SiggiSiggiBangBang

“She was too perky!”

Dec
05

Að vera eða vera ekki hress.
Vegna offitu fer ég nokkrum sinnum í viku til að iðka svokallaðar líkamsæfingar. Þetta er liður í að draga dul á hönnunargalla sem ég fékk í vöggugjöf. Ég er í eðli mínu ekkert sérstaklega mannblendinn og það verður að segjast eins og er að ég hef alveg sérstakt ógeð á að vera þátttakandi í sal fullum af viðbjóðslega sveittum mannskepnum. Endrum eins þegar minnst við varir hitti ég einhvern sem ég kannast við og oftar en ekki kastar sá hinn sami á mig kveðju. Samskiptin eru með eindæmum áhugaverð og frískandi. Ósjaldan hef ég snúið heim á leið ríkari bæði á sál og líkama. Kumpánlegt spjallið fer undantekningaluast fram á eftirfarandi hátt.
Einhver: Blessssssssssssssssssssssaður, er bara verið að taka á því?.
Ég: Öhhhhh, iiiiiiihhhhh……………..tja, púffff já ….
Einhver: Já há, það þýðir ekkert annað…. hohohohohohoho
Ég: Nei, nei einmitt hehe
Svo hugsa ég með sjálfum hversu mikið ég vona að ég fái að deyja heima hjá mér þegar sú stund rennur upp um leið og ég geng greiðlega í burtu.

How do I know?

Dec
03

Það deginum ljósara að máttlaus skilaboð mín svara ekki tilheyrandi kostnaði. Það er kannski eins gott, enda hefði ég aldrei átt að hverfa svo mikið sem þumlung frá fyrri áformum mínum. Ég verð þó að viðurkenna að það reynist mér stundum þrautin þyngri. Því fer reyndar fjarri að mig langi alltaf hreint að leggja stund á praktíska hluti – þvert á móti. Stundum er mun ákjósanlegra að drepa tímann með dagdraumum. Dagdraumar sem reyndar svo sannarlega gætu orðið að veruleika.

Hvað hefði Robert Ginty gert í mínum sporum?

<------------------0------------------>

Dec
01

Ég vill af gefnu tilefni að þessi skilaboð tilheyri fyrstu færslu desember mánaðar.
Mér láðist að muna að ég hefði breytt SELECT úr gagnagrunninum þannig að það tæki einungis það sem væri skrifað hvern mánuð fyrir sig og raðaði upp á forsíðu. Ég satt best að segja hélt að guð hefði gripið þarna inn í og eytt út fagnaðarboðskap þeim er ég hef framreitt undanfarinn mánuð.
Þetta er kannski ekki nógu sniðugt og ég þarf að öllum líkindum að endurskoða þennan viðbjóð sem ég hef verið svo djarfur að kalla kerfi.