SiggiSiggiBangBang

iJunk

Apr
24

Ég er alveg sérstaklega óánægður með þessa viðurstyggð sem gengur undir nafninu iPod. Það vekur ennfremur furðu mína hversu ægilega fínt og flott það þykir að láta sjá sig með iPod. Það er engu líkara en það sé orðið að einhverjum trúarbrögðum, hvaða spilara manneskja notar til að spila dægurlög. Þetta er meira að segja orðin sérstök uppspretta frískandi samræðna og gefur manni færi á að bera saman bækur sínar við aðra eigendur iPod-a. Dæmi eru um að heilu ólukkans hjónaböndin hafi orðið til við þessar aðstæður. “Hvað er diskurinn í þínum iPod stór” kann einhver að spyrja, eða “er þinn með litaskjá”. Það er nú þannig með mig farið að þegar eitthvað verður of vinsælt þá sé ég mig tilneyddan til að skyrpa á það. Það má vel vera að ég þurfi nauðsynlega á því að halda að þroskast eilítið, þó ekki væri nema til þess eins að eiga dýpri og innihaldsmeiri samskipti við það fólk sem slysast til að verða á vegi mínum. iPod-inn minn er svo ömurlegur að eftir 3-4 lög þá frýs hann. Sé hann fullhlaðinn af rafmagni, þá er nákvæmlega ekkert sem ég get gert nema að bíða eftir að hann verði rafmagnslaus. Ekki skrifa í comment kerfið mitt að það sé hægt að halda öllum tökkum inni til þess að endurræsa hann, því það einfaldlega virkar ekki. Þannig að ef eitthvað gerist, tildæmis ef hann dytti oní skúringarfötuna eða eitthvað álíka, að þá gæti ég stórskemmt mér við að horfa á hann bræða úr sér. Ég fengi nákvæmlega ekkert að gert. Því að þessi ógeð hjá Apple, eru svo hrokafullir að þeir hafa ekki séð neina ástæða til þess að bjóða upp á “shut down” möguleikann, því eins og allir vita þá virkar bara allt hjá Apple. Eins mikið og ég hata Microsoft, þá hef svo mikið meira en nóg af þessari apple dýrkun. Tíhíhíhíhí, sjáið hvað allt hoppar og skoppar á skjáborðinu hjá mér, er það ekki awesome.