SiggiSiggiBangBang

Bíddu pabbi, bíddu mín

May
24

delicatessen1.jpgÞað leiðinlegasta sem ég veit er að hlusta á nágranna mína skrönglast. Nágrannar mínir hér á Óðinsgötu leggja svo sem ekki oft kapp á þessa iðju, en þá sjaldan sem þeir lyfta sér upp þarf ég að hlusta á það. Verð ég þó að segja að ég hef haft nágranna sem hafa staðið sig mun betur en þeir sem búa hér á hæðinni fyrir ofan mig.

Ungt og bólugrafið, virðast ekki finna hjá sér þörf til að gera nokkurn skapaðan hlut nema undir áhrifum áfengis. Þannig að hér er ekki riðið, nema fólk sé froðufellandi af áfengisneyslu. Án undantekninga á kynlífsathöfnin sér stað undir morgun eftir að skemmtistöðum hefur verið lokað og má segja að hún standi yfir allt alltof lengi. Það er nú einu sinni staðreynd, að þegar áfengi er með í spilinu getur unglingurinn nánast haldið áfram endalaust að því gefnu að áfengið hamli ekki blóðflæði til neðri byggða.
Í tilfelli unglinganna hér á efri hæðinni, er hægt að merkja meiri tilþrif og tilfinningar þegar fótbolti er í sjónvarpinu, en þegar ástarleikir eru leiknir. Hljómar athöfnin eins og verið sé að færa húsgögn úr stað, meðan róninn dinglandi með prjóninn kreistir ósynda gúmmíönd. Er síðan verið að bögglast við þetta þangað til annað hvort eða bæði sofna vegna óbærilegra leiðinda.

Ég hinsvegar sofna ekki svo glatt aftur, og neyðist til að fara á fætur sem er án efa eitt af því versta sem ég geri yfir allan daginn. Já, blessuðu ungmennin. Frammistaða þeirra er ekki svipur hjá sjón við hliðina á óbilandi orku nágranna minna á laugaveginum. Já, þau kunnu sko til verka.

Ég þarf að þola allskonar ófögnuð í boði nágranna minna. Ég þarf sem betur fer ekki að hlusta á konuna hér við hliðina á mér eðla sig. Ég reyndar verð hennar aldrei var, nema þegar hún fær sér í litlu tánna, þá tekur hún við sér og til að tjá gleði sína spilar hún hinn svellkalda klassíska slagara Gvendur á Eyrinni.
Nú, eins og allir sem til þekkja, þá er Gvendur á Eyrinni eitt það almesta stuðlag sem samið hefur verið, og má ég hafa mig allan við til að fara ekki bara sjálfur á fyllerí þegar ég heyri þessa óbilandi gleði smjúga í gegnum 50 cm þykkan steinsteypuvegginn.
Þar með er tónlistarsmekkur hennar ekki rakinn, því hún á fleiri diska; eins og diskinn með Bjartmari Guðlaugs, svo ekki sé á minnst The Best of Vilhjámur Vilhjálmsson. Ekki misskilja mig. Tónlistin sem Vilhjálmur Vilhjálmsson spilaði og söng, er órjúfanlegur hluti af því að vera íslendingur, en eftir að ég sá börn á Austurvelli hlaupa undan róna með ghettoblaster sér við öxl spilandi lagið “Bíddu pabbi, bíddu mín” hef ég haft mjög blendnar tilfinningar gagnvart því lagi.

Hjörtu okkar hér í hverfinu slá síður en svo í takt.

Ég hlakka til að fá saxafóninn til landsins, því minn kall er kominn í hefndarhug, og ég þarf ekki að vera fullur til að spila músik, svo mikið er víst.