SiggiSiggiBangBang

Svenni

Oct
21

Í nótt hitti ég fyrir í draumi gamlan vin minn sem andaðist fyrir tveimur árum síðan. Hann var alveg sérstaklega kjaftfor og alveg ævintýralega skemmtilegur. Við unnum saman hjá Kópavogsbæ, fyrir ríflega hálfum öðrum áratug síðan.

Í draumnum hafði ég neyðst til að fara vinna þar aftur, vegna þess að viðskiptalífið hafði ekki borið þann ávöxt sem ég áætlaði. Ég var á leiðinni í kaffi á fyrsta vinnudeginum mínum og var búinn að kasta kveðju á nokkra sem ég kannaðist við frá fornu fari.

Inn á kaffistofu sá ég meistarann sitja í appelsínugulum heilgalla. Hann var niðursokkinn í að segja þeim er þar voru svaðilsögur, þegar ég staðnæmdist beint fyrir framan hann. “Nei, hver andskotinn, ert þetta þú kvikindið þitt?”, sagði hann þegar hann varð mín var. Hann var að reykja Rosa Danica vindil, sem var eftirlætið hans. “Ég hélt þú værir steindauður!”, sagði ég og réði mér varla fyrir kátinu yfir að fá að hitta hann aftur. “Hver í andskotanum laug því í þig?”, það skríkti í honum. Ég fór að útskýra það fyrir honum hver hefði sagt mér frá því að hann væri allur. “Nei, ég er ekki dauður eitt né neitt”, sagði hann og hló kröftuglega, þangað til hann fór að hósta.

Klukkan var orðin rúmlega 10 að morgni og ég vaknaði skælbrosandi.

Orð eins og bekenna, heilgalli, samsorta, stútkunta, legáti og drulluháleistur, eru orð sem hann Sveinn vinur minn kenndi mér að nota í bæði leik og starfi.