Mistök dagsins
Í kvöld laumaðist ég út úr húsi, sem ég reyndar geri ógjarnan. Af þessu tilefni fór ég með druslunni henni fröken Sigríði og hinum glæsilega unga herramanni Zeranico í bíóhús að sjá prýðismyndina V for Vendetta. Zeranico var afskaplega vel til hafður, íklæddur sjakkett og bol sem mér fannst alveg sérstaklega eitthvað 101. Sigríður var að sama skapi uppábúin í föstudagsgallanum tilbúin til stórræða. Ég hinsvegar finn það sterkt með sjálfum mér að ég þarf fyrr en seinna að uppfæra í wardróbinu mínu, sem er fyrir löngu úr sér gengið og jafnvel til háborinnar skammar. Ég sem hef haldið út vel til vönduðu matarræði síðan um áramót, ákvað að ekki er hægt að fara í bíóhús án þess að festa fé í Coca Cola og poppkorni. Ég get svosem ekki séð að ég hafi haft mikla slæmsku af, og er ekki laust við að ég sé allur hinn hressasti. Er myndinni lauk var til staðar áður óþekkt stærðargráða af gleði sem varð þess valdandi að við brunum leið sem liggur niður á Kaffibrundsluna svokölluðu. Ég hefði betur látið það vera, því þar var fullt af fólki sem ég neyddist til að eiga samskipti við.