Gæfa og gjörfileiki

Ég hef verið með ógeðslega pest undanfarna daga og þankagangur minn því meira morbid en vanalega. Einhver myndi ætla að nú væri ástæða til að fagna, en ég finn meira fyrir sorg en gleði. Því meira sem ég heyri í pólitíkusum, því sannfærðari verð ég um að við eigum okkur ekki viðreisnar von. Ég vona að ég geti kennt pestinni um þessi viðhorf mín og þá tilfinningu að þjóðfélagið mitt sé aðeins rétt á fyrstu metrunum niður í díki örbirgðar og volæðis.

Hverfulleiki lífsins hér á fangaeyjunni hefur sjaldan verið sýnilegri. Það sem er í dag, endist stundum ekki fram á morgundag. Menn sem hafa til þessa álitið sig nokkuð örugga með atvinnu, missa hana fyrirvaralaust.

Afhverju mér er þetta hugleikið, veit ég ekki, en þegar Ólafur Fokkings tók við borgarstjórastöðu, fór ég eins og sönnum ólátabelg sæmir niður í ráðhús til að láta í mér heyra. Þar mætti ég fréttamanni sem horfði með mikilli vanþóknun á þá sem heyrðist hæst í. Ég ýki ekki, fyrirlitningin draup af honum. Þessi maður missti vinnuna ekki alls fyrir löngu. Ég sá hann í síðustu viku að mótmæla. Hann var reiður og hrópaði slagorð.

Hefði einhver sagt mér að ég ætti eftir að standa fyrir framan Alþingi og misþyrma makkintossdollu með skússíkapli, hefði ég ekki trúað því. Þannig er það. Og ég get ekki ímyndað mér hvernig þetta skúespil fer á næstu mánuðum. Eitthvað sem hljómar fráleitt í mínum eyrum í dag, á kannski eftir að verða að þeim veruleika sem ég bý í á morgun.

Núna þegar þetta er skrifað er ég að hlusta á viðtal við forsprakka Frjálslynda flokksins í Kastljósi. Ég var að spila tónlist fyrr í dag, og tölvan því tengd við magnara. Formaður frjálslynda, á milli þess sem hann skyrpir út úr sér gífuryrðum og svartsýnisspám, andar með skerandi andardrætti sem er einkennileg blanda af mæðuveikri rollu og Svarthöfða.

Allt í einu man ég að ég á súkkulaði.

2 thoughts on “Gæfa og gjörfileiki”

Comments are closed.