Rúmfatahyskislagerinn
Mér finnst fátt fyndnara en fólk sem lifir í þeirri trú að það sé alltaf verið að hlunnfara það. Ég var einmitt staddur í Rúmfatahyskislagernum um helgina, þegar ég varð var við óánægjuhljóð í ungu pari sem var þarna í rómantískri laugardagsgöngu. “Það er ekki hægt að fá neina þjónustu hérna,” hnussaði feitlagin stúlkan, þess fullviss að þetta væri samsæri gegn henni og opinmynntum kærasta hennar. Hann stóð við þétt við hlið hennar og tók heilshugar undir ummælin: “Hverskonar verslun er þetta eiginlega.”
Ég reyndar man ekki hvort hún hafi verið feitlagin, eða hvort hún hafi bætt á sig 30 kílóum í hausnum á mér síðan þau fönguðu athygli mína. Í minningunni er ég líka búinn að setja á hann svona hvíta hnakkahúfu, eins og þykir móðins meðal vaxtarræktarhnakka. Og þarna stóðu þau, með mig sem vitni. Hann opinmynntur og hún svínalin á McDonald’s. Allt þeirra líf hafði einhver með beinum eða óbeinum hætti svindlað á þeim, eða ekki sinnt þeim, þegar þau höfðu svo rækilega unnið sér inn viðurkenningu meðbræðra sinna.
Ég sat með Obi Wan Kenobi fyrr í dag. Hann hafði orð á að engu væri líkara en ég væri orðinn fordómalaus með öllu. Já, eins og um töfrabrögð væri að ræða, sagði hann. Ég vildi ómögulega eyðileggja mómentið með að segja þessum andlega leiðtoga mínum frá því þegar ég brá mér af bæ til að kaupa mér tvo sófapúða í Rúmfatahyskislagernum.