SiggiSiggiBangBang

Kúlurass lífs míns

Jun
24

Ég hef verið haldinn banvænum offitusjúkdómi frá því að ég man eftir mér. Fyrir nokkrum mánuðum síðan komst ég varla fram úr rúminu án þess að beita óprúttnum pipp pipp pipp barbabrellum. Á köldum janúarmorgni féllust mér hendur. Ég brast í grát í híbýlum mínum og sór þess eið að enn á ný skyldi ég ná því takmarki að verða mjór, eins og ég var hérna í den þegar fólki þótti raunverulega vænt um mig. Í eftirlætis verslunarkjarnanum mínum: Kringlunni; keypti ég mér kokkabókina hennar Sollu minnar og hóf að elda upp úr henni. Gómsætis kókosmjólkursúpur, baunagúmmilaði, hummus, rauðrófupottrétti, babghanouj, að ógleymdu spelt brauði sem ég baka 2-3 sinnum í viku. Ég tók einnig ákvörðun um að éta ekki neitt sem innihéldi sékur. Þetta hefur gengið svona líka prýðilega og hef ég misst u.þ.b 14 kíló. Það gerir undirritaðan sælan, glaðan og umfram allt kærleiksríkan og umburðalyndan. En að breyta matar-æðinu, hefði dugað mér skammt. Því tók ég óspart til við að hlaupa marga marga kílómetra í viku hverri. Nú er svo komið að ég er farinn að hlaupa 10 ferðir upp og niður Öskjuhlíðina til að æfa þartilgerðan kúlurass, sem er eitt af því eftirsóknaverðasta sem til er í nútímalífi. Þegar ég er kominn með kúlurass sem ég get fellt mig við, ætla ég að liggja upp í sófa dægrin löng og þukla hann, mér til ánægju og yndisauka.

Já, þá verður gaman.