hnífastatíf
Þegar ég dvaldi út í Ísrael varð ég fyrir árás vitstola manns. Maður þessi sem að sjálfsögðu var Dani, stakk mig í bakið með eldhúshníf, þannig að það vantaði einungis fjóra millimetra upp á að hnífsoddurinn gerði gat á gollurhúsið sem umlykur kærleiksríkt hjarta mitt. Hefði bauninn sumsé sett örlítið meiri kraft í hnífstunguna, þá væri ég að öllum líkindum ekki að skrifa þennan veflók.
Ég lá í nokkra daga á spítala í útjaðri Tel Aviv. Þegar ég útskrifaðist, fór ég í fangelsið – þar sem tilræðismaður minn sat bak við lás og slá – til að gefa lokaskýrslu. Á leiðinni þangað ákvað ég að kaupa handa honum karton af sígarettum, svo hann hefði nú eitthvað við að vera þangað til örlög hans yrðu ákveðin.
Fangelsið var álíka aðlaðandi og fangelsið í myndinni Midnight Express eftir Alan Parker. Þegar þangað var komið, var ég leiddur á fund ísraelskrar lögreglukonu sem hafði eitt sinn verið ofursti í hernum. Hún sagði mér hluti sem ég ætla ekki að tíunda hér, – en líða mér ekki úr minni svo lengi sem ég lifi. Að skýrslutöku lokinni, fór ég niður í fangageymslu til að hitta tilræðismann minn. Hann mætti mér í fylgd fangavarða, hlekkjaður á fótum og höndum. Mér þótti miður að sjá hvernig fyrir honum var komið. Hann sagði mér að hafa ekki af þessu neinar áhyggjur; að þetta væri bara járn og að það væri engin ástæða til að gefa járnadrasli eitthvað vægi. Ég gekk að honum, faðmaði og óskaði honum velfarnaðar. Ég sá hann aldrei aftur.
Afhverju er ég að segja þessa sögu hér á vefsetri mínu?
Léttir dómar yfir kynferðisglæpamönnum fara alveg sérstaklega í skapið á mér. Í gær féllu tveir dómar, annar taldi 2 ár yfir alræmdum nauðgara og hinn 5 1/2 ár yfir 19 ára gömlum manni fyrir tilraun til manndráps. Ég þori að fullyrða að ekkert af fórnarlömbum hins alræmda nauðgara er á leiðinni í fangelsið til hans, til að gefa honum karton af sígarettum og óska honum velfarnaðar. Hinsvegar eru mun meiri líkur á að pilturinn sem dæmdur var fyrir tilraun til manndráps, fái samúð þeirra sem að málinu standa.
Segir það ekki talsvert um hversu grafalvarlegir kynferðisglæpir eru?