Leigusalinn ódæli

Það er mjög mismunandi hvernig fólk upplifir sjálft sig. Sumir misbjóða fólki í guðs nafni, fullvissir um að þeir séu hlýjar og kærleiksríkar persónur, meðan aðrir læðast meðfram veggjum, sakbitnir yfir að taka pláss í heiminum.

Einu sinni fyrir ævalöngu kynntist ég sérstaklega ódælum manni, betur en ég nokkurn tímann kærði mig um. Hann var almennt illa liðinn, enda með eindæmum ókurteis og fráhrindandi. Hann var alveg blindur á hvað fólki fannst um hann. Í hans huga var hann skemmtilegur, frumlegur og frískandi athafnamaður. Hvert sem hann fór lét hann móðann mása. Hann hafði skoðanir á öllu og þröngvaði þeim með ofbeldi og kjafthætti upp á fólk.

Einhvern tímann sagði hann mér frá því að hann hefði þurft að taka inn þunglyndislyf. Alveg upp úr þurru, honum til mikillar undrunar, fannst honum eins og fólki væri illa við sig. Hann gat varla farið út fyrir hússins dyr, því honum fannst allir horfa á hann ásökunaraugum. Hann fór því til læknis og bað um hjálp. Heimilislæknirinn sagði honum að líklega væri hann þunglyndur og skrifaði upp á nýjasta og flottasta þunglyndislyfið á markaðnum, sem hann tók inn samviskusamlega. Eftir tvær til þrjár vikur, var hann búinn að ná sér og gat haldið áfram að troða á fólki án þess að fá yfir því samviskubit.

Þessi maður, með hjálp geðlæknisfræðinnar, heldur mjög líklega áfram á sömu braut í gegnum lífið, iðrast einskis og deyr einn og yfirgefinn öllum til léttis.

5 thoughts on “Leigusalinn ódæli”

  1. Skyndilega líður mér ekki lengur vel með að hafa klárað læknisfræði í gær.
    Nú mun ég er framtíðinni verða ein af þeim sem hjálpar svona óbermum að vera óbermi áfram án sektarkenndar.
    Fæ ég vinnu á 1984 til að forða að svo megi verða?!

  2. Drullusokkar eru líka fólk og þeim ber að gera lífið eins þægilegt og frekast er unnt, til þess eru einmitt læknar og hjúkrunafólk.

  3. Læknar geta líka verið drullusokkar, já.. og prestar. Ótrúlegt en satt (ekkert persónulegt Allý mín)… Og já, Siggi, ég kannast líka rosalega við einn svona gaur, “kannast” er reyndar understatement…

Comments are closed.