Marmarakúlur
Ég á von á því þegar ég hef leyst lífsins gátu að ég heyri ég svona smell í hausnum á mér, rétt eins og síðasta pússlið í pússluspilinu sé komið á sinn stað.
Þetta gerðist hjá Eckhart nokkrum Tolle. Hann sér til mikillar armæðu vaknaði upp einn morguninn, hafði sig til, setti á sig vellyktandi og rétt á meðan hann burstaði í sér tennurnar gerði hann sér grein fyrir, að líf hans var með öllu tilgangslaust. Hann skyrpti út úr sér tannkreminu, missti úr greipum sér tannburstann og lippaðist niður í gólfið náfölur af lífsins harmi. Þegar hann var búinn að liggja þar eins og hvert annað hrúgald í dágóða stund, heyrðist fyrrnefndur smellur í hausnum á honum. Hann spratt á fætur eldhress og skælbrosandi, klæddi sig í skrautlega hawaii skyrtu og valhoppaði kampakátur út úr húsinu. Er hann sprangaði í gegnum almenningsgarð borgarinnar, kom hann auga á bekk sem honum fannst einkar fallegur, hann fékk sér sæti og dáðist að fegurð heimsins. Þrjú ár liðu og ennþá sat Eckhart á bekknum. Hann vissi ekki hvað tímanum leið, enda tíminn bara asnaleg uppfinning mannskepnunnar. Í dag vilja allir ólmir sitja fyrirlestur með Eckhart Tolle þar sem hann situr og þegir í margar klukkustundir og virðir fyrir sér fataval áhorfenda.
Ég hef hitt nokkuð marga á lífsleiðinni sem hafa reynt að fullvissa mig um að þeir hafi uppgötvað leyndardóm lífsins. Þeir eru flestir sammála um að ekki er til nema ein aðferð til að nálgast lausnina, hvort sem sú aðferð feli í sér að garga og berja sjálfan sig í hausinn meðan einhver fábjáni messar yfir viðstöddum, eða hvort éta skuli einungis hráfæði til að ná settu marki, eða hvað í fjandanum það er sem lætur handhafa sannleikans halda að þeir sjálfir séu komnir heim í hlað og geti þar af leiðandi hlassað sér í sófa, hámað í sig kartöfluflögur og drukkið kóka kóla, fitnað og horft óáreittir á raunveruleikasjónvarp.
Ekki svo að skilja að ég vilji ekki glaður halda KJ og njóta augnabliksins, því fer fjarri. Ég held þó að við séum öll meira og minna stútfull af hægðum og mig grunar að um leið og við gerum okkur grein fyrir því, þá séum við búin að fatta brandarann.
Þangað til er gott að hlusta á Rhapsody In Blue: