SiggiSiggiBangBang

BDD

Dec
19

amputee.jpgÞví er svo farið með marga mannskepnuna, að henni er ókleift að finna til gleði vegna útlitsgalla af ýmsu tagi. Í skúmaskotum sálartuðru sinnar halda sumir að ef nefið á þeim væru aðeins lögulegra, varirnar bústnari, brjóstin stinnari, typpalingurinn örlítið lengri, kílóunum færri osfrv. -þá geti þeir fyrst gengið um fjölfarnar götur, hnarreistir eins og guðs börnum sæmir. Ég sem hef orðið að sætta mig við að vera rassaborugatsljótur, er ekki laus við þennan hégóma. Ég hef tildæmis aldrei verið í ásættanlegri þyngd. Þrátt fyrir að vera á stundum nokkrum kílóum undir kjörþyngd, þá finnst mér ég alltaf geta verið aðeins grennri. Ég er líka um það viss að ef ég væri grennri, þá væri ég mun hamingjusamari en ég er.

Á dögunum sá ég heimildamynd um manneskjur með þá allra einkennilegustu sálrænu vankanta sem ég hef heyrt um: BDD eða Body Dismorphic Disorder. Margt er mannanna meinið, varð mér að orði þegar ég horfði opinmynntur á þessa mynd.
Mér finnast lýtaaðgerðir margar hverjar alveg óttalega asnalegar; þó í sumum tilfellum get ég skilið að fólk vilji aðeins hressa upp á sig. Fólk með BDD, finnst það hinsvegar ekki fullkomnað nema það missi útlim. Þá ekki hvaða útlim sem er, heldur finnst þeim kannski hægri fótur, eða báðir fætur flækjast fyrir sér. Í þessari mynd sem hét: Complete Obsession: Body Dysmorphia, fylgjumst við með tveimur manneskjum sem reyna að berjast í gegnum kerfið til að fá útlimi fjarlægða með aðgerð. Gregg sem er ósköp venjulegur vel gefinn langskólamenntaður maður, er að öllu leiti eðlilegur nema að honum finnst hægri fóturinn sinn gera sig afbrigðilegan, ljótan og ógeðslegan. Hann hefur reynt eftir fremsta megni að skilja ástand sitt, sótt sálfræðitíma í áratugi, menntað sig sjálfur í sálfræði, ekkert af þessu hefur borið árangur, hann vill ekki lifa lífinu með hægri fót áfastan líkamanum. Auðvitað, hver skilur þetta ekki. Ömurlegt að vera með fætur.

Ég hinsvegar, er viss um að ég lifi ekki hamingjusömu lífi fyrr en hausinn á mér hefur verið fjarlægður.

Skrítin er hún tilvera. Hvenær ætli geimskipið sem skildi mig hérna eftir, komi eftir mér? Ég verð að viðurkenna að ég er svolítið sár út í þá. Gátu þeir ekki valið einhverja aðra plánetu í öðru sólkerfi? Nei, þeir þurftu að setja mig hérna með stjörnuvitlausri mannskepnunni, sem hagar sér eins og fucking fífl, hvenær sem færi gefst.