SiggiSiggiBangBang

Allt er gull sem glóir

May
09

bissness_fundur.jpg
Ég hef unnið mig í áliti um allan heim fyrir ótrúlega færni í lífsleikni. Ekki á færi hvers og eins, en gersamlega leikur í höndunum á mér, og þá sér í lagi í aðstæðum, þar sem stórar fjárhæðir eru í húfi.

Í dag sat ég einmitt mikilvægan viðskiptafund, með alveg ákaflega borubröttum mönnum. Þar var ekki til umræðu nein skiptimynt, heldur heilu milljarðarnir. Ég var hafður með á þessum fundi, upp á punt. Vegna þess að það er svo mikil prýði í mér, – út af því að ég þyki henta jafn vel til skreytinga og hauslaus stytta, eða eitthvað annað transcontinental rusl.

Er ég gekk inn í fundarherbergið, tók ég í höndina á lykilmönnum þessa fundar. Þegar ég kynnti mig, notaði ég það óbrigðula ráð að dýpka í mér röddina, til að hljóma meira traustvekjandi. Ég hef æft þessa rödd fyrir framan spegil, og þó ég segi sjálfur frá, tel ég mig með þessu fá fólk til að halda að ég sé mun traustari, og merkilegri en ég í raun og veru er. Þegar ég var búinn að kynna mig settist ég niður með dýrasta og fínasta mjólkurkaffið sem ég hef á ævi minni smakkað, hef ég þó flakkað heimshornanna á milli.

Vel til hafður maður, sat andspænis mér. Það mátti sjá að hann var á spánýjum Audi. Hann passaði sig nefnilega á að hafa lykilinn af bílnum á borðinu fyrir allra augum, þannig að Audi merkið vísaði upp. Er ég varð þess var, sótti að mér efi um eigið ágæti, sem varð þess valdandi að ég ákvað að halda að mér höndum, og tala ekki nema á mig væri yrt. Er leið á fundinn, jókst taugaveiklun mín, og áður en ég vissi af, var ég heltekinn skelfingu. Hvað ef þau átta sig á því að ég er fábjáni, hugsaði ég óttasleginn. Þegar hér var komið við sögu, fór hugur minn á flakk. Það gerist af sjálfu sér þegar taugaveiklun mín fer yfir ákveðið hámark. Einskonar varnarviðbrögð heilans.

amma_og_eg1.jpgÍ huga mér, var ég aftur orðinn krakki. Ég var staddur í fanginu á henni ömmu minni, í hlaðinu heima. Það var sumar. Amma, sem í mínum huga var minnst 150 ára, var klædd samkvæmt nýjustu tísku. Hún var alltaf mjög smart til fara. Undantekningalaust var hún með nýlagað hárið. Til þess að halda hárinu fallegu, sat hún í eldhúsinu hjá mömmu svo tímunum skipti með eitthvað á hausnum sínum, sem kom mér fyrir sjónir eins og vítisvél úr geimvísindamynd. Ég hafði margoft séð til hennar. Eftir því sem ég best vissi, hafði amma mín atvinnu af að vera í hárlagningu. En hvað vissi ég? Ég var nú einu sinni bara þriggja ára. Þegar ég var þriggja ára, þurfti ég ekki að hafa áhyggjur af því hvort ég kæmi illa fyrir á viðskiptafundi. Þegar ég var þriggja ára, þurfti ég ekki að skammast mín fyrir að eiga ekki Audi. Þegar ég var þriggja ára, var ég ekki hugsa um það hvort mér væri óhætt að verða ástfanginn. Þegar ég var þriggja ára, þá var ég ekki mikið að pæla í því hvort væri betra, venjulegt hveiti, eða spelt hveiti. Þegar ég var þriggja ára, þá var ég ekki með kosningarétt, og þurfti ekki að taka ákvörðun um það hver væri minnsti þorparinn af öllum þorpurunum í þorpinu.
Þegar ég var þriggja ára, hélt ég að fullorðna fólkið hefði svör við öllu. Að það kynni allt og gæti allt.

“Við erum að tala um marga milljarða!”, sagði maðurinn sem sat á móti mér stórkallalega. Ég hrökk í kút, er ég rankaði við mér í köldu og andstyggilegu fundarherberginu. Rifinn á brott af hamingjureitnum sem hugur minn hafði reikað á. 34 ár inn í miskunnarlausri framtíðinni.

Milljarðar, smilljarðar, hugsaði ég og reyndi að líta út fyrir að vera gáfaður.