Einkennilegt torfblogg
Einstaka sinnum hitti ég fyrir manneskjur sem hrífa mig með sér á annað tilverustig, þar sem gilda önnur lögmál en ég á að venjast í þessari barnalegu uppfærslu sem ég hef verið svo djarfur að kalla líf. Meiri skrúðlanglokan þessi setning. Þegar þetta gerist gleymi ég því að við erum öll fífl og fábjánar, upptekin af því að reyna að ganga í augun á hvoru öðru. Í flestum tilfella eru það mikil mistök.
Mér finnst einkennilegt eftir kynni af því tagi sem ég greini frá í orðagjálfrinu hér að ofan, þegar viðkomandi manneskja, eða öllu heldur nafn hennar fer ítrekað að dúkka upp þar sem ég ven komur mínar. Tildæmis á vefsíðum, í netpóstum, auglýsingum, osfrv. Ég hef þar á undan aldrei heyrt á þann er um ræðir minnst. En eftir að viðkomandi hefir hrifið mig á ógnarhraða inn í geðsýki óskilgreindrar hrifningar, þá rétt eins og um töfrabrögð sé að ræða, er hún alls staðar, eins og umheimurinn sé að sprella í viðkvæmu og umfram allt róstursömu tilfinningalífi undirritaðs.
Ég hef ákveðið að taka árið 2008 frá í þessa fyrsta flokks þráhyggju.
Svo eru einhverjir sem segðu að ég veiti því ekki eftirtekt, því sem ég ekki hef haft einhver kynni af, en þeir hinir sömu er gersneyddir allri rómantík og vita ekki hvað það er að lifa og elska.