Söknuður

Undanfarið hefi ég ekki mikið skrifað um hefðarköttinn Þórkötlu, enda hefur ekkert til hennar spurst í þrjár vikur. Ég verð að viðurkenna að ég sakna hennar sárgrætilega og má segja að líf mitt hafi verið þrungið harmi frá því að hún hvarf sporlaust. Sálarlausa kvikindi! Ef hún vissi hvað mér var farið að þykja vænt um hana.

Ég eyddi drjúgum tíma í að klappa henni og klóra í hausnum. Það fannst henni fyrirtak. Þegar ég sat við eldhúsborðið og vann á tölvuna, stökk hún fimlega upp á borð til mín og néri nefinu utan í mig. Ég svaraði henni í sömu mynt og nuddaði nefinu mínu tígulega upp við hana. En ef ég ætlaði mér að fá vinnufrið þá þurfti ég að bera í hana kræsingar, því annars lét hún mig ekki vera. Já, við vorum mestu mátar. Á nóttunni þegar ég svaf á maganum, svaf hún á herðum mér. Þegar ég svo svaf á bakinu, lá hún á brjóstkassanum.

En hvar ertu nú Þórkatla?

Þórkatla var þó ekki í minni eigu. Ég vissi aldrei hver átti hana. Fyrir um tveimur mánuðum síðan hvarf hún í tíu daga, en skilaði sér aftur í kærleikann og ylinn hjá Sigga Sigga Bang Bang. Mér kom þá til hugar að raunverulegir eigendur, hefðu náð í hana hingað í hverfið og ferjað hana upp í hryllilegt Breiðholtið. Þar hafi hún orðið aðframkomin af söknuði og því strokið og fundið leiðina aftur heim á Óðinsgötuna. Svona er nú hægt að hugsa kjánalega.

Einhver stakk upp á því við mig að ég fengi mér minn eigin kött, að ég héldi ekki annarra manna köttum í gíslingu. Ég sló viðkomandi utan undir og hrækti framan í hann. Þórkatla skilar sér! hreytti ég í þennan ósensitíva mann.

Ég er þó farinn að efast.

3 thoughts on “Söknuður”

  1. slóst engann utanundir, þú vast bara uppá þig og varðst einkennilegur á svipinn.

    FÁÐU ÞÉR ÞINN EIGIN KÖTT!

  2. Hún getur alveg komið aftur jafnvel eftir tvö ár en þá er ekki víst að þú sért til að taka á móti henni

  3. Ég man söguna um köttinn þinn Mekkinó sem hvarf í 2 ár og þegar hann sneri aftur var hann jafn aðlaðandi og kötturinn í Pet Cemetery, eftir að hann reis upp frá dauðum.

Comments are closed.