Accordéon Mélancolique
Það var mér sérstakt ánægjuefni að mæta til vinnu á þessum blessaða mánudegi. Þrátt fyrir sólskin og bjartviðri voru svo gott sem allir í byggingunni rétt í þann mund að fara að drepa sig. Ég lagði mig sérstaklega fram um að halda í það hátíðarskap og jafnaðargeð sem einkennir mig svo sérstaklega hérlendis jafnt sem erlendis. Til að kæta starfsbræður mína, spilaði ég hátt og snjallt frábæra harmónikkutónlist sem ég komst yfir á alnetinu hinu prýðilega. Um hádegið var ég hinsvegar orðinn það þunglyndur sjálfur að ég íhugaði að segja starfi mínu lausu. Mér er spurn, meðan ég hlusta á menn tíunda ágæti sitt digurbarkalega hvað það er sem gerir fólk hamingjusamt. Ég fæ það ekki skilið. Getur verið að fólk sé almennt óhamingjusamt, fast í hringrás sem að skiptir þegar öllu er á botninn hvolft engu rassgatsmáli. Er þetta keppnin um það hver er bestur, eða hver deyr drottni sínum með feitustu bankainnistæðuna/bankaskuldina. Ég get ekki annað séð en þetta sé ekkert minna en bráðfyndið. Er mælikvarðinn sá hversu langt maður er kominn, samanburðurinn við þá sem eru skemmra á veg komnir? Það vill nú svo skemmtilega til að ég þekki fólk sem mælir sitt eigið andlega heilbrigði í því hversu mikla yfirburði það hefur fram yfir meðbræður sína.
Hversu andlegt er það?