Svik og prettir

djembesvindl1

Ég varð miður mín, brotnaði saman í pósthúsinu og fór að gráta, þegar ég sá stærðina á pakkanum, sem átti samkvæmt mínum hugmyndum að vera allavega 10 sinnum stærri. “Hvað er þetta?” gargaði ég á póstkonuna. Nei, þarna ýki ég svolítið – ég gargaði ekki á póstkonuna. Ég færi ekki að garga á nokkurn mann, síst þau þarna í Pósthússtræti, sem eru eins og blómstrið eina.

En eitthvað hefur djembe tromman skroppið saman í flugi frá Ísrael, eða þá að ég hef ekki meira vit á þessari tegund tromma en það að mér er ekki kunnugt um að hægt er að fá þær í öllum stærðum og gerðum. Ég hélt að djembe trommur væru bara í til í einni stærð, en eftir einfalda leit, sé ég að þær eru allt frá 12″ upp í 28″ á hæð, með haus frá 7″ upp í 14″, en tromman sem ég hélt að ég væri að kaupa var í stærri kantinum, svipuð trommunum sem ég skoðaði á Klapparstígnum, sem kosta 30-70 þúsund verðleysingja.

Ha, ha, heyrði ég innan í mér, þegar ég pantaði trommuna á ebay, og borgaði fyrir hana 39 Gogga Washingtóna. 70 þúsund verðleysingjar hvað. Ég geri öll mín innkaup á ebay, og er snöggur að því, og svo hló ég eins og sjálfumglaður nýríkur bankamaður fyrir kúk-í-viftutímabilið. Og hér er afraksturinn af þeim kaupum. Ef ég mætti með þessa trommu í djembe hringinn hans Karls Ágústs Úlfssonar, þá yrði híað á mig þar til ég hrökklaðist úr hringnum með lúsertilfinningu í sálinni. En þetta er örugglega fín mótmælatromma, og í þessari tíð er gott að eiga góða mótmælatrommu að grípa í. Eitthvað segir mér að…….

4 thoughts on “Svik og prettir”

  1. Mér sýnist þetta hinn eigulegasti gripur. Svona stærð er oft bundin við aðra stærri, en það hef ég séð hjá flottum götulistamönnum erlendis.

  2. Ekki vanmeta sérstöðuna sem fylgir því að vera eini dverg-djembe leikari Íslendinga. Tækifæri allstaðar.

  3. Þú getur orðið Íslandsmeistari í víðavangshlaupi djembe-leikara – í leikham.

Comments are closed.