Siciliana a Milan
Þá er förinni heitið til Mílanó. Þann 1. ágúst kem ég svo til með að angra samlanda mína aftur með andstyggilegri nærveru minni. Nú hef ég verið hér á Sikiley í mánuð og með sanni hefði ég til að byrja með talið það víst að ég gæti búið hér. Sannleikurinn er hinsvegar sá að ég mig langar alveg jafn mikið til að deyja hér og heima í rassgati. Mér eru minnistæð orð Vaffarans, (sem er afar vel lukkað eintak af manneskju) þar sem hún sagði að það væri sama hvert á land mann bæri, alltaf tæki maður sjálfan sig með. Vaffarinn víðfrægi notaði hinsvegar ekki eins oft “maður” í setningunni eins og sveitalúðinn ég.
Fyrstu vikurnar þótti mér lífið í hverfinu afskaplega litskrúðugt, og sérstaklega aðlaðandi. Öðru hverju gleður stúlka ein nágranna sína með ómótstæðilegum kareoke söng og verða oftast fyrir valinu ítölsk popp lög vel til þess fallin að berja sig í hausinn yfir. Í öðru húsi eru stöðug rifrildi, stundum hinsvegar verð ég að viðurkenna að ég geri ég ekki mikinn greinarmun á hvort sé verið að rífast eða halda uppi eðlilegum tjáskiptum. Tungumálið inniheldur sérstakan óm af óánægju og ótímabærri reiði. Ég held að ég átti mig á að þegar fólk fer að kasta búsáhöldum í hvort annað þá sé það sennilegast rifrildi sem á sér stað. Ég er hinsvegar farinn að skilja meira í ítölskunni og þykist þess viss að það tæki mig ekki svo langan tíma að verða fluent. Sem ég segi að í fyrstu þótti mér þetta rómantískt, en í gærdag sat ég á svölunum og var að reyna að einbeita mér að lestri, þegar einn nágranninn tók sig til og öskraði og gargaði á barnabörnin sín, ég í þeirri andrá áttaði mig á því að mér þótti þetta ekkert lekkert, allur þessi hamagangur. Og ég lét hugann reika heim á friðsælan laugaveginn, þar sem fullir íslendingar búnir að pissa í buxurnar öskra og garga fyrir utan gluggann hjá mér langt fram á morgun um helgar. Ég hlakka til að fara til Mílanó. Ég hef ætíð verið hrifinn af stórborgum, og mér skilst að Mílanó sé ein af fjölmennri mengunarpyttum í henni Evrópu.