Ópólítískur betrunarpistill

Ég er með fagurt hjartalag og með eindæmum hreinlundaður. Samviskusemi mín á sér engin landamæri. Ég er góður við menn og dýr. Allt eru þetta mannkostir sem hægt er að stæra sig af í kokteilboðum, og á öðrum mannamótum þar sem maður neyðist til að tala viðstöðulaust um sjálfan sig, öllum nærstöddum til óblandinnar ánægju. Þrátt fyrir að hafa í farteskinu dyggðir af þessari stærðargráðu er ég líklega sakbitnasti maðurinn á öllu Íslandi. Einhverra hluta vegna virðist vera innbyggt í þessa útgáfu af manneskju sem ég er, eitt það hræðilegasta samviskubit sem um getur. Mér líður alltaf í sálinni minni eins og ég hafi gert eitthvað á hlut meðbræðra minna, og þar af leiðandi læðist ég stundum meðfram veggjum. En nú verður breyting á, því ég hef fundið upp aðferð til að vinna gegn þessari sjúklegu samviskusemi sem kvelur anda minn. Eins og komið hefur fram ítekað á þessum vef, er ég mikill áhugamaður um að betra sjálfan mig. Í þeim tilgangi set ég mér oft fyrir eggjandi verkefni.

Í vikunni lagði ég bifreið minni af Opel gerð í stæði sem merkt var einkastæði. Ég freistaðist til að gera þetta, viss um að ég yrði ekki lengur en 5 mínútur að hlaupa inn í Yggdrasil búðina til að kaupa stórkarlalegar birgðir af mínu eftirlætis Tahini. Ég stóð við tímaáætlun, en þegar ég kom út sá ég að einhver var að reyna að leggja bíl í stæðið sem ég hafði tekið ófrjálsri hendi. Ég varð ægilega miður mín og Jesúsaði mig í bak og fyrir. Ég bað konuna sem hér átti í hlut afsökunar. Hún tók afsökunarbeiðni minni fálátlega, og tíundaði fyrir mér hvernig eigandi stæðisins hefði fyrir 55 sekúndum neyðst til að keyra framhjá með þungar vinnuvélar sem hann hefði ætlað að bera inn í hús, en gat ekki vegna þess að ég er vondi kallinn og vondi kallinn á alltaf skilið að deyja. Ég sagðist vera miður mín, og fór næstum að gráta. Ég settist upp í bíl, en í stað þess að rífa sjálfan mig í tætlur yfir þessari uppákomu, eins og gert er ráð fyrir í reglugerðum – ákvað ég með sjálfum mér að ég hefði ekki gert neitt rangt og að þessi kona væri vondur nöldrari, sem nærist á samviskubiti meðbræðra sinna. Mér til mikillar undrunar, virkaði þetta svona skínandi vel. Ég hnussaði örlítið, en leið svo eins og ég væri réttsýnn góðborgari.

Betrunarverkefni mitt á komandi vikum er því sem hér segir: Ég ætla vísvitandi, upp á dag hvern, að gera eitthvað á hlut einhvers. Já, það stemmir – ég ætla að brjóta á einhverjum, hvort sem viðkomandi er mér kunnugur eður ei. Ég ætla síðan að halda reisn minni, og ganga um götur Reykjarvíkurborgar reigingslegur eins og ég sé með tandurhreina samvisku. Von mín er sú að ég nái með þessu að drepa í eitt skipti fyrir öll þetta sjúklega samviskubit, og að á endanum verði mér skítsama þó einhverjum finnist þeim fótum troðnir af mínum völdum. Allt sem miður fer, hættir að vera sjálfkrafa mér að kenna og fer að verða einhverjum öðrum að kenna, og það er ásættanlegra. Semsagt: Þú ert fífl! Ég er fínn!

Ég meðvirkur? Þú getur bara sjálfur verið meðvirkur! Hnusssss….

21 thoughts on “Ópólítískur betrunarpistill”

 1. Svo vantar mig eitthvað að lesa. Ef einhver getur mælt með einhverju, yrði ég ægilega þakklátur. Ég tek þó fram að ég þoli ekki glæpasögur.

 2. Þetta kann að vera ópólitískur pistill en betrunaræfingin sem um ræðir minnir óneitanlega á taktík þeirra er leggja stund á fyrrnefnda tík!

 3. Þú virðist mjög meðvitaður um eigið ágæti. Mundu bara að það er hollt í hófi eins og allt annað.

 4. Mæltu nú með bók við mig Hjördís. Ég elska bækur þar sem sögupersónan er í mikilli tilvistarkreppu og í endann þá deyr hún eða uppgögvar nýjan sannleik. Eða uppgögvar nýjan sannleik og deyr skömmu eftir það. Æ, þú veist hvað ég á við.

 5. Mæli með (eins og fífl af því að ég hef hvoruga lesið) bókunum þeirra Guðmundar Magnússonar og Hallgríms Helgasonar. “Allir” segja að þær séu frábærar

  En Siggi, mín trú er sú að þessi sjálfsvinnu aðferð þín muni svo sannarlega virka. Spurning hins vegar hvort að hún virki eins og þú æskir?
  Mér finnst líklegra að það sem gerist verði að þú fáir loksins loksins, eftir öll þessi ár, VERÐSKULDAÐ samviskubit 😛

 6. Ég ætlaði aldrei að fást til að lesa Jón Kalmann Stefánsson, og byrjaði á því með leiðindahljóðum af því að mér var nauðugur einn kostur. Hélt að þarna færi enn einn ofmetni samtímarithöfundurinn sem væri bara settur á stall af því að hann væri inn í réttum kreðsum.

  Skemmst er frá að segja að ég hef sjaldan orðið fyrir ánægjulegri vonbrigðum vegna eigin dómgreindarbrests; JKS er yndislegur aflestrar.

  …og þú sem er alltaf með ástina bögglaða fyrir brjóstinu á þér, ættir að lesa Sumarljós osfrv.

  Sú bók fékk ekki verðlaun að ,,ósekju´´!
  Var ég kannski búin að segja þér þetta?

 7. Ég vona að ég rekist lítið á þig í þessari andlegu för þinni að traðka á fólki, ég er nefnilega ofurviðkvæm eins og lítið blóm.

 8. Ég svosem hef ekki mikið vit á bókum en ég er að lesa Meistarinn og Margaríta á hraða snigilsins og finnst það ægi gaman bara!

 9. Dettur ekkert í hug núna nema kannski bókin sem ég er að lesa, Glæpur og refsing eftir Fyodor Dostoevsky.

 10. Ó, hún er svo prýðileg. Ég náði mér í bók eftir Kalmann, ekki Sumarljós, þar sem hún var ekki inni, heldur Sumarið bak við brekkuna.

 11. Ætlar þú þá að éta upp úr nestisboxinu mínu á morgun bara til að ná þér niður á mér, helvískur! annars er ég með réttu bókina fyrir þig, Efir Bill Bryson hún heitir gengið í skóginum,eða þá stutt ágrip um allt báðar eru mannbætandi og upplífgandi.

 12. Góða skemmtun!

  Ég las fyrst ,,Ýmislegt um risafurur og tímann´´ og nú er ég að setja mig í stellingar fyrir ,,Himnaríki og Helvíti´´.

  Ég féll fyrir þessu tímaflakki hans innan og á milli bókanna.

  En ,,Sumarljós, svo kemur nóttin´´ er bók sem maður skilur bara ekki af hverju maður skrifaði ekki sjálfur og af hverju einhver var ekki búinn að því fyrir löngu.

  Ég held að galdurinn liggi í því hvað höfundurinn gerir lesandanum fært að fyrirgefa persónunum og sjálfum sér í leiðinni.

 13. ég mæli með að þú lesir Karítas bækurnar eftir Kristínu Marju, það er eitthvað fyrir þig… Sögupersónan full af sjálfseyðingarhvöt og alltaf þegar eitthvað gott gerist fer allt á versta veg. Stórskemmtilegar bækur

 14. Takk fyrir það Inga. Hljómar eins og gúmmilaði fyrir mann af minni tegund. Ég byrjaði að lesa Kalmann í nótt. Hann er ægilega skemmtilegur. Mikið hlakka ég þó til að fara að sofa. Mér fer eiginlega best að vera alltaf sofandi.

 15. Raunir Werthers unga, eða “Die Leiden des jungen Werthers” á þýsku. (Leiðindi Ungs Viðundurs er mín þýðing á titlinum. Enda fæ ég ekki vinnu við þýðingar). Þessi stutta skáldsaga eftir Johann Wolfgang von Goethe endar með sjálfsmorði þessa einhvers ömurlegasta amlóða gervallrar bókmenntasögunnar. Hver einasti lesandi þessa snilldarverks hefur í laumi hugsað: “Það var mikið að þetta fífl drap sig. Þó fyrr hefði verið. Farið hefur fé betra.”

 16. Nú væri gott að uppfæra skilning minn á orðinu “amlóði”. Getur hóran hjálpað?

 17. Hélstu að amlóði væri maður sem væri í 10, 11 og 12 lúppu? Það er ekki rétt. Amlóði er pjaskur!

 18. Blessaður meistari,og takk fyrir síðast, ég hef nú ekki gott minni þegar kemur að skáldsögum, en ég las eitt sinn bók eftir pólskan eða rússneskan höfund sem fjallar um póstburðarmann og drykkjurút sem var ægilega skemmtileg og svört, ef þú kannast eitthvað við kauða þá mæli ég með bókunum hans, þær eru nokkrar en því miður þá er nafnið alveg dottið úr hausnum á mér þessa stundina, en ef það kemur aftur upp á yfirborðið þá skal ég láta þig vita, ég er sannfærður um að þú hefðir gaman af þessum verkum. Gott ef að hetjan bennti mér ekki á þetta upphaflega eða Gísli Kort. Allavega góða skemmtun í að reyna að komast að þessu 🙂

 19. Siggi minn, góði dátinn Svejk eftir Jaroslav Hacek er málið.. Hann Sveijk minn er alveg kostulegur 😉

Comments are closed.