Ég varð þeirrar lukku aðnjótandi helgina sem leið að sjá heimildarmyndina Cinemania. Myndin fylgir eftir Jack, Eric, Harvey, Bill og Robertu, sem eiga það sameiginlegt að lifa sínu lífi að megninu til innan veggja kvikmyndahúsa. Öll haga þau sínu lífi þannig að þau geti séð sem flestar kvikmyndasýningar. Þau koma sér upp flóknar tímaáætlanir stundum skrifaðar vikur fram í tímann til að þau missi alveg örugglega ekki af neinu sem ske kynni að væri þess virði að sjá. Öll koma þau fyrir sjónir hins almenna borgara sem hálgerð viðundur, en þegar maður fer að kynnast þeim þá verður manni það ljóst að þarna eru ekki neinir hálfvitar á ferðinni heldur fluggáfað fólk. Öll búa þau við bágborin kjör, en láta það lítið á sig fá hvernig fyrir þeim er komið svo lengi sem þau missa ekki af sýningu.
Hugsanlega hefðu þau öll getað látið til sín taka nánast á hvaða sviði sem er, en á einhverjum tímapunkti hefur eitthvað brostið og þau fundið sér skjól í öðrum heimi.
“I mean who wants to live in this reality?”
Undirritaður er með eindæmum hissa yfir viðhorfi fólks til aðild okkar að friðargæslu í Kabúl. Það verður að segjast eins og er að afstaða okkar til þessara mála er alveg sérstaklega barnaleg. Afhverju kemur okkur til hugar að við séum svo til ósnertanleg fyrir þær sakir að við erum fædd norður í endaþarmsopi. Hverjum dettur það eiginlega í hug að vegna þess að við erum Íslendingar þjónum við einhverjum fallegri og friðsamlegri tilgangi á átakasvæðum. Friðargæslusveit er her, þó svo hann sé ekki árásarher. Og hvaða máli skiptir það hvað okkar menn í Kabúl voru að gera nákvæmlega í þessu byggðarlagi. Umræða um þessi mál hafa verið vægast sagt barnaleg. Það var enginn neyddur til að taka þátt í þessu svo mikið er víst. Þessir blessuðu íslendingar tóku sér þetta fyrir hendur alveg að eigin frumkvæði. Og hvað mega þeir ekki bera vopn til friðargæslu? Eiga þeir kannski að tala Shaheed-ana af því að sprengja sig upp í loft? 
Ég átti afar ánægjulega 6 veikindadaga heima í hlaði hjá mér. Ég fagna því ákaft þegar ég er lasinn því þá þarf ég ekki að eiga samskipti við andstyggilegt og illa lyktandi fólk í kjetheimum.
Ein af uppáhaldssenunum mínum er að finna í kvikmyndinni Donnie Darko. Í senunni situr Donnie tíma hjá leikfimiskennaranum fröken Farmer, þar sem hún er að bókstaflega að troða upp á nemendur sína sjálfshjálparaðferð sem skiptir lífinu í tvo meginþætti: kærleik og ótta.
Ég staðsetti boruna á mér miðsvæðis í Reykjavíkurborg fyrir næstum tveimur árum síðan. Leigusalinn minn er yndislegur drengur með gullhjarta. Fyrir utan gluggann hjá mér eru tveir mjög vel sóttir skemmtistaðir. Um hverja einustu helgi safnast saman heil hjörð af fólki í þeim tilgangi að hrista ærlega úr klaufunum eftir erfiða viku á skrifstofunni. Oft á tíðum er mjög glatt á hjalla og uppábúnir íslenskir karlmenn taka oftar en ekki lagið. Mér til mikillar furðu verður fótboltalagið “Ó le Óle Óle Ó Ey Óley Óley” fyrir valinu hvernig sem á því stendur. Ég að sjálfsögðu sé ég þetta sem kennslustund í því hvernig maður getur án mikillar fyrirhafnar glætt gleði í hjörtum nærstaddra með því að grípa til söngs. Þetta álít ég án allra efasemda mikilvægan lið í að leggja ástund á hressleika.