Lífsharmurinn
er kominn í hús. Vorum að taka upp nýja sendingu. Fyrstir koma fyrstir fá. Hinn eldhressi lífsharmur hefir enn og aftur tekið hús á mér. Ég sat í góðu yfirlæti og hlustaði á happy talking talking, happy talk á öldum internetsins þegar barið var að dyrum hjá mér. Hver getur þetta nú verið, hugsaði ég með hausnum mínum hárlausa. Er ég lauk upp dyrunum, stóð hann þar niðurlútur og heilsaði mér með ferskum andblæ af trega og sorg. Blessaður maður, sagði ég kampakátur yfir að sjá þarna gamlan og góðan vin. Komdu inn, ég set köff yfir hlóðir. Lífsharmurinn kom sér fyrir á koll inn í eldhúsi. Himinlifandi dansandi til og frá í ruthma og melódíu hafði ég til köff og sékursnúða. Jæja, Lífsharmur, sagði ég með kumpánlegu röddinni minni; röddinni sem ég hafði tileinkað mér eftir að stúdera hressa útvarpsmenn á hinni lífsglöðu útvarpsstöð Bylgjunni.
Jæja, Lífsharmur, sagði ég og af miklum myndarskap skenkti ég honum gúmmilaðiköff af bestu sort í veðraðan bolla. Eftir að hafa rætt við þennan gamla trausta vin drykklanga stund, komst ég að því að ég hef vaðið villu undanfarna mánuði. Ég hef misst sjónar af sannleikanum, sem er óumdeilanlega sá að lífið er alveg sérstaklega kjánalegt og alveg gersamlega tilgangslaust. Heimurinn er yfirfullur af fáráðlingum sem sáttir eru í hjarta sínu, ef til er nóg af nachos og kóka kóla. Fyrir þeim, skiptir eftirfarandi mestu máli: ríða, éta, skíta, sofa, horfa á sjónvarp, og þá helst í þessari röð. Nú ætla ég með lífsharminum í bíltúr og mega því hresslingar og aðrir fábjánar hafa varann á. Já, það hefur svo sannarlega ræst úr þessum degi.