SiggiSiggiBangBang

Mónólókar

Oct
03

peacock.jpgMónólókur er afskaplega áhugaverð tegund af manneskju. Mónólókurinn er aldrei fyllilega sáttur í samskiptum sínum við aðra, nema hann nái að yfirgnæfa viðmælendur sína með misskemmtilegu orðagjálfri.

Orðaforði Mónólóksins inniheldur oft framandi orð sem sótsvartur almúginn getur ekki einu sinni stafað í gúgúlleit. Orð eins og quintessential og debat; “áhugavert debat það” eða “þetta er ekkert annað en quintessential” gæti mónólókurinn tekið upp á að segja hátt og snjallt með djúpri karlmannlegri röddu. Viðstaddir hrökkva í kút og skilja það strax að ekki borgar sig að véfengja, né storka Mónólóknum. Hann gæti þá tekið upp á að nota enn flóknari orð í þeim tilgangi að þagga niður í nærstöddum.

Þegar Mónólókurinn hefur rutt öllum þeim úr vegi, sem mögulega geta ógnað tilveru hans, tekur Mónólókurinn til óspilltra málanna. Ef vel er að gáð er greinilegt á öllum hans tilburðum að hann hefir æft orðræðuna fyrir framan spegil, eða reynt hana á maka og börnum.

Þegar svo fer að líða á sjálfshyggjurunkið og sýnihyglina, er gott að finna sér svokallaðan hamingjureit. Að láta hugann reika og grafa upp einhverja fallega minningu, sem yljar manni um hjartaræturnar, rétt á meðan Mónólókurinn lýkur sér af. En hafa skal gát á, því Mónólóknum er umhugað að á hann sé hlustað. Hann fylgist með mikilli ákefð, hvort athygli áheyrenda sé óskert. Ef hann er svo fullviss, heldur hann ótrauður áfram. Ef honum finnst athyglinni ábótavant, hækkar hann róminn og sækir í sig veðrið.

Hann skal líka eiga síðasta orðið í hverskyns samræðum, þ.e.a.s ef svo ólíklega vilji til að til verði samræður þar sem fleiri heldur en bara Mónólókurinn talar. Ef einhver leggur orð í belg, ég tala nú ekki um ef einhver á frumkvæðið af því að stofna til umræða, þá snýr Mónólókurinn upp á sig, dregur athyglina að sér með að þykjast hafa staðfasta skoðun eða kunnáttu á hverju svo sem um er rætt. Þannig tekur hann umræðuefnið, gerir að sínu. Hann fjallar um umræðuefnið frá hinum og þessum hliðum alveg burtséð frá því hvort hann hafi kynnt sér það, hann skeytir síðan við kjaftablaðrið niðurlag, þannig að öllum finnst að umræðuefninu hafi verið gerð frekar góð skil, því að það sem Mónólókurinn hefur að segja er að hans mati algerlega tæmandi og engin ástæða til að ræða það eitthvað frekar. En Mónólókurinn áttar sig ekki á því að við munum öll deyja á endanum og þá verður öllum skítsama hvað hann sagði og hvað hann lagði á sig til að geta hlustað á sjálfan sig tala.