Indiana Jones með liðagigt og æðagúlp

Ég var staddur á Austurvelli, þegar ég heyrði nafn mitt kallað: Siggi! Siggi! Ég leit í kringum mig og sá enga nema nokkra róna sitjandi á bekk. Siggi! Siggi! Hver var að kalla á mig? Ég pírði augun í átt að rónahópnum, en kallið virtist koma þaðan. Í hópi kraftgallaklæddra róna, sé ég að situr ungur myndarlegur maður í lopapeysu. Hann veifar til mín.

Við nánari eftirgrennslan sé ég að þetta er æskuvinur minn. Einn af þeim strákum í hverfinu mínu sem ég eyddi mestum mínum tíma með. Við vorum miklir bíómyndaunnendur og í sérstöku uppáhaldi hjá okkur voru stjörnustríðsmyndirnar og Indiana Jones. Við tókum upp kvikmyndir á 8mm og innréttuðum kjallara, í húsi annars vinar okkar, sem bíósal og seldum inn á sýningar. Við lékum okkur saman í móanum fyrir ofan Lund og þegar spennan í leiknum varð yfirþyrmandi – sungum við bakgrunnstónlist úr kvikmyndum.

Lagið úr Indiana Jones notuðum við þegar við vorum á hlaupum í hasarleik. Da, da, da, daaaaa, da, da – da, da, duuuuu. Da, da, da, daaaaa, da, da – da, da, daaaaaaaaa……

[MEDIA=127]

Þegar við vorum að nostra við eitthvað sem krafðist einbeitingar sungum við Imperial March úr Star Wars. Du, du, duuuu, du, di, duuu, du, di, duuu, da, da, da, da, duu, du, duu, du, di, duu, DA, DA, DA, DAAA, DADA , DAA…..

[MEDIA=128]

Komdu sæll, segi ég. Hjá honum stendur illa hirtur brosgleiður róni og sýpur bjór. Það er orðið official! segir hann. Hvað er orðið offical? spyr ég, ekki alveg að átta mig á aðstæðum. Að ég er orðinn róni! segir þessi gamli vinur minn. Nú, hvernig stendur á því? spyr ég alveg undrandi. Hann kann ekki svar við spurningu minni, en fer að rifja upp eitt og annað frá því að við vorum krakkar.
Ég spyr hann aftur, því í andskotanum hann sé orðinn róni, en bæti því svo við að ég hafi ekki í hyggju að lesa honum pistilinn. Ég er öðruvísi, segir hann. Ég kími örlítið, því ég hef sjálfur aldrei upplifað að ég sé venjulegur – hvað sem það svo er. Öðruvísi? hvái ég. Já, ég er svo manískur, andvarpar hann.
Mér finnst lítið um þessar afsakanir. Það er ekkert fyrir því haft að vera alsgáður þó svo að maður sé manískur, þunglyndur, í tilvistarkreppu, í ástarsorg, soltinn, mettur, í þráhyggju, ástfanginn, sorgmæddur, glaður, kærleiksríkur, reiður, bitur, hamingjusamur, hræddur, óhræddur, erlendis, hérlendis – eða í hvaða aðstæðum sem lífið sér manni fyrir.

Niðurlútur segir hann mér að glæný Indiana Jones mynd sé væntanleg í kvikmyndahús. Við verðum sammála um að við ætlum ekki að sjá hana. Við viljum ekki sjá hetju uppeldisára okkar með liðagigt og æðagúlp.