SiggiSiggiBangBang

Draugagangur

Oct
02

Þegar ég var barn eyddi ég öllum mínum stundum hjá gamalli konu sem bjó í nágrenni mínu. Hún var mér ákaflega góð. Hún var ekkja, en átti nokkur uppkomin börn ásamt barnabörnum. Hún bjó í rauðu húsi niður í móa. Hún sat við opinn gluggann sinn og fylgdist með okkur krökkunum leika í móanum. Áður en ég vissi var ég farinn að venja komur mínar í heimsókn til hennar. Henni þótt afar vænt um það. Ég sá það í hvert það skipti sem hún lauk upp dyrunum fyrir mér, þá lifnaði yfir henni og hún bauð mig velkominn. “Nei, er þetta ekki hann Sigurður minn” sagði hún himinlifandi þegar hún sá hver stóð fyrir utan. Mér leið alveg prýðilega í hennar félagsskap. Mér leið betur hjá henni en í félagi við krakkaskrímslin sem ég neyddist til að eiga samskipti við. Hjá henni fannst mér ég vera óhultur frá heiminum sem ég var strax á þessum aldri farinn að upplifa miskunnarlausan.

Hún var mér yndisleg. Ég óx úr grasi, en kynni okkar héldu áfram. Einhvern tímann gerðum við samkomulag okkar á milli. Við vorum nokkuð viss um sökum aldurs að þá yrði hún að öllum líkindum fyrri til að kveðja yfir móðuna miklu. Við urðum ásátt um að hún reyndi eftir fremsta megni að láta mig vita af sér eftir að hún væri öll.
Árin liðu. Úr mér teygðist og lífið varð flóknara. Mig tekur það sárt að hafa ekki sinnt henni síðustu ár ævi hennar. En því miður réri ég róður á lífssins ólgusjó þegar hún kvaddi þennan heim.

Ég hef aldrei orðið var við hana síðan þá. Mig hefur oft og mörgum sinnum dreymt húsið sem hún átti heima í þegar ég kynntist henni. En aldrei hana. Síðustu nótt hinsvegar dreymdi mig hana. Ég man ekki nákvæmlega hvað var að gerast í draumnum. Ég man einungis að mér þótti það óþægilegt. Einhvern meginn milli svefns og vöku ákvað ég að ef hún væri á svæðinu, þá ætlaði ég að láta hana vita af því að ég hefði orðið hennar var. Með það í huga sagði ég nafnið hennar upphátt. Í kjölfarið á því, fékk ég þá almestu gæsahúð sem ég hef fengið í svefni. Gæsahúð sem hríslaðist um mig allan.

Ef þetta var vinkona mín að læðast þarna upp að mér, þá tók hún sér aldeilis tíma í að standa við samkomulag okkar. 🙂