Dekkri hlið sálu minnar

ytingar

Hér gefur að líta nokkuð glæsilega mynd af mér þar sem ég geri aðsúg að hæstvirtum forsætisráðherra í janúar. Við þessar óvanalegu aðstæður vaknaði upp í mér demón, sem ég veit að blundar innra með mér, en ég reyni að halda sofandi með fallega löguðum hugsunum sem Ghandi og móðir Teresa væru hreykin af. Þessi mynd er ekki lýsandi fyrir mína persónu, enda ég alinn upp fyrir sunnan skítalæk í kristilegum glitfíflaverðlaunagarði. Og nú þar sem ég hef gert grein fyrir hver ég er og úr hvaða jarðvegi ég er sprottinn, ætla ég að gangast við örlitlu kuski á hvítflibba mannlegrar tilvistar minnar.

Ég geri mér grein fyrir að ef þetta væri moggablogg, yrði ég úthrópaður ólátabelgur, skríll og drulluháleistur, enda moggabloggarar upp til hópa svo siðavandir að þeim er fyrirmunað að sjá að í sálu mannskepnunnar má alltaf finna einhvern ranghala, óskapnað, skúmaskot. Í moggablogglandi er maðurinn annaðhvort vondur eða góður. Hann er rang- eða réttsýnn. Þó er drullan og ógeðið hvergi meiri en á moggablogginu. Moggablogg er ekki bara moggablogg, heldur samnefnari fyrir heimsku mannskepnunnar.

Andrúmsloftið við Stjórnarráðið var tryllingslegt. Þegar svartstakkarnir byrjuðu að hrinda fólki úr veginum upplifði ég einkennilega, en jafnframt mjög hressandi tilfinningu sem blindaði um stund raunveruleikamat mitt. Tíminn hægði á sér, nógu lengi til að ég gæti tekið ákvörðun um hvort ég léti undan brennandi löngun minni til að keyra sælgætisdolluna sem ég held á í hjálminn á lögreglumanni sem ógnaði mér með kylfu. Dýrið í mér gargaði, og heimtaði að skynsemi viki fyrir réttlæti. “Réttlæti á svona stundum er einungis náð fram með ofbeldi” urraði dýrið. “En kæra dýr” sagði ég, eða sá hluti af mér sem er tileinkaður skynsemishugsun “ef ég læt þessa makkintossdollu vaða í hjálminn á þessum ágæta lögreglumanni, sem er þegar öllu er á botninn hvolft, einungis að sinna sínum skyldustörfum, verð ég að öllum líkindum ferjaður með diskóbílnum upp á sjúkrahús, eða lögreglustöð, þar sem ég fengi að vera fram eftir degi, og þá myndi ég missa af restinni af þessum sögulegu mótmælum, það væri nú hálfsorglegt kæra dýr, ekki satt?”

Og svona diskúteraði ég við dýrið í sjálfum mér meðan veröldin stóð kyrr og beið eftir úrskurði. Lögreglumennirnir fyrir framan mig minntu mig á fasistana á kápu bókarinnar Pigtrad sem ég las í dönsku í menntaskóla. Bollaleggingar mínar um hvort ég ætti að svara ofbeldi með ofbeldi stóðu ekki yfir lengur en tvær sekúndur. Skynsemi mín, eða bjartari hlið sálu minnar hafði betur í þessum andlega slag, en ég áttaði mig á að innra með mér er ekki bara tónaflóð, ruþmi og melódía, heldur líka dekkri hlið sem verður sýnileg við aðstæður sem þessar.

10 thoughts on “Dekkri hlið sálu minnar”

  1. Sigurður Þorfinnur!

    Nú vegurðu stórlega að heiðri mínum fyrir það eitt að ég kaus að gerast bloggari á mbl.is – og var það meðvituð ákvörðun til þess eins að reyna að stemma stigu við öfgafullum hægri öflum í ranglátu samfélagi hægri manna. Það hefur reynst mikið fjör að standa í því stappi og fá yfir sig svívirðingar og persónuníð daglega, en um leið verulega gaman.

    Ekki dæma moggabloggara ALLA sem EINN – a.m.k. ekki fyrr en þú hefur prófað að vera einn slíkur sjálfur.

    Bestu kveðjur!

  2. Já ég lét sjálfur eins og andskotinn þarna. Eg kom meira að segja í sjónvarpinu sláandi taktinn á húddi forsætisráðherrans. Lifi Janúarbiltingin.

  3. Góð lýsing. Ég var þarna en ekki svona nálægt. Það var magnað hvað múgurinn var á einu máli.

  4. Skot mín á moggabloggið eru langt frá því að vera málefnaleg, enda ég ekki rökviss maður.

    Ég var einnig nýbúinn að hlusta á viðtal við Alfreð Flóka, þar sem hann tíundar mannfyrirlitningu sína. Ummælin voru skrifuð undir áhrifum frá því viðtali.

  5. Þór: Sigurður var ekki að skjóta á hægri eða vinstri sveiflu moggabloggara, heldur hvað þeir eru á lágu plani. Þetta er staðreynd sem Sigurði hefur verið tíðrætt um, blasir við og þarf ekki frekar að rökstyðja.

  6. Það er satt. Ég þarf ekki að lesa mörg moggablogg, til að fá það á tilfinninguna að mér sé ekki hætt út fyrir hússins dyr óvopnaður. En það á ekki við um alla, um það hef ég líka skrifað. Ég hef heldur ekki lesið alla moggabloggara, ég er yfirleitt sneyddur allri lífslöngun eftir að hafa lesið tvo til þrjá. Mér fallast bara hendur.

  7. Þú og allir þeir er tóku þátt í búsáhaldabyltingunni eruð hetjur. Stemmningin þessa janúardaga var rafmögnuð, það var gert sem gera þurfti. Og ég vona að hún sé á “hold”. Það gæti þurft að ræsa hana aftur. Þið eruð þeir sem þorðu. Ég rúntaði í hring og hnusaði af þessu en var of huglaus til að slást í hópinn. Og raunveruleikamat þitt var ekki blindað heldur kristaltært á þessari stundu.

  8. Nú líst mér á þig!

    Ég er alltaf hrifnust af þér þegar þú ert í ,,lyktarlausa´´ essinu þínu ((°3

    Bið að heilsa Snorra S.

  9. Snorri S, biður fyrir kveðju, en kvartar undan því að þú svarar ekki símhringunum hans. Hvernig stendur á því Linda María? Hann sem var þér alltaf svo góður!

  10. Svo þykistu ekki þekkja neinn Snorra en situr á hljóðskrafi við hann og biður fyrir kveðjur út um allar jarðir!!

Comments are closed.