The One That Got Away
Mér núna á þessari stundu er hugleikið lagið hans Tom Waits: The one that got away. Hvers vegna, veit ég ekki.
Mér núna á þessari stundu er hugleikið lagið hans Tom Waits: The one that got away. Hvers vegna, veit ég ekki.
En skelfilegt að hugsa svona, gæti einhverjum komið til hugar. Mér finnst hinsvegar fátt eðlilegra en að spyrja sig þessarar spurningar. Að velta því fyrir sér hvar maður verður staddur á þessari ögurstundu, hefur ekkert með þunglyndi eða lífsleiða að gera. Ég persónulega hef tildæmis ákveðið að ég ætla að deyja heima hjá mér og þegar ég tala um heima hjá mér, þá ég ekki við kytru í þjónustuíbúðum aldraðra. Nei, ég er að tala um húsið mitt, þar sem ég ætla að eyða síðustu tuttugu árunum mínum í. Þar ætla ég að liggja fyrir dauðanum í svefnherbergi með risastórum gluggum og hvítum smekklegum gluggatjöldum. Þegar vindar blása, flaksa gluggatjöldin til og frá. Ef mér vegnar sæmilega á næstu árum, ætla ég að ráða mann í að spila á píanó tónlist eftir Eric Satie og Chopin; allavega rétt á meðan ég brenni síðustu dropunum.
Meðan ég bíð þolinmóður eftir dauðanum, ætla ég að reyna eftir fremsta megni að vera snyrtilegur til fara. Það hefur tíðkast, að vera uppábúinn við hátíðleg tilefni. Að deyja, er í mínum huga alveg jafn hátíðleg uppákoma og gifting og skilnaður. Ég verð því prúðbúinn á banalegunni.
Þegar ég hugsa um aðstæður, þá þykir mér ekki svo mikilvægt að ég sé umkringdur fólki. Mér finnst þó mikilvægt að ég eigi ennþá minningar mínar um ævintýralega ævi. Ég veit að á þessari stundu, verð ég ánægður og sáttur í hjarta mínu. Ég kem til með að horfa um farinn veg, með ekki svo mikið sem snefil af eftirsjá.
Þegar í mér hryglir, skipta þessir litlu hallærislegu hlutir – sem ég að öllu jöfnu gef vægi – ekki neinu rassgatsmáli. Hvort einhver hafi þrifið helvítis sameignina vel eða illa, er ekki eitthvað sem ég kem til með að eyða mínum síðustu stundum í. Mér verður slétt sama um allt prjál mannanna.
Já, það verður líf og fjör, þegar ég geyspa golunni. Öllum er frjálst að mæta. Boðið verður upp á grænt þvaglosandi te.