Samkennd

Að gleðjast með náunganum er fágæt tilfinning. Maðurinn er sjálfselskur óþverri í grunninn. Hann gerir EKKERT sem ekki hefur eitthvað með hans eigin vellíðan að gera, hversu göfugur sem hann þykist vera. Þetta eru vondar fréttir fyrir þá sem voru búnir að ljúga því að sjálfum sér að þeir væru dygðugir.

Ég sjálfur finn æ sjaldnar fyrir því að ég í raun og veru samgleðjist með náunganum. Mér er yfirleitt bara andskotans sama. Ég veit þó að til að þrífast í mannheimum, þarf ég að sýna tilfinningar burtséð frá því hvort þær séu raunverulegar. Ef einhver deyr, eða einhver fæðist, er til þess ætlast að maður flíki viðeigandi tilfinningum, og skiptir þá engu hvort viðkomandi sé manni nátengdur, eða ekki. Ég veit að ef ég læt mér fátt um finnast, heldur yppti bara öxlum, þá er ég umsvifalaust stimplaður drulluháleistur. Það er reyndar þannig með öll samskipti við fólk, ef ég færi ekki eftir reglum og sýndi þær tilfinningar sem væru í raun og veru að brjótast um í mér í stað þess að gera mér upp gæðavottaðar tilfinningar, þá kæmi ég ekki til með að endast lengi meðal manna. Kuldalegt ekki satt. Samt er eiginlega ekkert ógeðslegra í lífinu en uppgerðarsamkennd, nema þá kannski þjóðarmorð og kæst skata.

Og þar sem raunveruleg samkennd er af takmörkuðu upplagi, kom mér þægilega á óvart fyrir nokkru, þegar góður vinur minn og ástkona hans eignuðust barn, hversu mikið ég gladdist. Gleði mín var alveg ómenguð. Hún var ekki lituð afbrýðissemi, eigingirni, né öðrum skítakleprum mannlegrar tilveru. Ég var himinlifandi yfir þessu fallega barni, og gleðinni sem það færði samferðafólki mínu. Áður en þetta var, man ég ekki hvenær ég síðast fann fyrir fölskvalausri samkennd.

6 thoughts on “Samkennd”

  1. Þú ert að varða meir með aldrinum, enda að verða kall er það ekki?

  2. Ég er ekki lengur þessi harðgerði maður sem allir hafa borið óttablandna virðingu fyrir.

  3. Ayn Rand fannst eiginhagsmunasemi vera dyggd (utlenskt lyklabord).

Comments are closed.