SiggiSiggiBangBang

Yfirsjónir unglinga

Jul
22

Nú er nýmóðins að halda úti moggabloggi. Þar gefst sýnihyglisjúku fólki af öllum stærðum og gerðum, tækifæri á að krækja í fréttir sem skrifaðar eru á þessum ágæta fréttavef.

Hér er úrdráttur úr grein í Morgunblaðinu frá árinu 1917 sem ber fyrirsögnina: “Yfirsjónir unglinga.” Umfjöllunarefni greinarinnar er vaxandi glæpatíðni meðal ungra manna, erlendis. Leitast er við að útskýra hversvegna ungir menn leiðast út í glæpi. Núna 90 árum seinna erum við að týna til sömu ástæður fyrir ofbeldi og glæpahneigð.

Þess hefir greinilega orðið vart í öðrum löndum, að glæpir hafa aukist hin síðustu ár og sérstaklega hafa yfirsjónir barna og unglinga farið mjög í vöxt í stórborgum. Þetta er mönnum mikið áhyggjuefni, sem vonlegt er, og til þess að stemma stigu fyrir þessum ófögnuði, hafa Bretar látið rannsaka, hverjar orsakir muni til þess liggja, og hversu því megi afstýra.
Ekki er oss fyllilega kunnugt um, hvort yfirsjónir drengja og unglinga hér á landi hafi vaxið eða minkað hin síðari ár, en erum þó hræddir um, að þeir hafi fremur aukist sumstaðar, – því miður, svo að oss er full þörf að gefa þessu máli gaum.
Enskur dómari komst svo að orði fyrir nokkru, að orsakir glæpa eða yfirsjóna drengja og unglinga væri einkum þessar: Margir feður eru svo önnum kafnir, að þeir geta sjaldan litið eftir drengjum sínum, svo að þeir alast upp í götusolli og illum félagsskap; þeir ganga á kvikmyndahúsin, þar sem þeir sjá sniðug brögð innbrotsþjófa leikin. Þetta heillar hugar þeirra og þegar út kemur vaknar afvegaleidd ævintýraþrá þeirra til þess að fremja þessi sömu verk.

Við eigum kannski flottari græjur, en að upplagi erum við sömu djöfuls fíflin.