SiggiSiggiBangBang

Draumablogg

Dec
13

Í fallega innréttuðu sálarlífi mínu dreymdi mig eftirfarandi draum, nóttina sem leið:

Ég er á leiðinni í svokallað bekkjarríjúníon. Ég finn kyrfilega fyrir því að mig langar ekki vitund til að mæta. Ríjúníonið er haldið í fallegum veislugarði með sundlaug. Þegar þangað er komið kasta ég kveðju á nokkra bekkjarfélaga og hlakka yfir því í huganum hvað þeir eru orðnir gamlir og feitir, sem er eitthvað annað en ég sem er slim og slank. Ég er ekki búinn að vera lengi í gylleríinu, þegar allir karlgestirnir setja á höfuð sér kippot(gyðingahúfur) og fara að syngja gyðingasöng, nánar tiltekið Ma’Nishtana, sem er bæn sungin í kringum páska, eða Pesach. Ég færist allur í aukanna, en átta mig á að ég þekki í raun og veru engan þarna lengur, sem er fínt því allt er betra en að eyða tíma með þeim skoffínum sem voru með mér í skóla. Ég tek undir með söngnum, en það næsta sem ég veit, þá er ég á botni sundlaugarinnar, sem er galtóm. Ég er ekki einn, því með mér eru Marx bræður að berja á ásláttarhljóðfæri sem ég kann ekki deili á. Groucho er með vindil í kjaftinum og veifar til mín kumpánlega. Ég finn að eitthvað vott snertir andlit mitt, lít upp og sé að það ganga yfir okkur blóðgusur í takt við ásláttinn. Okkur þykir það ekki neitt óhugnanlegt, heldur lítum við á gusurnar sem ómissandi þátt í alveg prýðilegri skemmtan. Við dönsum, hamingjusamir, glaðir og frjálsir.

Um þetta leyti, vakna ég til þessa heims.