Orðið “fokking” í daglegu máli

Ég var að átta mig á að undanfarið hefi ég ekki sett mér neinar lífsreglur. Jú, að vísu reyni ég að halda aftur af mér í neyslu á sékri og majonesi, og kem reglulega með alvöruþrungnar yfirlýsingar, rétt eins og líf mitt sé í húfi, um að ég sé í sékur og majones straffi. Að undanskildum einum degi í viku, þar sem ég leyfi mér að bíta teprulega í eitthvað sætt og jafnvel sleikja vísifingur eftir að hafa stungið honum í majoneskrukku. Sá dagur er laugardagur, rétt eins og þegar ég var að alast upp í Kópavoginum.

Stundum þó, þegar ég er dapur í hjartanu mínu og ekki jafn fastur fyrir og aðra daga, raða ég upp í mig kexkökur. Kexkökurnar eru þá yfirleitt í boði á heimilum þar sem ég er gestkomandi. Aldrei, og ég legg þunga áherslu á aldrei, – kaupi ég mér sætabrauð eða aðra óhollustu til að eiga inn í skáp á kristilegu heimili mínu. Að eiga slíkan varning á lager leiðir óhjákvæmilega til mistaka og mistök og veikleikamerki eru ekki liðin hér á Óðinsgötunni.

Hollt þykir mér að setja mér lífsreglur. Ég fæ það á tilfinninguna að ég sé að betra sjálfan mig og þá líður mér vel í sálinni minni. Og til að bæta enn fleiri rósum í hnappagat mitt, hef ég ákveðið að hætta að nota orðið “fokking” í daglegu tali. Stundum þegar mér er mikið niðri fyrir, verður þetta ljóta orð fyrir valinu og þykir mér það miður.

Ég rek andúð mína á orðinu aftur til þess tíma sem ég bjó á Laugaveginum. Fyrir neðan mig bjuggu hjón, með litla telpu. Þegar þau gerðu sér dagamun og fengu sér aðeins í aðra tánna, sem var nokkuð oft, þá ávarpaði maðurinn konu sínu með setningum sem innihéldu “fokking.” Mér þótti skrítið að heyra í fólki, mér tuttugu árum eldra, notandi tökuorð sem þetta. Einnig verkjaði mig aðeins í hjartað að þurfa að hlusta á þetta, þó svo ég vissi að tjáskipti hjónanna væru ein af mörgum birtingarmyndum ástarinnar.
Síðan þá hefur mér þótt orðið “fokking” alveg sérstaklega ófínt og hallærislegt.

Lífsregla númer 679 hljómar því eitthvað á þessa leið: Ekki undir neinum kringumstæðum skaltu nota orðið “fokking” í töluðu eða skrifuðu máli. Skiptir einu þó lund þín sé þrungin af svokallaðri réttlátri reiði. Eina undantekningin á reglu þessari, er ef þú missir eitthvað þungt á tánna þína, þá er í lagi að nota upphrópun þar sem “fokking” kemur fyrir. Það skilja allir.

2 thoughts on “Orðið “fokking” í daglegu máli”

Comments are closed.