvenmanna sem ég átti eftir að hafa kynni af á næstu árum.

Meðan við gengum, man ég hvað ég hugsaði. Ég var nokkuð viss um að ástæðan fyrir að ég var á leiðinni í lautarferð með henni var sú að henni þætti vænt um mig, eins og manni þykir vænt um yngra systkin. Það þótti mér ekkert skrítið. Hvað annað kom til greina en að láta sér þykja vænt um þennan umkomulausa ungling sem ég var. Góður og velmeinandi strákur, sem vann engum tjón nema sjálfum sér.

Veðrið var dásamlegt og sólin skein. Fleira fólk var í göngutúr á sama svæði. Í rjóðri fundum við okkur fallegan stað þar sem við breiddum úr rúmteppinu og lögðumst á það. Mér leið ofurvel þar sem við lágum saman og nutum sólskinsins. Hún spurði hvort hún mætti halda utan um mig og ég jánkaði því. Það var eins og ég væri örlítið ölvaður þar sem hún hjúfraði sér upp að mér. Mér þótti hún falleg og sá okkur fyrir, mjög ljóðrænt, tvö ein saman í vondum heimi, þar sem ekkert fengi okkur grandað. Svo á augabragði breyttist staða mín og varð ívið vandasamari. Hún byrjaði að kyssa mig. Ég hélt það myndi líða yfir mig. Ég var ekki alveg klár á hvað var að gerast, en mér leið dásamlega. Lautarferðirnar urðu fleiri og án þess að ég hefði nokkuð um það að segja hrapaði ég í pytt ástsýki og brjálæðis.

Einn daginn gufaði hún upp. Enginn vissi hvert hún fór og enginn gat sagt mér nokkuð um afdrif hennar. Í vikur og mánuði engdist ég sundur og saman af sálarkvölum, og þó ég væri viss um að ég liti aldrei glaðan dag á ný, gréru mín sár og ég jafnaði mig. Löngu seinna sá ég hana í bíl sem keyrði eftir götunni þar sem ég átti heima. Hún sá mig líka. Bíllinn staðnæmdist ekki. Hún sat í farþegasætinu, en bílstjóramegin sat maður miklu eldri en ég.

Ég hef stundum velt því fyrir mér hvernig henni vegnar og hvernig árin hafa leikið hana. Hún er í dag 43 ára gömul. Síðan það komst í tísku að gúggla, hef ég nokkrum sinnum slegið inn nafn hennar, en ekki fengið neinar krassandi niðurstöður. Ekki nema að hún býr út á landi og á mann.

Í fyrradag í nostalgíuflippi leitaði ég að henni á timarit.is og fann út eitt og annað. Ég fann mynd af henni 9 ára gamalli ásamt vinkonum sínum sem héldu hlutaveltu til styrktar Rauða Kross Íslands. Einnig fann ég grein í Alþýðublaðinu frá 1982 um verkalýðsbaráttu fiskiverkanda, þar sem hún var spurð álits. 1982 var hún 17 ára gömul.

1991 giftist hún og á brúðkaupsmyndinni brosir hún fallega með nýtilkomnum eiginmanni sínum. Maðurinn hennar kemur mér fyrir sjónir sem vænsti maður. Þegar hún giftist voru einungis 5 ár liðin frá því að leiðir okkar skildu. Þá var ég orðinn jafn gamall og hún var þegar við bjuggum til rómantík undir sólinni.

Að lokum fann ég tvær yngri myndir af henni, í hópi kvenfélagskvenna út í sveit. Hún er á þessum myndum, á svipuðum aldri og ég er núna, og mjög auðþekkjanleg. “Ég var að gera eitthvað sem ég hefði ekki átt að gera, en gerði samt!” les ég úr svip hennar og get ekki varist brosi.

Skrítið þetta líf.

7 thoughts on “Nostalgíuflipp”

  1. Takk fyrir þetta, Siggi – hreint sérlega notalega mannleg lesning 🙂

    Kem í kaffi í mars (á landinu 2-13nda)

  2. Þegar þú segir Kristur á krossinum, ertu þá að meina JésúsPétur? Þetta var annars hugljúf og falleg saga.

Comments are closed.